Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 14:17:43 (7382)

1998-06-03 14:17:43# 122. lþ. 142.12 fundur 581. mál: #A Seðlabanki Íslands# (bankaeftirlit, EES-reglur o.fl.) frv. 88/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara og sá fyrirvari var annar af tveimur fyrirvörum mínum við frv. sem var til umræðu næstsíðast um eftirlit með fjármálastarfsemi þannig að ég get að miklu leyti vitnað í það sem ég sagði um það mál í þessu sambandi.

Fyrirvarinn lýtur að þeirri stöðu sem Seðlabankinn verður í hvað varðar upplýsingasöfnun og að rækja sitt hlutverk skv. 3. gr. laganna um Seðlabanka Íslands eins og er verið að ganga frá þessum hlutum með breytingum á löggjöf. Þar vil ég sérstaklega vekja athygli á því að samkvæmt frv., og um það er ekki gerð brtt. af efh.- og viðskn., er gert ráð fyrir því að f-liður 3. gr. standi óbreyttur að öðru leyti en því að út verða felld orðin ,,hafa eftirlit með bankastarfsemi``. Það þýðir að Seðlabankinn á eftir sem áður að hafa það hlutverk að vera banki innlánsstofnana og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum. Breytingin felst eingöngu í því að felld eru niður orðin ,,hafa eftirlit með bankastarfsemi``. Það hefði að sjálfsögðu ekki samrýmst fyrirhugaðri tilkomu Fjármálaeftirlitsins sem stofnunar og þess að leggja niður bankaeftirlitið og flytja það yfir að þessi orð stæðu þarna eftir óbreytt en í raun og veru stendur hins vegar eftir það víðtæka hlutverk sem Seðlabankinn á að rækja á þessu sviði og talið er upp í einum 7--8 stafliðum í 3. gr. laganna um Seðlabanka Íslands en það er sem sagt í fyrsta lagi að annast seðlaútgáfuna og allt það, slá og gefa út mynt. Það er að varðveita og efla gjaldeyrisvarasjóðinn, það er að kaupa og selja erlendan gjaldeyri, það er að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál, annast bankaviðskipti ríkissjóðs og vera banki innlánsstofnana og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum auk þess sem bankinn á að annast ýmiss konar skýrsluútgáfu og önnur verkefni sem eru samrýmanleg tilgangi bankans sem seðlabanka.

Frv. sem er til umræðu gerir ráð fyrir því að brott falli á einu bretti 13.--17. gr. núgildandi laga um Seðlabanka Íslands þar sem fjallað er um bankaeftirlitið. Í staðinn komi nýr kafli undir fyrirsögninni ,,Öflun upplýsinga`` með tveimur nýjum greinum sem verða 13. og 14. gr. laganna. Þá er komið að því sem kom m.a. fram í áliti fulltrúa Seðlabankans og ég gerði að umtalsefni í málinu um Fjármálaeftirlitið að Seðlabankinn telur sér nauðsynlegt og á það er í raun fallist með frv. hér að Seðlabankinn sjálfur geti milliliðalaust aflað upplýsinga frá innlánsstofnunum, öðrum lánastofnunum en bönkum og sparisjóðum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu sem eru í viðskiptum við bankann sbr. 7. gr. auk fyrirtækja í greiðslumiðlun til þess að auðvelda honum, þ.e. Seðlabankanum, að sinna hlutverki sínu skv. 3. gr. Í raun og veru er þá málið komið í hring að því leyti til að ég sé ekki annað en Seðlabankinn sé þarna að fá mjög ríkar heimildir til þess að reka sjálfstætt eftirlit. Það má ekki kalla það eftirlit af því að það er fellt niður en hann má kalla það upplýsingasöfnun og hann fær sterka stöðu til að heimta þessar upplýsingar því að ný 14. gr. hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

,,Nú er kröfum Seðlabankans um upplýsingar skv. 13. gr. ekki sinnt og getur bankinn þá gripið til viðurlaga gagnvart hlutaðeigandi aðila, sbr. ákvæði 41. gr.`` Það eru refsi\-ákvæðaheimildirnar sem bankinn hefur og eru í gildandi lögum.

Herra forseti. Mér sýnist því miður öll ástæða til þess að vera á varðbergi og hafa fyrirvara á um það að hér sé ekki verið beinlínis vísvitandi að stuðla að því að umtalsverður tvíverknaður verði í gangi og ég verð að segja alveg eins og er að þó að það sé að mörgu leyti freistandi hugmynd að fara út í þessa sameiningu á Vátryggingaeftirlitinu og bankaeftirlitinu finnst mér verulega vanta upp á að menn hafi hnýtt lausu endana fasta. Ég hlýt því, herra forseti, að hafa fyrirvara á um málið einnig að þessu leyti eða fyrirvara á um þennan þátt málsins sem er að vísu ekki auðvelt að koma við í raun og veru í formi atkvæðagreiðslu. Það er því væntanlega eðlilegast með vísan til þess að sitja hjá um þær greinar sem þarna eiga að koma í staðinn fyrir eldri ákvæði um bankaeftirlitið þó að það sé ekki svo að ég sé á móti því að Seðlabankinn geti aflað þessara upplýsinga eða hafi stöðu til að gera það. Það er miklu frekar hitt sem ég vil ekki standa að, að menn gangi vísvitandi þannig frá löggjöf að innan fárra ára sitji menn nánast uppi með algerlega tvöfalt eftirlitsbatterí hvað varðar bankastarfsemina í landinu.