Eftirlit með fjármálastarfsemi

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 13:43:57 (7379)

1998-06-03 13:43:57# 122. lþ. 142.10 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. í þessu máli með fyrirvara og ég vil gera stuttlega grein fyrir honum. Reyndar skrifa einnig hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hv. þm. Ágúst Einarsson undir með fyrirvara en það er ekki endilega víst að fyrirvari okkar sé að öllu leyti vegna sömu atriða frv. og ég tek það fram að ég tala ekki fyrir þeirra hönd.

Það sem ég hef staldrað sérstaklega við í þessu sambandi, herra forseti, og hefði talið ástæðu til að hugleiða kannski nánar, skoða betur ef tóm hefði gefist til þess án þess að ég sé með því að lýsa mig andvígan því að þetta mál fái afgreiðslu á þessu vori, er að hér er um að ræða mjög stórt og mikilvægt mál og kannski eitt af mikilvægari málum á sviði efnahags- og viðskiptamála á þessu þingi. Það er ný heildarlöggjöf um allt opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eins og það heitir hér sem þýðir í reynd að verið er að sameina undir einum hatti og í eina stofnun allt eftirlit sem hefur áður fallið undir Vátryggingaeftirlit og bankaeftirlit.

[13:45]

Það er að mörgu leyti álitleg hugmynd, herra forseti, og álitlegt fyrirkomulag enda víða gert að sameina þessa starfsemi en auðvitað er það ekki svo að ekki vakni ýmsar spurningar við slíka breytingu. Það er kannski ekki að öllu leyti alveg eins einfalt og í fljótu bragði mætti ætla að sameina þessa hluti. Þá er líka spurningin hvað gerist t.d. hjá þeim aðilum sem fara með önnur hlutverk á þessu sviði og þá er ég alveg sérstaklega að hugsa um Seðlabankann og bankaviðskiptin og þá stöðu sem hann hefur í því sambandi.

Herra forseti. Fyrra atriðið sem ég vil lýsa ákveðnum fyrirvörum við er stjórnskipuleg staða þessa Fjármálaeftirlits sem þarna verður til. Hér er sem sagt sérstök stofnun er nefnist Fjármálaeftirlitið, ríkisstofnun sem lúta skal sérstakri stjórn. Í frv. er valið, og kemur svo sem ekki á óvart, að stofnunin skuli heyra undir viðskrh. Bankaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert það og tryggingaeftirlitið að ég hygg einnig, a.m.k. um hríð.

Það er ekki þar með sagt að þegar þessi nýskipan mála er tekin upp og þetta er sameinað að það sé sjálfgefið að vista stofnunina eða starfsemina undir viðskrn. Fyrir það fyrsta er alveg ljóst að þessi stofnun þarf að vera mjög sjálfstæð og það hefði að mínu mati alveg getað komið til greina að hún hefði meira stöðu óháðrar eftirlits- eða stjórnsýslustofnunar í þeim skilningi að hún starfaði í skjóli t.d. Alþingis eða hugsanlega í skjóli forsrh. eða fjmrh. ekkert síður en að heyra undir hæstv. viðskrh.

Gallinn við það fyrirkomulag er sá að mínu mati að óheyrilega margir þræðir sameinast í þessu eina ráðuneyti sem iðn.- og viðskrn. er. Viðskrh. er ekki bara hver sem er í þessu sambandi þegar kemur að því að hafa eftirlit með fjármálastarfsemi. Viðskrh. er auðvitað yfirmaður banka- og viðskiptamála, fer með framkvæmd löggjafar á því sviði en viðskrh. er líka eins og háttar til á Íslandi eigandi tveggja stærstu banka í landinu eða stærsta bankans og annars banka til. Nú man ég ekki alveg hvernig hlutföllin eru milli Búnaðarbanka og Íslandsbanka en það skiptir ekki öllu máli.

Það er sem sagt ljóst, herra forseti, að hér er verið að velja að láta hina óháðu eftirlitsstofnun, sem á að hafa eftirlit með fjármálastarfseminni og þar með talið og ekki síst bankastarfsemi og verðbréfaviðskiptum og öðru slíku, heyra undir sama ráðherra, fagráðherra og annast framkvæmd löggjafar á þessu sviði og sem jafnframt er eigandi eða handhafi fyrir hönd ríkisvaldsins að tveimur af þremur stærstu bönkum í landinu. (PHB: Þá er bara að selja þá.) Þá kemur sú brilljant hugmynd úr salnum að þá sé bara að selja þá. Það skiptir kannski ekki máli hvað fengist fyrir þá, eins og fyrrv. fjmrh. sagði á dögunum að það væri svo göfugt markmið að selja bankana, að þó að þeir yrðu jafnvel að fara á hálfvirði mundi samt borga sig að drífa þá bara út. (Gripið fram í.) En þeir eru þarna í dag, hv. þm., í eigu ríkisins og ég held að menn eigi að velta því fyrir sér og taka það sem alvörumál að það er ekki endilega sjálfgefið að vel fari á því að einn og sami maðurinn, einn og sami hæstv. ráðherrann fari með alla þessa hluti. Það er bara alls ekki víst að það sé mjög heppilegt fyrirkomulag. Ég sé ekki, herra forseti, að það sé nein þörf á því af því að margir aðrir möguleikar koma vel til greina og jafnvel að mínu mati betri og álitlegri en þeir að láta viðskrh. fara með þetta vald.

Auðvitað kæmi til greina að velja þá leið að láta eignarhaldið á bönkunum, vista það annars staðar og það hefur oft verið rætt t.d. að e.t.v. væri heppilegra að samræma meðferð ríkisins á eignum t.d. með því að stofna eignarhaldsstofnun eða fyrirtæki undir fjmrn. sem þess vegna væri hægt að kjósa sérstaka þingkjörna stjórn yfir. (PHB: Eins og Þjóðverjar.) Akkúrat, eins og Þjóðverjar gerðu t.d. þegar þeir voru að breyta fyrirtækjunum í Austur-Þýskalandi sáluga og stofnuðu eignarhaldsfélag, Treuhand, og seldu svo út úr því félagi eða ráku eftir atvikum og stjórnuðu undir einni samræmdri stjórn. Lögðu reyndar því fyrirtæki til peninga til að geta gefið þeim fyrirtækjum myndarlegan heimanmund. Slíku er ekki til að dreifa hér. Við þurfum ekki á því að halda sem betur fer. En eftir stendur að það mætti t.d. draga úr hættunni á, ég veit ekki hvort ég á að kalla það hagsmunaárekstrum en við skulum segja hættu á því að viðskrh. komist í óþægilega aðstöðu með því að vera yfirmaður þessara mála, yfirmaður eftirlitsstofnunarinnar og ,,eigandi`` að bönkunum. Það væri þá a.m.k. að einu leytinu til dregið úr slíkri hættu ef eignarhaldsstofnun undir fjmrn. eða Alþingi eða einhvers annars færi með eignarhald ríkisins á þessum hlutum.

Satt best að segja, herra forseti, finnst mér furðulítil umræða hafa fengist í gang um það sem hefur verið að gerast í gegnum breytingu á allmörgum ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Það sem gerist er fyrst og fremst að í rauninni verður mikil valdasamþjöppun. Það er lagður af sá háttur að kjósa þingkjörnar stjórnir eða skipa stjórnir samkvæmt tilnefningum af einhverjum toga og yfirleitt er alltaf niðurstaðan sú sama að einn einstakur ráðherra fær allt vald í þessum efnum og skipar einn fríhendis allar stjórnir, eins og viðskrh. gerir í dag. Viðskrh. fer ekki bara með eignarhaldið á bönkunum heldur var valin sú leið að hann skipar bankaráðið einn, á eigin hendi og fríhendis. (Gripið fram í.) Að vísu ber svo síðan sá hæstv. viðskrh. enga ábyrgð á skandölum sem upp kunna að koma í þessum fyrirtækjum eins og dæmin sanna, a.m.k. ekki að eigin mati, er algerlega laus við alla ábyrgð og allir aðrir bera ábyrgð en hæstv. viðskrh. en svona er nú fyrirkomulagið í dag.

Ég held, herra forseti, að það sé engin lausn, eins og menn eru að kalla hér fram í, að selja þá. Ef farið yrði út í það á næstunni að selja hluti í bönkunum held ég að það sé mál sem þyrfti að vanda til, nema menn vilji gefa þetta eins og hefur dálítið loðað við að menn vilji, einkavinavæða bankana. Það er að sjálfsögðu auðvelt mál. Það er enginn vandi að halda útsölu á bönkunum og láta þá fara fyrir slikk ef tilgangurinn helgar algerlega meðalið. En ef ætlunin er sú að reyna að gera hvort tveggja í senn að fá fullt verð fyrir verðmæti ríkisins í þessu fyrirtæki eða fyrirtækjum og gera breytingarnar þannig að þær valdi ekki röskun og upplausn í íslenskum fjármálaheimi, þá verður að vanda til þessara verka. Og ég sé ekki að það verði auðvelt að gera þetta á þann veg að það gerist mjög snöggt eða þannig að stór eignarhlutur sé settur í sölu á hverjum tíma. Það væri mjög vitlaust, svo ég tali ekki um þegar hugmyndir eru uppi um að fara út í heilmikla einkavæðingu og jafnvel eignarsölu á öðrum sviðum samtímis. Þá er staðan ósköp einfaldlega sú að það eru ekki margir aðilar í landinu sem hafa til þess fjármagn að kaupa stóra eignarhluti í ríkisbönkunum, Landsvirkjun, Landssímanum eða hvað það nú er á svipuðum tíma. Og er það tóm vitleysa. En þetta væri vissulega möguleiki og það er ekkert óeðlilegt að hann sé ræddur í tengslum við að draga úr hættunni á því að viðskrh. lendi þarna í árekstrum og óþægilegri stöðu vegna allra þeirra þráða sem safnast saman í höndum hans í þeim málum með því að færa eignarhald bankanna annað.

En að því slepptu, herra forseti, held ég að besti kosturinn væri sá að Fjármálaeftirlitið væri vistað annars staðar en undir viðskrh. Ég hallast að því að eðlilegast hefði verið að Fjármálaeftirlitið starfaði í skjóli Alþingis með þeim sömu rökum og færð voru fram fyrir því á sínum tíma að Ríkisendurskoðun var flutt frá því að starfa í skjóli framkvæmdarvaldsins og gerð að óháðri stofnun sem starfar í skjóli Alþingis. Ég vil ekki taka þannig til orða að Alþingi sé yfir Ríkisendurskoðun eða Ríkisendurskoðun heyri undir Alþingi með sambærilegum hætti og mál heyra undir ráðherra á þeirra sviði. Staða Ríkisendurskoðunar er önnur eins og hún er í tengslum við Alþingi og mér finnst nær að tala um að þær stofnanir eins og umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun starfi í skjóli Alþingis. Af þeirri einföldu ástæðu að það er hepplegasti og eðlilegasti aðilinn til að veita þeim það skjól.

Mörg sömu rök ættu við um Fjármálaeftirlitið, sérstaklega vegna þess hvernig aðstæður eru á hinum litla íslenska peningamarkaði og fjármálamarkaði. Það er í raun og veru enn óþægilegri tilfinning að sjá hversu miklu hefur verið safnað saman undir iðn.- og viðskrh. þegar maður hefur í huga hversu lítið íslenskt efnahagslíf er og má segja íslenskt samfélag og hversu stórir aðilar hver á sínu sviði þar eru á ferðinni. Ég minni á að það er ekki bara þannig að viðskrh. fari með eignarhaldið á bönkunum heldur fer hann með stóran eignarhlut eða algeran eignarhlut íslenska ríkisins í nokkrum stórum iðnfyrirtækjum þannig að hættan á árekstrum eða að upp komi óeðlilegar aðstæður að þessu leyti í ráðuneytinu er fyrir hendi. Það er alveg borin von að neita því.

Bara það að viðskrh. skipar þriggja manna stjórn yfir Fjármálaeftirlitið og þar af aðeins einn samkvæmt tilnefningu frá Seðlabanka Íslands og að ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður meira og minna starfsreglur stjórnarinnar getur sett hæstv. ráðherra í óþægilega stöðu. Og það má alveg velta því fyrir sér hvort sá hinn sami ráðherra sem fer með málefni bankanna og fer með eignarhlut ríkisins í bönkunum sé að öllu leyti hæfur til að skipa jafnframt stjórnarmennina í eftirlitsstofnunina. Er hann þá ekki í raun og veru farinn að ráða því hverjir hafa eftirlit með honum sjálfum og stofnunum sem heyra beint undir hann og mönnum sem sami hæstv. ráðherra hefur skipað til trúnaðarstarfa á öðrum vettvangi í geiranum?

Þetta er annað aðalatriðið, herra forseti, sem ég hef fyrirvara á um varðandi frv. Mér finnst ekki hafa farið fram nægjanlega mikil skoðun á stjórnsýslulegri eða stjórnskipulegri stöðu þessa eftirlitsfyrirtækis á fjármálasviðinu.

Hið síðara, herra forseti, varðar samskipti hins nýja Fjármálaeftirlits við Seðlabanka Íslands þegar til kemur eða ef, á maður kannski að segja því að auðvitað er það Alþingi sem ræður því að lokum hvort þetta verður að lögum. Það er alveg ljóst og við því gat maður búist að Seðlabankinn væri ekkert hrifinn af því að bankaeftirlitið yrði tekið frá honum. Það mætti kannski orða það þannig að sú skrautfjöður væri dregin úr hatti Seðlabankans. Maður var þar af leiðandi alveg við því búinn að lesa það með gagnrýnu hugarfari hvernig afstaða fulltrúa Seðlabankans bæði í nefnd hæstv. ráðherra og eins í umsögn um frv. til þingnefndar birtist þar. Sú staða sem þarna er hvað Seðlabankann varðar breytir hins vegar ekki því að að fara ber yfir þau álit og þau rök sem þar eru færð fram. Ég tel að Seðlabankinn hafi fært talsvert sterk rök fyrir því að menn þurfi að ganga mjög vandlega frá hlutunum hvað varðar annars vegar samskipti Seðlabankans við hið nýja Fjármálaeftirlit og hins vegar að átta sig á því að hver miklu leyti Seðlabankinn verður eftir sem áður að hafa tiltekna starfsemi á sínum snærum sem lýtur að því að afla upplýsinga og gera bankanum kleift að rækja skyldur sínar sem sá ábyrgðaraðili á bankastarfsemi í landinu sem Seðlabankinn er og á að vera og verða áfram samkvæmt þeim lögum sem ætlunin er að gildi um Seðlabankann.

[14:00]

Hættan er sem sagt sú, herra forseti, svo maður reyni að tala mannamál og það skiljist, að Seðlabankinn byggi upp á nýjan leik í staðinn fyrir bankaeftirlitið sem sameinað verður Vátryggingaeftirlitinu, annað batterí sem fljótlega fari að slaga upp í það sem fyrir var. Hvað er þá að gerast, herra forseti? Þá er ósköp einfaldlega verið að búa til tvíverknað með því að sameina fyrst Vátryggingaeftirlitið og bankaeftirlitið. Þar mun sjálfsagt vaxa upp hin myndarlegasta stofnun þegar fram líða stundir. Ég hef ekki nokkrar einustu áhyggjur af öðru en þetta verði myndarleg stofnun og a.m.k. rúmlega það sem þarna verður lagt saman og við því er svo sem ekkert að segja. Það er eðlilegt að á þessari starfsemi sé þó nokkurt umfang og jafnvel vaxandi með vaxandi umfangi og veltu í viðskiptalífinu. En þá kemur að þessu, herra forseti, að Seðlabanki Íslands telur sig eftir sem áður þurfa á ákveðinni sérþekkingu og ákveðnum möguleikum að halda til þess að afla upplýsinga á sjálfstæðan hátt og fylgjast með hlutum þrátt fyrir að allt gangi upp í samskiptum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og þeir reglulegu fundir og sú reglulega upplýsingagjöf sem kveðið er á um, t.d. í 14. gr. frv. gangi að öllu leyti eftir, þá breytir það ekki hinu að Seðlabankanum sé ekki unnt að rækja sitt hlutverk að öllu leyti nema hann geti haft ákveðið eftirlit á eigin vegum.

Þetta var það sem lá til grundvallar afstöðu fulltrúa Seðlabankans í nefnd ráðherra að vera ekki samþykkur sameiningunni væntanlega vegna þess að fulltrúi bankans taldi ekki nægilega vel fyrir því séð og frá því gengið hvernig þessari upplýsingasöfnun Seðlabankans ætti þá að verða fyrir komið. Sömu tóna hafa menn að sjálfsögðu heyrt t.d. í ræðu formanns stjórnar Seðlabankans á aðalfundi bankans í vetur og í umsögnum Seðlabankans má lesa þessa hluti, að vísu kannski að nokkru leyti á milli línanna, sem og teljum við nefndarmenn í efh.- og viðskn. okkur vita vel um hug bankastjórnarinnar í þessum efnum þó svo menn hafi þar ekki lagst beint gegn frv. og á því hafi reyndar verið gerðar nokkrar breytingar í átt til þeirra sjónarmiða sem Seðlabankinn hafði lýst áður í nefndarstarfinu miðað við þau drög sem þá voru til umfjöllunar.

Ég vil, herra forseti, í þessu sambandi leyfa mér að vitna til athugasemdar fulltrúa Seðlabankans, sem er á bls. 21 í frv. en þar segir m.a. eftirfarandi, og það er fulltrúi Seðlabankans í nefnd um endurskoðun eftirlits með fjármálastofnunum sem talar:

,,Í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, segir í 3. gr. f-lið um hlutverk bankans: ,,að vera banki innlánsstofnana, hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa og peningaviðskiptum``.``

Síðan segir: ,,Ljóst er, að Seðlabanki Íslands getur ekki uppfyllt ofangreind ákvæði um eftirlit með bankastarfsemi, ef núverandi bankaeftirlit er frá honum tekið, nema með því að koma upp á eigin vegum öðru eftirliti með verðbréfa- og peningaviðskiptum.

Ef ákveðið yrði að fella brott úr lögum um Seðlabanka Íslands ákvæði um eftirlit með bankastarfsemi, má jafnframt ljóst vera, að honum yrði gert erfitt að vera ,,banki innlánsstofnana og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum``.

Með öðrum orðum er Seðlabankinn settur í þá erfiðu stöðu að hann á í einu orðinu að rækja það hlutverk að vera banki innlánsstofnana og hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum án þess að hafa eftirlitið með höndum. Ef hlutverkið er fellt á brott er í raun og veru búið að lama Seðlabankann og hann hefur ekki lengur þá stöðu í bankakerfinu né það lögbundna hlutverk sem hann þarf til þess að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig. Þarna eru menn því í nokkrum vanda, satt best að segja, herra forseti. Síðan segir reyndar fulltrúi Seðlabankans og þótt það sé kannski ekki aðalatriðið í þessu er auðvitað skylt að skoða það líka:

,,Einnig vil ég leggja áherslu á, að ég dreg í efa, að um nokkurn sparnað verði að ræða með sameiningu bankaeftirlits og Vátryggingaeftirlits. Hin sameinaða stofnun hlýtur að starfa í tveimur mjög sjálfstæðum deildum, því eftirlitsverkefnin eru að flestu leyti ólík, eins og fram kemur í skýrslunni. Bankaeftirlitið nýtur hins vegar verulegs hagræðis af ýmiss konar annarri starfsemi Seðlabanka Íslands. Auk þess hlýst af því viðbótarkostnaður, að Seðlabankanum mun verða nauðsynlegt að koma á fót einhvers konar beinu eftirliti með verðbréfa- og peningastofnunum, eins og fyrr segir.``

Því er svo í viðbót haldið fram, herra forseti, af aðila sem ástæða er til að taka mark á og þekkir til hlutanna að það sé mikið álitamál að af þessu verði nokkur sparnaður eða í þessu felist í raun og veru nokkur hagræðing, annars vegar vegna þess að bankaeftirlitið hafi verið starfrækt með mjög hagkvæmum hætti í skjóli Seðlabankans og hins vegar vegna þess að Seðlabankinn neyðist til þess að koma á fót starfsemi og leggja eftir sem áður út í talsverðan kostnað til að geta rækt sitt hlutverk. Gangi þetta eftir, herra forseti, og þó ekki sé nema að einhverju leyti, þá eru menn í raun og veru ekki að ná þeim árangri í þessu máli sem að var stefnt. Ég hef aðeins staldrað við þetta og spyr hvort menn séu búnir að hnýta hnútana nógu vel í sambandi við þennan þátt málsins. Er t.d. 14. gr. frv. um samskipti Fjármálaeftirlitsins við Seðlabankann nægilega vel úr garði gerð?

Það mun hafa verið einhver málamiðlun í þessu sambandi að Seðlabankinn tilnefnir einn af þremur mönnum í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Það má líka spyrja hvort það sé heppilegt. Var það heppileg lausn í því máli að búa til tengingu á nýjan leik milli Seðlabankans og bankaeftirlitsins eða þess hluta Fjármálaeftirlitsins í gegnum fulltrúa í stjórn? Gætu þá ekki aðilar á tryggingasviðinu gert sömu kröfur og þá væri Fjármálaeftirlitið allt í einu orðið undir áhrifum af aðilum úr greininni sem það á að hafa eftirlit með. Að mörgu leyti er það ekki í þeim anda að gera stöðu eftirlitsins sterka, sjálfstæða og óháða. Í því sambandi vísa ég einnig til þess sem ég sagði áðan um vistunina og hvort ekki hefði verið heppilegra að láta eftirlitið starfa í skjóli Alþingis.

Að öðru leyti, herra forseti, geri ég ekki efnislegar athugasemdir við þetta frv. Ég held að það sé að öðru leyti ágætlega unnið og eigi að geta dugað sem fullnægjandi lagarammi utan um þessa eftirlitsstarfsemi. Það er ekkert ýkjanákvæmt, enda gert ráð fyrir því að það setji sér síðan reglur og til verði og mótist að svo miklu leyti sem ekki eru þar þegar starfsreglur og ráðherra setji reglugerð sem starfað verði eftir. Ég tel í sjálfu sér enga ástæðu til að lagaramminn sem slíkur sé nákvæmari en hér er. Það væru þá, ef eitthvað væri ákvæðin um gjaldtökuna og eftirlitið sem þó eru allítarleg, en það er eins og kunnugt er ekki góð latína að framselja mikið vald í þeim efnum og þarf að ganga nokkuð vandlega frá því.

Ég vil segja, herra forseti, að lokum að ég held að þær brtt. sem efh.- og viðskn. flytur séu til bóta og sérstaklega held ég að nauðsynlegt hafi verið að laga ákvæði 7. gr. um ráðgjafarnefndina. Efh.- og viðskn. valdi þá leið að endursemja þá grein og flytur um það brtt. ásamt með nýrri fyrirsögn á greinina og að þetta verði kallað samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila í staðinn fyrir ráðgjafarnefnd. Sömuleiðis brtt. við 3. gr. frv. þar sem tekið var fram í frv. að ráðherra ætti ekki að hafa afskipti af einstökum málum. Það var óheppilegt orðalag og í raun og veru ankannalegt að taka svo til orða þegar ljóst er að hugsunin er sú að Fjármálaeftirlitið starfi á mjög sjálfstæðan hátt, þó að það heyri undir ráðherrann, þá ætti ekki að vera ástæða til að taka það fram með pósitífum hætti af þessu tagi að ráðherrann ætti ekki að kássast í einstökum málum sem til meðferðar eru hjá stofnuninni. Það er nánast niðurlæging við ráðherra að hafa slíkt ákvæði þarna inni. Að sjálfsögðu er hugsunin ekki sú með brtt. að þetta eigi að vera ráðherra heimilt heldur þvert á móti. Við viljum með þessu undirstrika að það er í rauninni svo fjarstæðukennt að ætla að ráðherra sé að kássast í einstökum málum að ekki er ástæða til að hafa það bannað sérstaklega í lögum.

Herra forseti. Þetta eru mínir fyrirvarar og ég mun því eftir atvikum sitja hjá við þær efnisgreinar í þessu frv. Fyrst og fremst eru þær tvær sem tengjast þeim. Það eru ákvæði í II. kafla um stjórnsýsluna og ákvæði í IV. kafla um samskipti Fjármálaeftirlitsins við Seðlabanka Íslands.