Sérákvæði laga um fjármálaeftirlit

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 14:11:55 (7380)

1998-06-03 14:11:55# 122. lþ. 142.11 fundur 561. mál: #A sérákvæði laga um fjármálaeftirlit# frv. 84/1998, Frsm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[14:11]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum um fjármálaeftirlit.

Frumvarp þetta er lagt fram sem fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, 560. mál. Þetta frumvarp er í eðli sínu bandormur. Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á hugtakanotkun í samræmi við þá nýju skipan að stofnað verði sérstakt Fjármálaeftirlit í stað bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins. Hins vegar er lagt til að ákvæði um neytendamáladeild í lögum um vátryggingastarfsemi verði fellt úr gildi þar sem ekki er talið eðlilegt að við Fjármálaeftirlitið starfi neytendamáladeild sem aðeins fjalli um vátryggingamál. Í stað þess verður unnt að kveða á um starfsemi slíkrar deildar í reglugerð um starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali, þ.e. 1316.

Í fyrsta lagi er lagt til að 1. gr. frumvarpsins verði felld brott en þar er gert ráð fyrir breytingum á lögum nr. 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða. Þau lög verða úr gildi fallin 1. janúar 1999 þegar Fjármálaeftirlitið tekur til starfa og breytingin því óþörf.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 17. gr. vegna nýsamþykktra breytinga á umferðarlögum og lagðar til breytingar á nýsamþykktum lögum um Kvótaþing, nr. 11/1998, og lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, í samræmi við aðrar breytingar á hugtakanotkun. Þá eru lagðar til breytingar á 6., 8., 14. og 21. gr. til leiðréttingar.

Undir þetta skrifa allir nefndarmenn efh.- og viðskn., Steingrímur J. Sigfússon þó með fyrirvara.