Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 09:50:34 (7409)

1998-06-04 09:50:34# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[09:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir málefnalegt svar. Hann tekur undir það að olíugjald kæmi alveg til álita en hann bendir á ýmis rök sem mæla gegn því að hans dómi. Ein eru þau rök að erfitt væri að leggja slíkt olíugjald á fiskiskipaflotann vegna þess, eins og hv. þm. bendir á, getur flotinn keypt olíu á hafi úti eða í öðrum löndum. Rétt er það.

Hitt er líka staðreynd að í þeim löndum sem liggja í kringum okkur í allri Vestur-Evrópu er þróunin sú að menn munu á næstu árum fara þessa leið. Ég hygg að innan skamms yrði erfitt fyrir menn að komast hjá því. En jafnvel þó þeir kæmust hjá því að einhverju leyti, er það þá bara ekki allt í lagi? Er sem sagt meginhugsun þeirra sem leggja fram frv. sú að hala inn tiltekna upphæð í ríkissjóð?

Þar greinir mig á við hv. þm. Ég reyndi að koma því til skila í ræðu minni áðan að ég tel að önnur sjónarmið eigi að vega þyngra í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að umhverfissjónarmiðin eigi að skipta mestu.

Hv. þm. sagði að það væri viðurhlutamikið að stöðva frv. núna. Ég spyr hann þá sem verkstjóra nefndarinnar: Hvernig stendur á því að málið kemur ekki fyrr inn til þings? Ég varð ekki var við þetta mál fyrr en í gær og jafnvel þó það hafi legið hér í einhverja daga eða vikur finnst mér það með ólíkindum eins og málin hafa þróast hér að menn skuli þá ekki hafa komið því fyrr til þingsins til umræðu ef svona mikið liggur á því.

Það er líka viðurhlutamikið, herra forseti, að samþykkja frv. bara til þess að taka ákvörðun í málinu þegar það liggur fyrir að innan meiri hlutans eru menn ekki fyllilega sannfærðir um það að frv. nái þeim tilgangi sem flutningsmenn vilja.