Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 22:06:31 (7402)

1998-06-03 22:06:31# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, StB
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[22:06]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Ágætu tilheyrendur. Á þessu þingi hafa stjórnarflokkarnir haldið áfram umbótastarfi sínu á grundvelli stjórnarsáttmálans með setningu nýrra laga í þeim tilgangi að bæta samfélagið og búa í haginn fyrir íbúa landsins til framtíðar. Þar má nefna löggjöf um sveitarstjórnir, um húsaleigabætur, viðamikla löggjöf um húsnæðismál, löggjöf um lífeyrisréttindi, lög um háskóla, þjóðlendur og samþykkt nýrrar vegáætlunar sem markar tímamót. Auk þess hefur á grundvelli laga um grunnskóla og framhaldsskóla verið unnið að mótun nýrrar skólastefnu, ,,Enn betri skóli``, sem markar vissulega tímamót undir öflugri forustu hæstv. menntmrh.

Einnig vil ég nefna verulegar breytingar á löggjöf um stjórn fiskveiða er varðar endurnýjunarreglur fiskiskipa, takmörkun á fyrningarreglum veiðiheimilda, takmörkun á færslu aflaheimilda milli skipa, hámarksaflahlutdeild einstakra útgerða og breytingar á veiðiheimildum krókabáta. Þá er ástæða til þess að nefna löggjöf um Kvótaþing og Verðlagsstofu skiptaverðs, sem var liður í lausn sjómannadeilunnar og um leið mikilvæg breyting á kvótakerfinu.

Á þessu kjörtímabili hafa því orðið umtalsverðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Auðvitað þarf áfram að vinna að endurbótum á þeirri löggjöf svo tryggja megi hagkvæma nýtingu auðlinda sjávar og stuðla að sátt um auðlindir þjóðarinnar. Þar mega ákvarðanir ekki mótast af upphlaupsákvörðunum.

Við umræðuna í kvöld hefur stjórnarandstaðan haldið uppteknum hætti og kveðið öfugmælavísur um stöðu mála hér í þinginu og gefið villandi mynd af þeim mikilvægu málum sem við höfum unnið að á Alþingi. Það var athyglisvert að fylgjast með ræðum þeirra hv. þm. Alþfl. og Alþb., fyrrverandi félagsmálaráðherrum, þegar þeir ræddu um húsnæðismál og það er auðséð að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er hlaupin á flótta í því máli því hún nefndi það varla, svo rækilega sem hún hefur þó talað um þau mál. Það er athyglisvert, ekki síst vegna þess að sveitarfélögin í landinu sem bera ábyrgð á rekstri hinna félagslegu íbúða hafa fagnað þessari löggjöf um húsnæðismál. Þau hafa fagnað henni og það ber að vekja sérstaka athygli á því. Reykjavíkurborg hefur t.d. selt félagslegar íbúðir sínar inn í sérstakt fyrirtæki og þess hefur ekki orðið vart að höfuborgin fremur en önnur sveitarfélög og samtök sveitarfélaganna hafi lagst gegn þeirri löggjöf sem er tímamótalöggjöf, mikil endurbótalöggjöf á húsnæðiskerfi sem var komið að fótum fram.

Þá er ástæða til þess að vekja athygli á þeirri umræðu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hóf um afskriftir bankakerfisins. Vissulega er það stórt vandamál þar sem eru afskriftir bankakerfisins en hv. þm. gleymdi því eins og fleiri stjórnarandstæðingar að þeir hafa tekið þátt í stjórn þessa lands. Árum saman var hv. þm. í ráðherrastöðu og ýmsir hv. þm. Alþýðuflokksins hafa verið í sæti viðskrh. og borið ábyrgð á bankakerfinu þegar miklir erfiðleikar gengu yfir landið og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, í samstarfi við okkur sjálfstæðismenn, þurfti að taka á miklum og erfiðum fortíðarvanda sem beindist m.a. að afskriftum skulda, bæði opinberra sjóða og í bankakerfinu.

En hvert sem litið er er hins vegar gróska og vaxandi bjartsýni í landinu. Okkur hefur tekist að stjórna ríkisfjármálum þannig að efnahagslífið hefur verið endurreist og nú verðum við að nýta góðærið. Þetta vil ég nefna sérstaklega sem verkefni samfélagsins:

Í fyrsta lagi vil ég benda á það mikilverða mál að verja ungmenni gagnvart þeim mönnum sem stunda sölu fíkniefna og leita eftir skjótfengnum gróða með því að láta ungmenni ánetjast fíkniefnum með öllum þeim hörmungum sem þeim fylgir. Ekkert má til þess spara að vinna gegn þeim óvinaher sem þar fer fram gegn samfélaginu öllu. Til þess þarf lögreglan stuðning og þær stofnanir sem vinna við að styðja einstaklinga sem fallið hafa fyrir fíkniefnum. Mikilvægt er að skapa unga fólkinu skilyrði til þess að finna sér hlutverk og viðfangsefni í samfélaginu og tryggja því menntun og starf. Allt bendir til þess að árangurs megi vænta í forvörnum með auknum stuðningi við jafningjafræðslu og stuðningi við ungmenna- og íþróttasamtök sem skynja hættuna og bregðast við til varnar.

Í öðru lagi vil ég nefna það risavaxna verkefni sem er að stöðva byggðaflóttann og snúa vörn landsbyggðar í sókn því nú er lag. Það viðfangsefni er öllum landsmönnum til hagsbóta. Fyrir þinginu liggur till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir næstu fjögur ár sem forsrh. hefur lagt fram. Því miður verður sú tillaga ekki afgreidd á þinginu vegna málþófs stjórnarandstöðunnar. Tillagan um sérstaka áætlun í byggðamálum fjallar um leiðir og þrauthugsuð verkefni svo efla megi byggðina og nýta eignir og auðlindir. Til þess að ná árangri í byggðamálum verða aðgerðir stjórnvalda að beinast að skýrt skilgreindum markmiðum. Það eru breyttir tímar með nýjum áherslum. Stjórnarflokkarnir verða að ná árangri og koma í veg fyrir frekari byggðaröskun.

Með nýrri markvissri byggðaáætlun viljum við að fyrirtækjum verði auðvelduð nýsköpun með stuðningi Byggðastofnunar. Við eigum að leggja áherslu á menntun og eflingu menningarstofnana. Við viljum jöfnun lífskjara í landinu með lækkun orkukostnaðar, nýtingu jarðvarma og bættum samgöngum. Þær aðgerðir varða alla. Þær bæta samkeppnisstöðu byggðanna og auka verðgildi eigna þegar vaxtarsvæðin eflast. Með nýrri og vandaðri byggðaáætlun viljum við bætta umgengni við landið er tryggi auðlindanýtingu og möguleika okkar til þess að búa í sátt við landið.

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það er komið að þinglokum og sumarið er fram undan. Við stjórnmálamenn höfum stöðugt verk að vinna í viðleitni okkar við að treysta öryggi og jöfnuð og réttlæti í okkar fámenna samfélagi. Okkur sjálfstæðismönnum er ljóst af skoðanakönnunum og ekki síður úr úrslitum sveitarstjórnarkosninga að Sjálfstfl. er sem fyrr hin pólitíska kjölfesta í landinu sem treyst er á. --- Góðar stundir.