Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 21:39:43 (7398)

1998-06-03 21:39:43# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, RG
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[21:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Eldhúsdagur er í eðli sínu uppgjör. Að þessu sinni er það óvenjuharkalegt. Liðinn vetur á Alþingi hefur reynst tími valds og hroka. Röng eða engin svör við fyrirspurnum jafnaðarmanna á Alþingi hafa kallað fram hörð viðbrögð með þjóðinni. Atburðarás liðinna vikna hefur afhjúpað ábyrgðarleysi æðstu ráðamanna, ráðherrar geta ekki borið af sér ávirðingar, víkjast undan ábyrgð og benda á aðra en það er Alþingi sem bíður álitshnekki.

Þegar ráðherra jafnaðarmanna sagði af sér ráðherradómi á síðasta kjörtímabili sagðist hann vilja skapa fordæmi um ráðherraábyrgð. Nú reynir á það fordæmi.

Stjórnmál snúast um stefnu, völd og traust. Framsfl. og Sjálfstfl. nota vald sitt til að færa auðlindir okkar á fárra hendur. Það gerist í hvert sinn sem þessir tveir flokkar eru saman í ríkisstjórn. Þeir eru nokkurs konar gjafatvenna sem hefur með sér valdakaup. Á sínum tíma settu þessir flokkar lög um stjórn fiskveiða sem hafa fært auðlind okkar í hafinu á fárra hendur. Fáir útvaldir selja aðgang að fiskimiðunum og gjald fyrir aðgang að auðlindinni rennur í þeirra eigin vasa.

Í síðustu viku voru veiðiheimildir auknar og þeim úthlutað áfram ókeypis til þeirra sem höfðu veiðiréttinn fyrir. Þetta voru 32 þús. tonn af þorski. Viðbótarúthlutun sem meta má til 25 milljarða kr. miðað við gangverð eignarkvóta en það samsvarar 90 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Boðskapur forsrh. er að vextir muni hækka og að draga þurfi úr ríkisútgjöldum vegna þessarar aflaaukningar. Með öðrum orðum á að draga úr velferðarþjónustu á sama tíma og fáir útvaldir hagnast um milljarða króna. Stjórnarflokkarnir mega ekki heyra á veiðileyfagjald minnst en vita þó að eignarkvóti úr hinni nýju úthlutun mun ganga kaupum og sölum fyrir 800 kr. kílóið. Þeir hafa nú sett lög um að allar auðlindir í jörðu munu tilheyra landeigendum. Auðlindir sem finnast eða munu finnast á eða í landareign verða eign landeigenda hvort sem um er að ræða efni, málma, háhita eða jafnvel olíu.

Engin mál hafa kveikt viðlíka elda og klofið þjóðina í fylkingar eins og kvótinn og nú skulu allar auðlindir okkar í sama farveg, afhentar fáum til eignar og umráða. Helmingaskipti Framsóknar og Sjálfstfl. hafa alltaf alvarlegar afleiðingar fyrir fólkið í landinu.

Þrátt fyrir harða baráttu á Alþingi tókst okkur ekki að afstýra því að sett voru lög um sveitarfélagamörk á miðhálendinu. Því var skipt upp í tertusneiðar eins og frægt er orðið. Þessi nýju lög eru mesta aðför að almannarétti frá landnámsöld, lénsskipulag nútímans. Það er með ólíkindum og brot á allri lýðræðishugsun að þjösna máli sem ekkert kallar á að lögfesta gegnum Alþingi þegar fyrir liggur að yfir 70% þjóðarinnar eru slíkri löggjöf gjörsamlega andvíg. Ég hygg að fleiri en ég hneykslist á ríkisstjórn sem hlustar ekki á þjóðina sína þegar hún talar, þegar mörg þúsund Íslendingar mótmæla því að ríkisstjórnin færi fáum sveitarfélögum öll völd á almenningum landsins. Í yfirlýsingu um 90 fræðimanna var borin fram sú fróma ósk að fresta ákvörðun um uppskiptingu hálendisins til haustsins. Þann hóp skipuðu m.a. virtir skólamenn, prófessorar, lektorar, vísindamenn, menningarfrömuðir og tveir fyrrverandi umhverfisráðherrar. Fjöldi félaga og félagasamtaka skoruðu á Davíð Oddsson forsrh. að fresta málinu. Í þessum samtökum eru tugþúsundir félaga. Skoðanakannanir sýndu að sjö af hverjum tíu Íslendingum eru andvígir því að stjórnsýslan á miðhálendinu, þar með talið skipulags- og byggingarvald, verði falið aðliggjandi sveitarfélögum. Fólkinu í landinu, öllu, sem þykir vænt um öræfin og nýtir þau í æ ríkari mæli til útivistar og lífsfyllingar, finnst það varða sig hvernig og hvort þar verður framkvæmt.

[21:45]

Allir landsmenn verða að geta treyst því að almannaréttur, t.d. réttur almennings um landið ráði ferðinni en ekki hagsmunir einstakra sveitarfélaga eða fámennra hópa. Þó sett verði niður samvinnunefnd sem svæðisskipuleggur miðhálendið getur hún ekki tryggt samræmt skipulag á þessu svæði gegn vilja sveitarfélaganna. Allt slíkt tal er blekking ein. Við jafnaðarmenn lögðum fram tillögu um að miðhálendi Íslands verði sjálfstæð stjórnsýslueining sem lyti sérstakri landskjörinni stjórn. Þetta er skynsamleg tillaga sem byggir á því að svæðið verði skipulagt sem ein heild og að fulltrúar allrar þjóðarinnar komi að því skipulagi.

Herra forseti. Stefna jafnaðarmanna er skýr. Við viljum efla sveitarfélög, gera þau vel í stakk búin að taka við auknum verkefnum og tryggja þeim sjálfræði um málefni sín. Stefna jafnaðarmanna er líka skýr varðandi sameiginlegar auðlindir. Við viljum að þjóðinni sé greitt fyrir veiðiheimildir í stað þess að þeir fjármunir renni í vasa útvalinna sem fengið hafa kvótann ókeypis. Stefna okkar er skýr hvað varðar auðlindir í jörðu, þær eru eign okkar allra. Óbyggðir Íslands eru einhver mestu auðæfi okkar Íslendinga. Landsmenn munu ekki una valdníðslunni á Alþingi nú á vordögum. Andstaðan sem blossaði upp vegna áforma ríkisstjórnarinnar um miðhálendið var vegna þess að þetta er eitt af hjartans málum þjóðarinnar. Þess vegna bregst þjóðin við. Hún spyr: Hvar eru auðlindir mínar? Og svarið er: Þær hafa verið afhentar öðrum.