Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 11:43:40 (7365)

1998-06-03 11:43:40# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[11:43]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. að það hefur að sjálfsögðu áhrif á það hvernig stjórnendur fyrirtækja stjórna þeim, hvað skatthlutfallið er hátt. Það er auðvitað alveg ljóst að ef skatthlutfallið væri eins og það var áður, kringum 50%, þá freistuðust menn auðvitað til þess sem hv. þm. nefndi ef þeir sæju fram á umtalsverðan hagnað af fyrirtæki sínu á rekstrarárinu að fjárfesta þá í óþörfum hlutum undir lok þess til að draga úr skattgreiðsluþörfinni. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. í því.

En það er ekkert lögmál til um hvar menn ætla að mætast á miðri leið um hæfilega skattálagningu og óhæfilega. Það verður bara að vera matsatriði hvers og eins. Það er mitt mat að það sé gersamlega fráleitt að fara niður í 25%, eins og hv. þm. leggur til eða 28% --- 25% talaði hann um í ræðu sinni áðan að væri raunverulega réttara og betra. Ég tel að eins og skattumhverfi fyrirtækja á Íslandi er í dag, þá sé það bara alveg þokkalegt. Þeir sem stjórna og reka fyrirtæki geta bara vel við það unað hvernig heildarskattumhverfi fyrirtækja er á Íslandi. Enda kemur það í ljós að skattamálin hafa ekki sett neitt sérstakt strik í reikning þeirra erlendu fjárfesta sem hafa hug á að festa fé sitt á Íslandi. (PHB: Þetta eru bara sérlög.) Það hefur ekki sett neitt sérstakt strik í reikninginn. Það er allt annað umhverfi núna í fyrirtækjaskattlagningu en var t.d. þegar Ísal var byggt, allt annað skattumhverfi og í flestum tilvikum sætta erlendir fjárfestar sig við að lúta íslenskum skattalögum. (Gripið fram í.) Í langflestum tilvikum sætta þeir sig við það.

Virðulegi forseti. En að halda því fram að lækkun á skatthlutfalli fyrirtækja hafi verið meginorsökin fyrir því að fyrirtæki hafa skilað meiri skatttekjum til ríkisins en var í einhverjum mestu þrengingum sem við Íslendingar höfum upplifað er rökleysa. Það er góðærið, það er uppgangurinn í þjóðfélaginu sem veldur því en ekki lækkun á sköttum fyrirtækjanna.