Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 21:17:12 (7395)

1998-06-03 21:17:12# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[21:17]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Bandaríska fréttatímaritið Time birti fyrir skömmu úttekt á þeim hundrað einstaklingum sem blaðið telur hafa verið mesta áhrifavalda á þessari öld í röðum leiðtoga og byltingarmanna. Þar er að finna mannréttindafrömuði og frelsishetjur, einræðisherra, byltingarmenn og baráttukonur, herforingja og hugsjónamenn, afturhaldsmenn og umbótasinna. Í hópnum eru aðeins tólf konur sem er álíka og hlutur kvenna í ríkisstjórnum og þingum heimsins.

Sú öld sem er nú að renna sitt skeið á enda er öld mikilla þjóðfélagsbreytinga og tækniframfara en hún er jafnframt blóðugasta öld mannkynssögunnar. Hugmyndakerfi hafa risið og hnigið, þjóðfélögum hefur verið haldið í heljargreipum og sumum verið bylt. Þjóðir hafa öðlast sjálfstæði og styrjaldir verið háðar, stundum til þess að kveða niður ógnvalda, stundum til að árétta rétt hins sterka. Aldrei hefur verið gengið jafnhart að móður jörð og á þessari öld með eyðingu auðlinda, uppblæstri, mengun og sóun.

Þegar greinarhöfundar Time líta yfir farinn veg sýnist þeim að ef gefa megi þessari öld eitthvert samheiti sé það e.t.v. öld frelsis, eða öllu heldur frelsisbaráttu. Frelsis þjóða, frelsis undirokaðra, frelsis kvenna, frelsis hugmynda. Þar með má segja að loksins hafi eitt af kjörorðum frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789, frelsið, komist í öndvegi. Hin tvö, jafnréttið og bræðralagið í besta skilningi þess orðs, eiga enn langt í land.

Fáar þjóðir á norðurhveli jarðar hafa gengið í gegnum jafnmiklar þjóðfélagsbreytingar á þessari öld og við Íslendingar. Í upphafi þessarar aldar var húsakostur, heilbrigði og atvinnulíf svo frumstætt og fátæklegt að helst verður jafnað við það sem við sjáum nú í fátækustu ríkjum heims. En Íslendingar bjuggu í nágrenni við einhver gjöfulustu fiskimið veraldar. Breytingar úti í heimi leiddu til aukinnar eftirspurnar eftir fiski, nýir markaðir opnuðust og vélvæðing jók aflann svo um munaði. Íslendingum opnaðist leið til lífskjarabyltingar sem staðið hefur alla þessa öld jafnframt því sem við tókum stjórn mála okkar í eigin hendur. Þessu 270 þúsund manna samfélagi á norðurslóðum verður varla jafnað við annað en kraftaverk.

Enn opinberast okkur hvílíkt forréttindafólk við erum þegar við hugsum til þeirrar spár að innan tíðar verði vatn einhver mikilvægasta auðlind jarðarinnar og að átök framtíðarinnar kunni að snúast um aðgang að vatni. Ég hygg að engin þjóð í heimi eigi aðra eins möguleika á að skapa samfélag jöfnuðar, réttlætis, virðingar við náttúruna og raunverulegs lýðræðis og við Íslendingar.

En það eru ljón á veginum, hæstv. forseti. Eitt þeirra hefur minnt rækilega á sig undanfarnar vikur. Ljónið, sem áratugum saman hefur varið dyr forréttinda og spillingar hefur vikið af verðinum og okkur opnast sýn enn einu sinni inn í eldhúsið þar sem kraumar í kjötkötlum valdsins. Þeim einum er boðið til borðs sem tilheyra þeim stjórnmálaflokkum sem hafa setið við völd lengst af þessari öld og þar er ekkert til sparað til að gera veisluna sem veglegasta enda hefur hún staðið lengi.

Framsóknarforinginn Jónas frá Hriflu bauð Einari Olgeirssyni til sætis í Síldareinkasölu ríkissins 1928 meðan hann var honum að skapi. Og Jóni Baldvinssyni, formanni Alþýðuflokksins, veitti hann bankastjórastól Útvegsbankans 1930 auk allra sinna flokksgæðinga sem hann kom fyrir í ýmsum hornum. Sjálfstfl. hefur um áratuga skeið átt sín sæti við borðið og má nú glíma við fyrrum samherja sem hraktist úr veislunni en stendur fyrir óspektum utan dyra. Þess er skemmst að minnast hvernig Alþfl. raðaði til borðs á síðasta kjörtímabili og dugði ekkert minna en stólar bankastjóra, sendiherra og forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.

Það er löngu orðið tímabært að velta um stólum í þessari veislu. Hleypa út vindlareyknum, hreinsa af borðum og raða upp á nýtt þannig að reynsla, menntun og hæfileikar ráði ríkjum í íslenska stjórnkerfinu og í þeim stofnunum sem undir það heyra. Það er kominn tími til að íslenskir sjtórnamálamenn taki á sig rögg, kveðið niður þessa drauga fortíðarinnar, taki upp lýðræðislega stjórnarhætti og snúi sér að því sem skiptir okkur mestu máli, framtíðinni.

Hæstv. forseti. Að mínum dómi hafa íslensk stjórnmál villst af leið í kjölfar þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á heimsmálum á undanförnum tíu árum. Hrun hugmyndakerfa og heimsveldisins í austri kipptu grunninum undan þeirri pólitík sem hér var rekin um árabil. Ekki verður sagt að andríkinu sé fyrir að fara í stefnu ríkisstjórnarflokkanna, allt er þar með hefðbundnum hætti. Hvað þá að finna megi hugmyndaauðgi meðal svokallaðra vinstri flokka sem einkum ræða og deila um það hvort betra sé að vera sameinaðir eða sundraðir. Sú barátta sem ég hef varið drjúgum hluta ævi minnar til að sinna, íslensk kvennabarátta, sem um skeið blés nýju lífi í íslensk stjórnmál, er í lægð en hún mun eflaust taka á sig nýjar myndir á næstu árum eins og hún hefur gert aftur og aftur undanfarin 100 ár.

Það er kominn tími til nýsköpunar í íslenskum stjórnmálaum, hæstv. forseti, tími endurnýjunar sem tekur mið af nýrri öld sem brátt rennur upp. Til þess að breyting eigi sér stað þarf að móta stefnu, endurskoða hugmyndir og breyta formum, hleypa nýjum straumum að, ekki síst hugmyndum um kvenfrelsi, skapa upp á nýtt en ekki að bræða saman gömul valdakerfi sem eru að daga uppi.

Á meðan íslensk stjórnmál hjakka að mestu í sama farinu og sýna helst lífsmark í auknu eftirliti með framkvæmdarvaldinu, sem er auðvitað af hinu góða, breytist veröldin hratt. Þeir eru margir sem velta því fyrir sér úti í hinum stóra heimi hvað framtíðin beri í skauti og hvað stjórnmál næstu aldar muni snúast um. Greinarhöfundar tímaritsins Time, sem var áður vitnað til, spá því að umhverfismál verði meðal þeirra mála sem beri hæst og eru þeir ekki einir um þá skoðun. Þeir nefna einnig alþjóðavæðingu og áhrif hennar andspænis vaxandi þjóðernishyggju og sívaxandi áhyggjur af ýmiss konar bókstafstrú sem oftar en ekki brýst út í ofsóknum ef ekki hryðjuverkum.

Evrópusambandið hefur að undanförnu spáð í framtíðina út frá hinni félagslegu hlið og bent þar á þjóðfélagsbreytingar og vanda sem verði að bregðast við. Þar eiga þeir einkum við langvarandi atvinnuleysi, sívaxandi eiturlyfjaneyslu og glæpi henni samfara og síðast en ekki síst miklar breytingar sem eru að verða á fjölskylduháttum um alla Evrópu. Þeim heimilum fjölgar stöðugt þar sem aðeins býr einn fullorðinn einstaklingur með eða án barna. Menn óttast að hin gömlu og góðu fjölskyldugildi, sem löngum hafa haldið samfélögunum saman, séu á undanhaldi. Því fylgir vaxandi upplausn og aukinn fjöldi þeirra sem geta ekki séð sér farborða eða lenda utan garðs af einhverjum orsökum. Bilið milli ríkra og fátækra er að breikka.

Þá á sér stað mikil umræða í velferðarríkjum vestursins um afleiðingar þess hve margir ná nú háum aldri og hvernig skuldsett þjóðfélög Vesturlanda eigi að fara að því að ala önn fyrir sínu gamla fólki án þess að skattbyrði hinna yngri verði óbærileg. Spurt er hvernig velferðarkerfi framtíðarinnar eigi að líta út, hverjir eigi að njóta aðstoðar og hvernig eigi að kosta hana. Svarið felst m.a. í því að halda fólki lengur á vinnumarkaði enda heilsan miklu betri en áður var, gefa fólki kost á endurmenntun og símenntun þannig að sem flestir geti séð fyrir sér jafnframt því að stokka upp kerfið og breyta áherslum. Enn einu sinni beinast sjónir að menntakerfinu og því lykilhlutverki sem það mun gegna í framtíðinni, ekki aðeins fyrir unga fólkið heldur fyrir alla starfsævina.

Hæstv. forseti. Stjórnmál og stjórnmálastefnur geta ekki þrifist öðruvísi en að þau byggist á hugmyndum og hugsjónum og horfist í augu við veruleikann. Þau eiga að fást við áleitnar spurningar. Þegar stjórnmál fara fyrst og fremst að snúast um leiðtoga og ímyndir eða það eitt að halda völdum er eitthvað mikið að. Þær hugsjónir sem tóku að þróast á 17. öldinni um réttinn til frelsis, hugsjónir réttlætis, jöfnuðar og jafnréttis allra manna, karla jafnt sem kvenna, auk virðingarinnar við móður náttúru hljóta að verða það leiðarljós sem stjórnmál framtíðarinnar munu byggjast á. Eigum við ekki að taka höndum saman um að koma þeim hugsjónum til vegs og virðingar að nýju og gera næstu öld að öld jafnréttis, bræðra- og systralags? En, hæstv. forseti, það verður örugglega ekki gert undir forustu Sverris Hermannssonar. --- Góðar stundir.