Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 22:19:07 (7404)

1998-06-03 22:19:07# 122. lþ. 143.1 fundur 439#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur, 122. lþ.

[22:19]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Vorið gekk í garð með blíðu og sannarlega lofar byrjun sumars góðu. Veðursældin og hækkandi sól hleypir bjartsýni og gleði í hjörtu fólksins. Sumarið er komið og full ástæða til að gleðjast. Því er heldur dapurlegt til þess að vita að sumarkoman skuli hafa farið fram hjá tilteknum þm. hv. stjórnarandstöðu. Bölmóður þeirra og síbylja skáldlegra upphrópana lýsa engu öðru en örvæntingu og svartnætti. Þeir virðast hafa farið á mis við sumarkomuna en standa hér sólarhringum saman og velta sér upp úr vetrardvala sínum.

Engum blöðum er um það að fletta að bjart er yfir í efnahags- og atvinnulífi okkar. Vofa atvinnuleysis, kyrrstöðu og skuldasöfnunar grúfði yfir fyrir aðeins þremur árum. Þeir vágestir hafa nú vikið fyrir mestu kaupmáttaraukningu í áratugi, bjartsýni og nýsköpun í atvinnulífi, lækkandi sköttum í fyrsta sinn um langt skeið og festu í fjármálum. Þetta má með sanni kalla sumar í efnahagslífi okkar og kemur ekki síst fram með bjartsýnni þjóð og framsækinni. Þessu eiga nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðu erfitt með að kyngja og í stað þess að gleðjast með þjóð sinni láta þeir staðreyndir sem vind um eyru þjóta og grípa til örþrifaráða. Blóði skal úthellt í nafni siðbótar og réttlætis, einstaklingar skulu dregnir á blóðvöllinn í nafni siðbótar og meðulin eru ekki vandaðri en svo að reglan um sakleysi þar til sekt hefur verið sönnuð, er létt vegin og harðir sleggjudómar upp kveðnir. Blóði skal úthellt með róginn að vopni.

  • Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
  • þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
  • en láttu það svona í veðrinu vaka,
  • þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
  • Rógsherferð með illgirni að leiðarljósi er beitendum sínum til vansa og þótt krossförin sé farin í nafni siðbótar kann hún að vera í eðli sínu meira lýðskrum og spilling en nokkur önnur mannanna verk. Sumarið hefur svo sannarlega sniðgengið slíkt fólk.

    Herra forseti. Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir betri sóknarfærum á flestum sviðum en nokkru sinni ef rétt er á haldið. Ég vil gera umhverfis- og orkumál að sérstöku umræðuefni í því sambandi. Þjóðir heimsins eru að vakna upp við vondan draum þar sem útblástur er að verða vandamál á heimsvísu. Í kjölfarið kappkosta nú helstu iðnfyrirtæki að bregðast við kalli tímans og verja milljörðum króna til rannsókna á nýjum og mengunarlausum orkugjöfum. Talsmenn stærstu bílaframleiðenda hafa þannig lýst því opinberlega yfir að vetni verði orkugjafi 21. aldar og þar skýtur nafni Íslands upp.

    Herra forseti. Kostir lands og þjóðar eru svo ótvíræðir og einstakir og fela í sér möguleika okkar á að auka enn forskot Íslendinga hvað varðar vistvænt efnahagslíf. Sóknarfærin eru til staðar og það er undir okkur sjálfum komið að nýta þau. Vissulega heyrast úrtöluraddir og svo var einnig í árdaga hitaveituvæðingar, en með kjark og bjarta sýn til framtíðar tókst okkur að hverfa frá kolum og olíu til hins hreina og heita vatns. Hagsmunir þjóðarinnar og þekking á þessu sviði eru óumdeilanleg í dag. Í stað þess að verja 10 milljörðum kr. árlega af gjaldeyri okkar til kaupa á olíum og bensíni gætum við haldið þessu fé innan efnahagskerfis okkar og aukið á þekkingu okkar og reynslu. Möguleikar til útflutnings á þessum orkugjafa, sem og hugviti tengdu honum eru vissulega til staðar. Enginn dregur í efa gildi þess fyrir efnahag og umhverfi þjóðarinnar.

    Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir því að geta orðið fyrsta ríki veraldar sem byggir efnahagslíf sitt að mestu leyti á vistvænum orkugjöfum. Umhverfisáhrifin eru ómetanleg, þá ekki síður hin efnahagslegu. En til þess þarf skýra stefnumörkun og ótvíræðan vilja. Fyrstu rafbílarnir aka þegar um götur landsins og fleiri eru á leiðinni. Almenningur er meðvitaður um gildi þessara mikilvægu skrefa fyrir þjóðina. Þetta er skýrt dæmi um raunhæfa framtíðarsýn sem byggir á rannsóknum og hugviti í bland við skilning á þeim miklu verðmætum sem land okkar felur í sér. Þessa þætti ber okkur því að rækta af kappi og halda trúnað við þessa sýn. Þannig, herra forseti, tel ég að við getum horft björtum augum til 21. aldar. --- Ég þakka áheyrnina.