Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:31:19 (7419)

1998-06-04 10:31:19# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:31]

Frsm. meiri hluta (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom oft fram í viðtölum við hagsmunaaðila sem áttu að greiða olíugjaldið að þeir reiknuðu kannski ekki með því að kostnaðurinn af því að taka upp gjaldið félli eingöngu á þá heldur líka á þá aðila sem áttu ekki að greiða olíugjaldið, þ.e. að kostnaðurinn mundi dreifast með einhverjum hætti á alla kaupendur olíu. Þess vegna má kannski segja að þeir hafi ekki verið reiðubúnir til að taka á sig allan kostnaðinn sem þessu fylgir, þessar 150 milljónir.

Varðandi þá þróun sem er að verða í Evrópu og um allan heim að herða reglur um útblástur og gera strangari kröfur varðandi mengun er það einmitt mál sem efh.- og viðskn. hefur látið sig miklu varða. Það var þannig fyrir u.þ.b. tveimur árum að mikil vörugjöld voru á atvinnubifreiðar. En nefndin hefur á undanförnum missirum verið að feta sig í að fella niður vörugjöld á fjárfestingunni, á atvinnubifreiðar, til þess að stuðla að því að atvinnulífið fjárfesti í nýrri tækjum sem væru þá vonandi með minni mengunarvandamál en þau tæki sem fyrir eru. Þetta hefur verið mjög ákveðin leið sem hefur verið samstaða um í efh.- og viðskn. að fara.