Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 12:33:55 (7370)

1998-06-03 12:33:55# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[12:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð þeirri sem fylgdi brtt. þeirra þremenninganna eru tvær fullyrðingar. Önnur er sú að með breytingunni á sköttum fyrirtækja hafi orðið milljarðatilflutningar frá fyrirtækjum yfir til einstaklinga með aðstöðugjaldinu. Ég fullyrði að það liggur fyrir að þessi skattalagabreyting kom ekki sem ein einasta króna niður á íslenskum launþegum eða íslenskum almenningi. Það liggur fyrir nákvæm rannsókn á því þannig að ég fullyrði að það sé ósatt að hér hafi farið milljarðar yfir á almenning.

Hin fullyrðingin sem er að finna í greinargerðinni er sú að við séum með því hagstæðara sem til er í skattalegu umhverfi fyrirtækja. Fyrir tveimur mánuðum var lögð fyrir Alþingi mjög vönduð skýrsla um samkeppnishæfni Íslands þar sem öll þessi atriði voru dregin saman mjög nákvæmlega, betri skýrsla og fullkomnari en við höfðum séð áður. Þar kom fram að staða íslenskra fyrirtækja og samkeppnishæfni þeirra hefur batnað mikið á undanförnum árum frá því að vera mjög lök í það að vera í dag u.þ.b. í miðjunni á ríkjum OECD þegar allt er tiltekið. Þjónustugjöld hafa því miður verið að hækka á íslenskum fyrirtækjum á undanförnum árum. Eftirlitsiðnaðurinn hefur kostað mjög miklar álögur á íslensk fyrirtæki og því miður hafa launatengd gjöld á íslensk fyrirtæki líka verið hækkuð. En þegar allt er tekið saman í þessari vönduðu skýrslu var Ísland talið hafa batnað mikið á undanförnum árum en sé beint í miðjunni. Því er það ósatt sem stendur í skýrslunni að hér sé einhver skattaparadís.