Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:04:51 (7413)

1998-06-04 10:04:51# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er afskaplega stórt mál sem hér er tekið til umræðu --- reyndar byrjaði umræðan í gær --- og frekar dapurt að við séum komin að lokum þingsins og eins þýðingarmikið mál og það sem hér er til umræðu er óútkljáð. Ég tek heils hugar undir ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan og geri það þó að hann hafi líka hamast við að segja að hann tæki undir ræðu Steingríms J. Sigfússonar. Það sýnir bara að viðhorf okkar í stjórnarandstöðunni í þessu máli er allt annað en stjórnarliðanna.

Hv. 9. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, nefndi að það væri jákvætt að fjmrh. hefði sett það í hendur þingsins að velja á milli kosta. Ég get tekið undir það. Auðvitað er það jákvætt þegar menn sjá fyrir sér nokkrar ólíkar leiðir að sama marki að setja það í hendur þingsins að komast að niðurstöðu. En fyrst og fremst er það jákvætt ef fyrir liggur að það eigi að reyna að ná breiðri samstöðu um framkvæmd málsins.

Fjmrh. var ekki að setja þetta mál í hendur þingsins, að velja á milli kosta, til þess að tryggja samstöðu um málið og að menn næðu sameiginlegri niðurstöðu, sem væri best frá mörgum sjónarhornum. Þá er ég að tala um frá sjónarhorni neytandans, frá mengunarsjónarhorni og þá væntanlega líka hvernig það mál yrði leyst frá sjónarhóli ríkisins og ríkiskassans.

Það er ekki svo. Málið er sett inn í efh.- og viðskn. og þar gerist það að meiri hlutinn fer sína leið. Meiri hlutinn fer sína leið nákvæmlega á sama hátt og þegar stjórnarmeirihlutinn er að setja inn mál sem hann kærir sig ekkert um að hafa samráð um og ætlar að keyra í gegn á eigin forsendum. Þess vegna finnst mér sú góða hugmynd að láta þingið velja á milli ólíkra kosta og komast að niðurstöðu verða að engu. Hún verður að engu þegar framkvæmdin er slík sem hér liggur fyrir.

Ég tek undir að mér finnst það mjög alvarlegt að það eigi að knýja svona umdeilt mál í gegnum þingið. Um þetta hefur verið spurt aftur og aftur alveg frá því að málið kom fyrst inn í þingið og fór í sína fyrstu frestun í efh.- og viðskn. Fólk hefur trúað því að þrátt fyrir þessa fresti sé það vilji Alþingis að gera þær breytingar að taka upp gjald á olíuna. Það hefur ráðið því hvernig fólk hefur farið með dísilbíla sína og stutt síðan ég heyrði hörkugagnrýni á þingið fyrir það ef það eigi svo núna að falla frá áformum sem fólk hefur verið sannfært um að Alþingi ætli að taka ákvörðun um þó svo að það hafi dregist. Fyrir utan annað er þetta veruleg vanvirða við þá einstaklinga sem hafa m.a. af mengunarsjónarmiðum valið að kaupa sér bíla með dísilvélum og verið að líta til framtíðar eins og að sjálfsögðu á að gera af hálfu allra þeirra sem eru með mengunarmál í farteskinu og vilja breyta til batnaðar í mengunarmálum hér á landi. Þess vegna legg ég, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem talaði hér af hálfu jafnaðarmanna, mikla áherslu á umhverfissjónarmiðið í þessu máli.

En ég ætla líka að nefna annað af því að hér hefur verið spurt: Á að knýja þetta umdeilda mál í gegn á næstsíðasta degi þingsins? Hverjir eru það sem fyrst og fremst hafa lagst gegn þessu máli? Af öllum umsagnaraðilum, sem voru samkvæmt nál. mjög jákvæðir, eru það fyrst og fremst olíufélögin sem leggjast gegn því að þessi breyting sé gerð og Vinnuveitendasamband Íslands.

Aftur og aftur komum við að því hverra hagsmuna ríkisstjórnin gætir. Þá gildir einu hvort frv. hefur verið sent inn í þingið eða valkostir hafa verið afhentir efh.- og viðskn. þegar það er ljóst að ríkjandi meiri hluti gætir hagsmuna þessara útvöldu aftur og aftur, sömu aðilarnir sem ráða hér.

Áðan var líka spurt hvort þetta mál, úr því að það væri ágreiningur í nefndinni, þyrfti ekki að fara aftur til nefndar. Ég spyr að því, ég tek undir þá spurningu, þegar efh.- og viðskn. flytur þetta frv. og dengir því í hausinn á þingmönnum sem hafa haldið að ákvörðunin væri tekin um olíugjaldið og það eru í raun og veru þrjú nál. í þessu frv., afstaða tveggja minni hluta fyrir utan meiri hlutann, þá hlýtur það að vera að eftir umræðu í þinginu þurfi málið að fara til nefndar. Það er mér a.m.k. mikið umhugsunarefni vegna þess að síðla kvölds í gærkvöld tók ég þátt í því með forsetum þingsins og þingflokksformönnum að ræða tillögu sem kemur á dagskrá á morgun. Ég vissi ekki betur en að það þætti mjög óviðunandi að sú tillaga yrði fullafgreidd af því að hún þyrfti að fara til umfjöllunar nefndar og þó erum við bara þar að tala um afgreiðslu á máli með atkvæðagreiðslu sem meiri hlutinn að sjálfsögðu, eins og aftur og aftur hefur komið hér fram, hefur vald á. Ég legg áherslu á það við forseta, ég tel að þetta mál hljóti að þurfa að fara aftur til efh.- og viðskn. fyrir utan að ég gagnrýni harðlega að málið skuli koma svo seint frá nefnd.

Formaður nefndarinnar taldi hins vegar að efh.- og viðskn. væri búin að fjalla svo mikið um þetta mál að algjör óþarfi væri að fresta því, menn væru bara tilbúnir að taka ákvörðun sína. Allt of lítill tími hefur hins vegar gefist til að skoða afleiðingar af breytingum eins og þeim, sem meiri hlutinn leggur nú til, fyrir einstaka aðila.

Þetta er dálítið mikilvægt, herra forseti, og umhugsunarefni fyrir formann nefndarinnar. Vel má vera að nefndin sé búin að hafa það lengi á borðum sínum, a.m.k. hefur hún frestað því ár eftir ár að það frv. sem kom hingað inn í þingið væri afgreitt og gert að lögum. En ef það er afstaða svo öflugs þingmanns eins og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem er mjög samviskusamur og eins og ég þekki mjög vel til tekur hann öflugan þátt í nefndarstarfi, að segi hann að lítill tími hafi gefist til að skoða afleiðingarnar af þeim breytingum sem tillaga meiri hlutans er um þá trúi ég því. Það er þetta sem hefur gerst aftur og aftur á Alþingi Íslendinga varðandi skattbreytingar almennt. Komið er inn með skattbreytingar á viðkvæmum tíma, mjög oft í desember, í tengslum við fjárlagafrv., í tengslum við þunga umræðu um fjárlög og ríkisfjárlög, og afleiðingar skattbreytinga hafa oft reynst allt aðrar en þau dæmi hafa sýnt sem lögð hafa verið fram með viðkomandi frv. Þegar bent er á að það skorti á að skoða afleiðingar af breytingunum þá legg ég það til, herra forseti, að þær afleiðingar verði skoðaðar nánar áður en það frv. verður afgreitt sem meiri hluti efh.- og viðskn. flytur.

Ég sat hér og hlustaði á til að átta mig á um hvað þetta mál og ágreiningurinn um það snerist fyrst og fremst og hlustaði á formann nefndarinnar til að skilja hvað það hefði verið sem fékk meiri hlutann til að víkja frá ákvörðun um olíugjald og hann lagði mikla áherslu á flotann. Ég óska eftir því, herra forseti, að formaður nefndarinnar komi upp --- af því að þetta mál hlýtur að vera svo mikið unnið og faglega unnið --- og upplýsi okkur, sem eigum ekki sæti í efh.- og viðskn., um það hvernig þau lönd sem hafa tekið ákvörðun um olíugjald hafa leyst það gagnvart flotanum. Það er mjög mikilvægt fyrst þetta er notað sem rök gegn upptöku olíugjaldsins að þá séum við upplýst um hvernig nágrannalönd okkar sem farið þessa leið fyrir löngu hafa leyst það mál gagnvart flotanum. Við eigum heimtingu á að fá þær upplýsingar.

[10:15]

Herra forseti. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi eru umhverfissjónarmið auðvitað stærstu rökin með breytingunni þótt margt fleira sé nefnt í afstöðu beggja minni hlutanna. Langstærsta málið er umhverfismál og það þýðir lítið fyrir ríkisstjórnina að koma og bjóða upp á afslætti á orkugjöfum hjá öðrum tegundum bifreiða eins og rafmagnsbifreiða meðan þær eru varla fyrir hendi með umhverfissjónarmið að leiðarljósi, meðan það liggur svo fyrir að enginn vilji er til að taka á stærsta málinu sem eru bensínbílarnir því að þessi afgreiðsla verður ekki til þess að fólk fari í ríkum mæli að flytja sig frá bensínbílum og yfir á dísilbíla, það er alveg ljóst. Því tek ég undir að umhverfissjónarmiðið er langmikilvægasti þátturinn. Mér finnst líka slæmt að við skulum taka þátt í alþjóðasamningum, undirgangast alþjóðasamninga, a.m.k. stefnir allt í það, eins og samninginn í Kyoto og svo gerist það þegar heim er komið og á að fara að framkvæma og setja lög, að ekkert samhengi er í hlutunum. Ekki er nóg að sýna góðan vilja því að þegar svo kemur til framkvæmda og hægt er að taka verulega á þá er það ekki gert.

Herra forseti. Ég hvet til þess að formaður nefndarinnar skýri fyrir okkur sem erum að taka þátt í umræðunni hvernig þetta hefur leyst með flotann í nágrannalöndum okkar sem hafa gert þá breytingu sem upphaflega frv. kvað á um.