Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 09:54:31 (7412)

1998-06-04 09:54:31# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[09:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta nokkrum orðum við umræðuna um stöðu málsins sem við ræddum reyndar lítillega í gær en hefur orðið tilefni frekari orðaskipta milli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og Össurar Skarphéðinssonar. Ég er sama sinnis og ég var í gær --- enda tekur iðulega lengri tíma fyrir mig en sólarhring að skipta um skoðun --- að það er ekki æskilegur kostur að þurfa að fresta málinu. Og það þarf að reyna að fá botn í þetta með einhverjum ráðum.

En af tvennu illu getur þó verið skárra að fresta máli en að gera einhver mistök eða fara út í hálfgerðar fljótræðisbreytingar á þungaskattinum vegna þess að menn ákveði að hverfa frá fyrri áformum um upptöku olíugjalda. Kannski er ekki mjög mikill munur á því ef menn vita að hverju er stefnt og að hverju er verið að vinna í sumar, hvort þessi skipan mála er lögfest núna í júní eða hvort menn t.d. settu þetta mál í frekari vinnu í sumar og sammæltust um að ljúka afgreiðslu þess fyrir lok október eða þar um bil. Það eina sem mundi gerast er að núverandi þungaskattskerfi yrði notað nokkra mánuði í viðbót án breytinga. Það getur varla verið eðlismunur á því gagnvart gagnrýni eða áliti samkeppnisráðs sem þar skiptir fyrst og fremst máli, hvort það ástand sem þegar hefur varað mánuðum saman, eftir að sá úrskurður lá fyrir, varir nokkrum mánuðum lengur. Þá væru eftir sem áður tveir mánuðir til stefnu áður en núgildandi ákvæði um upptöku olíugjalds ættu að koma til framkvæmda, þ.e. um næstu áramót.

Ég held að í þessu sambandi mundi skipta miklu máli í hvaða samhengi málinu væri frestað eða í hvaða farveg það yrði sett í sumar. Ef það væri beinlínis gert í yfirlýstum tilgangi tel ég að hann ætti þá að vera tvíþættur. Annars vegar að vinna að betri útfærslu á þeim breytingum á þungaskattskerfinu sem þetta frv. felur í sér og allir viðurkenna að eru ekki mjög rækilega rannsakaðar. Það er t.d. engan veginn búið að fara nógu vel yfir það hvernig einstakir aðilar í þessum hópi sem þarna eru þolendur eða greiðendur koma út úr því. Þó að fyrir liggi eitt dæmi um það væri að mínu mati æskilegt að geta farið í mun betri skoðun á því hvernig væri rétt að byggja upp gjaldskrána eða skattstigann sem þetta er í raun og veru, til þess að leita að betri dreifingu á skattbyrðinni þannig að hún nálgaðist meir það sem er í dag. Það er yfirlýstur vilji manna að gera það og kom fram hjá frsm. meiri hlutans í gær, Einar Oddi Kristjánssyni, að það væri alls ekki ætlunin að þetta mundi valda íþyngjandi áhrifum t.d. fyrir þá sem væru að aka á lengstu flutningaleiðunum innan lands.

Það gæti því verið annar megintilgangur slíkrar frestunar til haustsins að vinna reikningsvinnuna betur og láta skoða fleiri möguleg dæmi og blöndur af fastagjöldum og kílómetragjaldsálagningu. Sú hugmynd hefur komið fram, m.a. frá samtökum flutningsaðilanna að ætli menn að fara þessa leið á annað borð ætti að bjóða upp á greiðslu fastagjalds sem gæti verið valkostur fyrir þá sem aka allra lengstu leiðirnar að greiða fast gjald sem væri sambærilegt og kostnaður við 80--100 þús. km akstur gæfi af sér, miðað við núgildandi gjaldskrá þannig að menn ættu þann kost að greiða þetta fastagjald og ná þá fram hagstæðari útkomu, sérstaklega fyrir þá sem aka allra lengst. Auðvitað þarf að skoða líka hvort þessi útfærsla stenst ekki ákvæði samkeppnislaga.

Hitt sem menn gætu þá gefið sér betri tíma til að fara yfir er spurningin um hvort menn ætla að slá af til frambúðar allar hugmyndir um upptöku olíugjalda. Er það þá orðin niðurstaðan að menn ætli að gera það? Ég held að það þýði ekkert að láta þetta mál hanga í loftinu og velkjast fyrir hunda og manna fótum eins og það hefur í raun og veru gert hér undanfarin mörg ár. Ég er ósáttur við að þurfa að gefa þá hugmynd með öllu upp á bátinn. Ég held að það væri best að þetta væri kerfi sem væri sem líkast því sem gildir um skattlagningu á bensínbifreiðum. Mér finnst miður ef þetta verður niðurstaðan sem mun m.a. leiða til þess að ekki er líklegt að notkun dísilbifreiða aukist á næstu árum, eins og hún hefði auðvitað þurft að gera og væri tvímælalaust jákvæð þróun.

Herra forseti. Að síðustu um upptöku á umhverfisgjöldum eða mengunarsköttum almennt má til sanns vegar færa að ef menn eru að tala um upptöku á hreinum mengunarsköttum, t.d. á kolefniseldsneyti, eigi að halda því aðgreindu frá þeirri skattlagningu á umferðina sem hér er í raun og veru á ferðinni, til að standa straum af uppbyggingu umferðarmannvirkjanna því við erum fyrst og fremst að tala um tekjur Vegasjóðs.

[10:00]

Þá er að sjálfsögðu eðlilegt að skoða alla eldsneytisnotkun án tillits til þess hver notandinn er og hvort hann fer yfir sjó eða land. Þá værum við að tala um einhverja gjaldtöku sem væri auðvitað af allt annarri stærðargráðu, væntanlega í formi einhverra mjög lágra upphæða á hvern eldsneytislítra og flotinn og vinnuvélar og aðrir slíkir aðilar kæmu væntanlega þar einnig inn í.

Auðvitað eru líka annmarkar á því eins og hér var bent á af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. Menn geta vissulega keypt sér eldsneyti á skipin annars staðar og þetta er vandamál sem er vel þekkt í umræðum um þessi mál í nágrannalöndunum þegar annars vegar er rætt um mengunarskatta og hins vegar t.d. sameiginlegan orkumarkað þar sem reynt yrði að ívilna notkun á umhverfisvænni orku en skattleggja notkun á orkugjöfum sem byggja á brennslu lífræns eldsneytis. Þá er mjög gjarnan bent á að slíkt sé í raun og veru illgerlegt, t.d. á meginlandi Evrópu eða á Norðurlöndunum þar sem orkumarkaðurinn er orðinn sameiginlegur ef menn eiga þann kost að flytja sig til og færa sig frá þeim löndum sem væru að reyna að framfylgja svona stefnu til hinna þar sem engir kolefnisskattar væru við lýði og ekki gerður greinarmunur á því hver væri uppruni orkunnar sem menn væru að nýta. Að því leyti má segja að íslenski flotinn sé sambærilegur við t.d. orkumarkaðinn á Norðurlöndunum og auðvitað væri æskilegast að víðtækt samkomulag þjóða væri um að taka upp slíka umhverfisvæna stefnu.

Þetta mál snýr líka að hverju landi fyrir sig. Skuldbindingarnar samkvæmt Kyoto-bókuninni snúa að hverju landi fyrir sig og ljóst er að eins og málin standa í dag munu löndin grípa til ýmiss konar ráðstafana til að draga úr notkun kolefniseldsneytis og þó að því fylgi einhverjir annmarkar af þessu tagi þá verður bara að hafa það. Við eigum eftir að sjá hvað menn gera hér í nágrannalöndunum og það gæti einmitt orðið þróun af þessu tagi sem við sæjum koma þar að lagðir yrðu skattar á kolefniseldsneytið en öðrum orkugjöfum ívilnað. Þá ætti ekki að vera nein ástæða að óttast það þó að við værum að huga að slíkum breytingum að lentum í því að vera með endilega hærra eldsneytisverð en aðrir.

Staðreyndin er sú að umræðan hér á Íslandi er langt á eftir því sem er í Evrópu þar sem mjög víða er verið að ræða um hækkanir og alveg upp í stórfelldar hækkanir á orku, sérstaklega kolefnisorkugjöfunum. Ég minni t.d. á umræðu í tengslum við þýsku kosningarnar og norsku kosningarnar í þessu sambandi þar sem hugmyndir frá svona einhverjum hækkunum, sem nánast allir tóku undir eða voru með og upp í stórfelldar hækkanir.

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að blanda mér aðeins í þá umræðu sem hófst um þennan þátt málsins en út af fyrir sig verður meiri hlutinn að ráða því ef hann vill og treystir sér til að ganga frá málinu eins og hér er lagt til. Mér sýnist að nokkuð ljóst að menn eru þá að loka málinu þannig að það stenst ekki þau yfirlýstu pólitísku markmið sem menn hafa þó sjálfir sett sér, sem sagt þau að þetta valdi t.d. ekki íþyngingu á skattheimtunni á lengstu akstursleiðunum og þar með ekki þeirri hættu að hleypa enn upp vöruverði og gera lífskjör lakari í þeim byggðarlögum sem háð eru flutningum á landi um öll aðföng sín. Því miður er ekki komin á sú útfærsla í þessu máli að þetta markmið sé uppfyllt.