Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:27:43 (7417)

1998-06-04 10:27:43# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:27]

Frsm. meiri hluta (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að upplýsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson um það að með olíugjaldinu og þeirri leið sem frv. sem lagt var fram boðaði hefði kostnaður þeirra sem aka á löngum flutningaleiðum aukist mjög verulega frá því kerfi sem er í dag og hækkað vöruverð úti á landsbyggðinni miklum mun meira en menn geta þó kannski hugsanlega reiknað með í kjölfarið á því frv. sem nú liggur fyrir. Ástæðan er einfaldlega sú að með olíugjaldinu eins og það var lagt fram hefði sá kostnaður komið að sjálfsögðu af fullum þunga á þá sem nota olíuna og keyra á þessum lengri leiðum.

Hitt sjónarmiðið er að sjálfsögðu það að huga þarf að því hver kostnaður þjóðfélagsins er við að innheimta skatta og vegna þess að með olíugjaldinu plús kílómetragjaldi var í rauninni ekki verið að spara neinn kostnað heldur einungis að bæta við 150 millj. í árlegum kostnaði við að innheimta þessa skattpeninga. Ég tel að það vegi mjög þungt, alveg óháð því hvort olíufélög selja olíu eða eitthvað annað að þjóðfélagið í heild, greiðendur skatta, eiga að sjálfsögðu ekki að þurfa að taka á sig gífurlegan kostnað til að greiða skattana. Ég tel að til að innheimta yfir 3 milljarða sé ekki gott að þjóðfélagið greiði 150 millj. aukalega til að ná í slíka peninga ef það þarf ekki á því að halda.