Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 21:33:30 (7397)

1998-06-03 21:33:30# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KPál
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[21:33]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í ljóði sínu Háfjöllin yrkir Steingrímur Thorsteinsson á eftirfarandi hátt um hálendið:

  • Þú bláfjallageimur með heiðjöklahring
  • um hásumar flý ég þér að hjarta.
  • Ó, tak mig í faðm, minn söknuð burt ég syng
  • um sumarkvöld við álftavatnið bjarta.
  • Ættjarðarskáldin hafa sveipað land okkar dýrðarljóma og hljómar kveðskapur þeirra sífellt í eyrum okkar fagur og tær. Í heimi síbreytileikans og vaxandi kröfugerðar í auðæfi náttúrunnar annars vegar og verndun hennar hins vegar er reglulegt uppgjör á þeim vettvangi því nauðsynlegt.

    Eins og alkunna er kom Sigríður Tómasdóttir í Brattholti í veg fyrir virkjunarframkvæmdir við Gullfoss. Án efa hefur ást hennar á landinu og ómur ættjarðarskáldanna hvatt hana til dáða til að berjast fyrir verndun Gullfoss og fullyrði ég að í dag vildu allir þá Lilju kveðið hafa.

    Með hugsjónir þessara náttúruunnenda í huga hafa ýmsir mætir menn í þjóðfélaginu lagst gegn lögum um sveitarstjórnir, nýtingu auðlinda í jörðu og þjóðlendna. Með sömu hugsjónir í huga hafa sjálfstæðismenn á Alþingi stutt þessi lög. Í þessu felst þversögn sem ég tel nauðsynlegt að skýra. Ef við skyggnumst aðeins í þessa lagabálka er þar þrennt sem stendur upp úr: Í fyrsta lagi er tryggður ótvíræður eignarréttur ríkisins, þ.e. þjóðarinnar, yfir öllu landi sem enginn annar getur sannað eignarrétt sinn yfir. Ekki er ljóst hve þjóðlendur og jarðir í eigu ríkisins verða stór hluti landsins en grófar hugmyndir eru um að allt að 60% landsins alls verði eign ríkisins. Í öðru lagi eignast ríkið allan rétt á nýtingu og rannsóknum á auðlindum í jörðu á þjóðlendum, auk réttinda til heitavatnsnotkunar í einkalöndum. Í þriðja lagi er fulltrúum fólksins falin stjórnsýsla og skipulag á þjóðlendum í samráði við umboðsmann þjóðarinnar, forsrh. Með þessu móti hafa yfirráð og nýting á náttúruperlum miðhálendisins verið sett í fastar skorður og almannahagur settur ofar einkahagsmunum. Allt tal um að 4% þjóðarinnar séu að eignast miðhálendið er því fjarstæða og áróðursbragð í anda veiðimennsku þingflokks jafnaðarmanna sem fiskar nú um stundir helst í gruggugu vatni tortryggni og hálfsannleika.

    Náðst hefur samkomulag innan stjórnarflokkanna um breytingar á 12. gr. skipulags- og byggingarlaga sem afdráttarlaust tekur á því að miðhálendið verði allt skipulagt sem ein heild. Skipulagsvaldið samkvæmt lögunum verður í höndum svæðisskipulagsnefndar, forsrh., umhvrh., Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna. Af hálfu þessara aðila hefur nú þegar farið fram mikil skipulagsvinna sem vakið hefur athygli fyrir mikinn áhuga á verndunarsjónarmiðum. Af þessum ástæðum tel ég þessi frv. til bóta fyrir land og þjóð.

    Herra forseti. Í þjóðfélagsumræðunni síðustu daga hafa ýmsir aðilar jafnað saman lögunum um miðhálendið og kvótakerfinu með þeim rökum að miðhálendið sé afhent fáum á sama hátt og kvótinn. Þarna er, herra forseti, öllu ólíku saman að jafna. Miðhálendið er sett undir ríkið og eignaryfirráðin eru ríkisins eins og komið hefur fram en kvótinn er afhentur útgerðarmönnum til veðsetningar, til sölu, leigu og veiða allt eftir geðþótta hvers og eins útgerðarmanns.

    Fiskveiðistjórnarkerfið hefur af þessum ástæðum verið mörgum þyrnir í augum og er það tilfinning þjóðarinnar að útgerðinni hafi verið gefin þjóðareignin með lögunum um stjórn fiskveiða frá árinu 1990. Þetta er afleit tilfinning, herra forseti. Fyrir rúmu ári barðist ég ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. hart gegn því að lögfest yrði heimild til að veðsetja kvóta með skipi. Ástæða þeirrar baráttu var fyrst og fremst það álit okkar að þá festist kvótinn enn frekar í sessi. Grundvallarbreytingar á kerfinu gætu einnig orðið erfiðari eftir það og bakað þjóðinni skaðabótaábyrgð.

    Það var ekki síst fyrir mikinn þrýsting ríkisbankanna að okkur tókst ekki að stöðva þetta mál. Okkur sem nú sitjum á þingi er því mikill vandi á höndum. Allar aðgerðir til að leggja kvótann af í einu vetfangi eru of áhættusamar, enda enginn sem vill setja langmikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar í hættu. Slíkt er algjört ábyrgðarleysi.

    Ýmsir vonast til þess að lausnin fáist með þál. um skipun þverpólitískrar nefndar sem kanni gjaldtöku í einu eða öðru formi fyrir afnot af þjóðareigninni. Með því móti vonast ég til að sátt geti náðst um auðlindastýringuna. Niðurstaða þessarar nefndar verður að líta dagsins ljós fyrir næstu áramót.

    Herra forseti. Langtímaáætlun í vegagerð var fyrir nokkrum dögum samþykkt í þinginu og nær áætlunartímabilið til ársins 2010. Þar er tekið á öllum mikilvægustu vegamálum landsins, m.a. lagningu bundins slitlags til allra þéttbýlisstaða landsins, tvöföldun Reykjanesbrautar og mörgu fleira.

    Ég vil leyfa mér að fagna sérstaklega þeim vinnubrögðum sem hér eru innleidd af hæstv. samgrh. um langtímaáætlun í brýnustu samgöngumálum landsins. Slík vinnubrögð leiða til betra skipulags í samgöngumálum sem gagnast jafnt þéttbýlisstöðum sem dreifbýlinu. Stærsta einstaka framkvæmd þessa tímabils er Reykjanesbrautin frá Reykjavík til Reykjanesbæjar og eru áætlaðir til þeirrar framkvæmdar um 6,7 milljarðar kr. Þessari framkvæmd sem öðrum fagna ég sérstaklega.

    Herra forseti. Um næstu helgi halda landsmenn sjómannadaginn hátíðlegan. Í tilefni þess óska ég öllum sjómönnum til hamingju með daginn. Jafnframt óska ég þeim blessunar um ókomna tíð og Íslendingum öllum. --- Góðar stundir.