Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 20:41:44 (7391)

1998-06-03 20:41:44# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[20:41]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Á þessu fagra vori geta landsmenn horft bjartsýnir fram á veg. Gæfan hefur verið okkur Íslendingum hliðholl og vel árar til lands og sjávar. Lykilatriðið er þó það að vel hefur tekist til um stjórn þeirra mála sem við höfum sjálf á valdi okkar og sem stjórnvöld hafa atbeina að. Dæmin úr sögunni eru mörg um hitt að Íslendingar hafi ekki kunnað fótum sínum forráð í góðæri og ætlað sér um of með afdrifaríkum afleiðingum.

Það er óumdeilt að ríkisstjórninni hefur í öllum meginatriðum tekist að ná efnahagsmarkmiðum sínum. Gert er ráð fyrir afgangi á fjárlögum á þessu ári eftir samfelldan halla frá miðjum síðasta áratug. Hagvöxtur er meiri hér en í flestum nálægum ríkjum, atvinna hefur aukist og atvinnuleysi að sama skapi minnkað og er nú minna en í nær öllum aðildarríkjum OECD. Verðbólga hefur einnig verið með minnsta móti, eða á bilinu 1,5 til 2,5% á síðustu fimm árum. Kaupmáttur heimilanna hefur jafnframt aukist verulega eða um nálægt 20% frá árinu 1995 og gætir þar m.a. áhrifa lækkunar tekjuskatts og skattfrelsis lífeyrisiðgjalda. Þá hafa vextir farið lækkandi.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum í því skyni að bæta rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði með lækkun og niðurfellingu skatta og öðrum aðgerðum til að treysta stöðugleikann í efnahagslífinu eiga hér ekki síst hlut að máli. Til frekara marks um þennan árangur má nefna að traust erlendra aðila á efnahagsstefnu stjórnvalda hefur farið vaxandi. Þannig hafa þau erlendu fyrirtæki sem leggja mat á lánshæfi ríkja tvívegis hækkað mat Íslands undanfarin ár. Enn fremur hafa íslensk stjórnvöld fengið afar jákvæða umfjöllun í skýrslum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bæði vegna þeirra áherslubreytinga sem orðið hafa í hagstjórn og ýmissa skipulagsbreytinga sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á mörgum sviðum efnahagslífsins, á fjármálamarkaði, í opinberum rekstri, með aukinni áherslu á hagræðingu og markaðsvæðingu, í lífeyrismálum og víðar. Íslendingar eru nú komnir þangað sem þeir eiga heima meðal þjóðanna, þ.e. í fremstu röð.

En við skulum átta okkur á því að þessi velgengni getur verið brothætt og ekki þarf mikið út af að bregða. Vissulega sjáum við sums staðar hættuboða sem minna okkur á að þenslan getur verið skammt undan og þar með sá gamli óvinur almennings, verðbólgan sem á skömmum tíma getur farið sem logi um akur og grafið undan fjárhag fjölskyldna og fyrirtækja. Besta leiðin til að vinna bug á þessari hættu er að styrkja fjárhag ríkisins, búa á þann veg um hnútana að afgangur sé á ríkisbúskapnum og beita ríkisfjármálunum skipulega til að sporna gegn þenslu með því að greiða niður opinberar skuldir fyrri ára. Það er mikilvægasta viðfangsefnið á sviði efnahagsmála á næstunni og verður að mörgu leyti prófsteinn á það hvort við Íslendingar höfum nógu sterk bein til að þola góða daga.

Mikilvægur hluti af þeim stöðugleika sem náðst hefur að byggja upp er sú staðreynd að á síðasta ári tókust kjarasamningar til lengri tíma en áður hefur þekkst. Í gildi eru nú samningar við flesta starfshópa í landinu, ýmist fram eftir næsta ári eða langt fram á árið 2000. Það er því friðarskylda á vinnumarkaði og mikilvægt að einstakir hópar eða starfsstéttir nái ekki að grafa undan því ástandi með óhefðbundnum eða jafnvel ólöglegum aðgerðum. Ef látið er undan slíku er skammt í óðaverðbólgu og upplausn, og hver vill bera ábyrgð á því?

[20:45]

Þing hefur staðið óvenjulengi þessa björtu vor- og sumardaga. Nú er verið að leggja síðustu hönd á afgreiðslu fjölmargra framfara- og umbótamála, m.a. frumvarpa til að bæta réttarstöðu skattgreiðenda. Breytingar á lögum um yfirskattanefnd munu tryggja skilvirkari málsmeðferð og að unnt verður að standa við lögákveðna málsmeðferðarfresti. Ný lög um bindandi álit í skattamálum munu einnig auka réttaröryggi skattgreiðenda. Bindandi álit skattstjóra mun jafnframt án efa leiða til færri ágreiningsmála og þannig draga úr álagi á yfirskattanefnd og dómstóla. Von er á frekari réttarumbótum á þessu sviði á næsta þingi.

Samhliða stjórnsýslulegum umbótum í skattkerfinu leggur ríkisstjórnin áherslu á að einfalda þær reglur og þau fyrirmæli sem skattgreiðendum og skattyfirvöldum er ætlað að vinna eftir. Á yfirstandandi þingi er tekið skref í þessa átt hvað varðar fyrirtæki og aðra rekstraraðila. Tekjuskattsstofninn er breikkaður, skatthlutfallið almennt lækkað úr 33% í 30% og jafnframt komið í veg fyrir tvísköttun hagnaðar og útborgaðs arðs. Í undirbúningi eru síðan enn frekari breytingar svo sem hvað varðar verðbreytingafærslur, útgáfu jöfnunarbréfa og samsköttun móður- og dótturfyrirtækja. Allar þessar breytingar hafa það að markmiði að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara en áður.

Breytingar á þessu og síðasta þingi er snerta skattlagningu einstaklinga hafa hins vegar fremur haft það að markmiði að draga úr heildarskattheimtu og auka kaupmátt heimilanna. Lækkun tekjuskattshlutfallsins úr 42% í um 38% frá og með næstu áramótum er af þeim toga. Í þessu sambandi má einnig nefna breytingar sem væntanlega taka gildi um næstu áramót, þ.e. annars vegar aukinn rétt einstaklinga til að draga lífeyrissparnað frá skattskyldum tekjum og hins vegar húsnæðiskaupenda til fyrirframgreiðslu vaxtabóta í tengslum við ný lög um húsnæðismál. Þessum breytingum þarf að fylgja eftir með það að leiðarljósi að þær skattareglur sem einstaklingum er ætlað að vinna eftir verði gerðar einfaldari og aðgengilegri en nú er.

Ég nefndi ný lög um húsnæðismál. Í þessum nýju lögum felast mikilvæg framfaraskref í þeim málaflokki. Hið ósveigjanlega og að mörgu leyti úr sér gengna félagslega íbúðakerfi er leyst af hólmi með nýrri útfærslu húsbréfakerfisins. Um leið og hagur hinna tekjulægri í þjóðfélaginu er áfram vel tryggður stóraukast möguleikar þeirra til eignamyndunar í eigin íbúðum og valfrelsi til búsetu verður sambærilegt við hinn almenna markað. Íbúðalánasjóður tekur við hlutverki Húsnæðisstofnunar ríkisins sem lögð er niður og um leið er fjárhag byggingarsjóðanna borgið með afnámi vaxtaniðurgreiðslu en lántakendur njóta vaxtabóta þar á móti. Tekið er með raunhæfum aðgerðum myndarlega á vanda þeirra sveitarfélaga sem sitja uppi með óseljanlegar félagslegar íbúðir. Þessar breytingar efla sjálfseignarstefnuna sem Íslendingar hafa öðrum þjóðum fremur tileinkað sér í húsnæðismálum almennings og tilkoma húsbréfakerfisins, þ.e. félagslegra íbúðalána eflir hinn almenna fasteignamarkað. Og það er vissulega athyglisvert að síðasti ræðumaður varði drjúgum hluta tíma síns til að fordæma þetta kerfi sem hér er búið að taka í lög og er það mjög í samræmi við stefnu Alþb. í gegnum árin.

Herra forseti. Úrslit nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga sýndu mikinn stuðning við Sjálfstfl. og forustumenn hans um land allt. Framsfl. má líka vel við una enda hafa þessir flokkar víða myndað meiri hluta í stórum bæjarfélögum. Þannig voru úrslit kosninganna í síðasta mánuði sigur fyrir stjórnarflokkanna og til marks um það mikla traust sem þeir njóta meðal kjósenda. Samstarfið í ríkisstjórninni er líka gott og þar ríkir gagnkvæmt traust milli flokka sem upphlaup einstakra aðila innan þings og utan munu ekki hafa áhrif á.

Staða Alþfl. hlýtur hins vegar að vera mörgum velunnurum hans áhyggjuefni því flokkurinn er að hverfa í björgin hjá Alþb. Hann beið afhroð í höfuðvígi sínu í Hafnarfirði, á nú hvorki fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur né fjölda bæjarstjórna, t.d. ekki á Siglufirði sem er gamalt vígi þessa flokks. Þar sem fulltrúar Alþfl. hafa komist að þá er það í skjóli Alþb. Tilburðir þingmanna jafnaðarmanna á Alþingi undanfarnar vikur hafa ekki orðið til þess að efla tiltrú á þessum stjórnmálasamtökum.

Góðir tilheyrendur. Vorinu fylgir bjartsýni og gleði. Flestir skólar hafa nú lokið vetrarstarfinu og æska landsins tekst á við sumarverkefni sín. Á sunnudaginn höldum við sjómannadaginn hátíðlegan í 60. sinn og fögnum með íslenskum sjómönnum sem nú sem fyrr eru burðarás í okkar atvinnulífi. Fram undan er síðan sumarið sem vonandi verður bæði gott og gjöfult. Ég óska þess að landsmenn fái notið sumarsins og endurnýi kraftana í orlofi sínu um leið og ég býð góðar stundir.