Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:20:42 (7416)

1998-06-04 10:20:42# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eitt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þegar hann reifaði frv. í gær var að hann var alls ekki viss um til fullnustu hvaða áhrif þær breytingar, sem lagðar eru til í frv., hefðu á þá sem stunda atvinnuakstur á löngum leiðum. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé mjög erfitt að samþykkja málið þegar svo er í pottinn búið. Ég held að þessar breytingar séu sérstaklega íþyngjandi gagnvart þeim sem stunda flutninga til fjarlægustu landshlutanna frá Reykjavík. Ef þær eru íþyngjandi, herra forseti, þá þýðir það að þetta muni auka kostnað þeirra. Hver á að bera þann kostnað? Getur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson svarað því hver á að bera kostnaðinn? Ég get sagt honum hver mun bera kostnaðinn. Að sjálfsögðu mun kostnaðurinn fara út í vöruverðið og þetta mun leiða til þess að vöruverð mun hækka á þessum stöðum á landinu. Þess vegna er dálítið sárt að sjá í hópi þeirra sem flytja þetta frv. menn sem hafa einmitt gert út á það, lagt sig fram um að reyna að draga úr þeim mun sem er á aðstöðu þeirra sem búa fjærst Reykjavík og hins vegar þeirra sem búa í Reykjavík. Ég held að hægt sé að færa talsvert sterk rök fyrir því að frv., ef að lögum verður, muni leiða til þess að vöruverð í þessum fjarlægu hlutum landsins kunni að hækka. Ég orða það svona, herra forseti, það kunni að hækka. Þetta er auðvitað eitt af því sem þarf að kanna og rannsaka áður en menn leggjast í svona ferðalag.

Þegar við ræðum þetta frv. eru uppi tvenns konar rök. Eiga menn að taka fullt tillit til umhverfissjónarmiða og taka upp olíugjaldið eða eiga menn að fara þá fjallabaksleið sem hv. þm. meiri hlutans í nefndinni leggja til? Hvað segir hæstv. fjmrh. í málinu? Hver er skoðun hans? Ég spyr vegna þess að innan fjmrn. er að verki nefnd sem er að kanna möguleika til að færa skattlagningu í ríkari mæli út í umhverfisskattlagningu. Raunar má segja að fjmrn. hafi svarað fyrir sig vegna þess að hugmyndir sem komu þaðan voru þær að það ætti að fara olíugjaldsleiðina en nefndin hverfur frá því. Þar má segja að framkvæmdarvaldið sé talsvert framar þinginu í þessu mikilvæga efni. Mér finnst það miður, herra forseti, og ég vil ekki hrósa fjmrn. neitt sérstaklega fyrir að hafa lagt sig fram um að fylgjast með því sem er að gerast varðandi umhverfisskatta í nágrannalöndunum en það er alveg ljóst að nefndin hefur ekki fylgst með þessu máli í jafnríkum mæli og framkvæmdarvaldið.

Ég réð það af máli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að hann teldi að það væri svo að í okkar næstu löndum væru menn ekki að fara þessar leiðir. Ég veit hins vegar að úti í Evrópu eru menn að herða reglur um útblástur, um hávaðamengun, um notkun eldsneytis af jarðefnistoga og það var mat Samtaka iðnaðarins að ákjósanlegt væri að taka upp olíugjald til að hefja aðlögun íslenska atvinnubifreiðaflotans að þessum breytingum. Ég veit að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson fylgist vel með því sem gerist á vettvangi Evrópusambandsins og þar liggja fyrir tillögur um þetta. Með öðrum orðum hefði verið mjög heppilegt að nota þetta tækifæri til að laga íslenska markaðinn að þessum breytingum.

Hv. þm. hefur fært rök fyrir því, m.a. í því áliti sem liggur fyrir í frv., að ekki hafi svarað kostnaði að taka upp það tvöfalda kerfi sem sumir, m.a. Landssamband flutningabifreiðastjóra, hafa lagt til, þ.e. að hafa annars vegar olíugjald og hins vegar kílómetragjald. Ef það er dómur hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og félaga hans í meiri hlutanum að svo sé, velti ég því fyrir mér hvernig þeir komust að þessari niðurstöðu. Þeir hljóta náttúrlega að hafa farið og talað við þá sem málið varðar, talað við bílstjórana og þá sem halda úti þessum flota. En hver er niðurstaða þeirra? Þeir töldu að það væri heppilegt að fara þá leið sem hann, hv. þm. taldi að væri ekki. Hann taldi að það væri ekki kostnaðarins virði en þeir töldu það hins vegar. Þeir voru reiðubúnir að taka á sig þann kostnað til að nota tækifærið að taka upp þetta kerfi. Hv. þm. rekur upp tiltölulega lágværan hlátur en þó heyrist hláturskjöltið alla leið hingað upp í ræðustól og þess vegna langar mig bara til þess að reka ekki hláturinn en a.m.k. andmæli hans ofan í hv. þm. með því að lesa úr blaði sem Samtök iðnaðarins gefa út. Þar segir:

,,Ákvörðun nefndarinnar er sérstök fyrir þær sakir að hagsmunafélag þeirra sem greiða þungaskatt og hefðu átt að greiða olíugjald vegna atvinnurekstrar voru fylgjandi upptöku olíugjalds`` --- og nú bið ég hv. þm. að hlusta --- ,,og reiðubúin að láta yfir sig ganga óhagræði vegna tvöfalds kerfis.`` En í þessu blaði kemur líka fram hvaða hagsmuni er verið að verja. Það er sagt bókstaflega í þessu blaði Samtaka iðnaðarins að þeir sem hafi mestan hag af því að hafa kerfið svona eru olíufélögin. Ávinningur þeirra felst í því að selja sem mesta olíu og þess vegna voru þau eðlilega á móti upptöku olíugjalds sem að dómi Samtaka iðnaðarins hefði leitt til olíusparnaðar. Þá velti ég auðvitað fyrir mér, herra forseti, á hvaða rökum byggir meiri hlutinn niðurstöðu sína? Það liggur fyrir að það er gert í andstöðu við vilja sérfræðinga fjmrn. og það liggur fyrir að það er gert í andstöðu við vilja greinarinnar. Það liggur fyrir í þriðja lagi að það er gert í andstöðu við Samtök iðnaðarins. Þá spyr ég: Í hvaða veröld lifir þessi hv. þm.? Býr hann bara svona til í huga sínum? Eða eins og hann sagði í ræðu sinni áðan það þurfti að ná ákvörðun, það þurfti að ná einhverri niðurstöðu og þá kastar hann bara einhverju á borðið og það sem út úr því kemur er það sem lagt er fyrir þingið þótt alveg ljóst sé að hv. þm. veit ekki um niðurstöðuþunga mjög mikilvægra hluta í þessu frv. Hann veit ekkert hvaða áhrif þetta hefur t.d. á vöruverð í því kjördæmi sem hann er enn fulltrúi fyrir.