Gjald af áfengi

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:46:05 (7428)

1998-06-04 10:46:05# 122. lþ. 144.22 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv. 93/1998, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:46]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efh.- og viðskn. og breytingartillögu um gjald af áfengi. Nefndin fjallaði um þetta mál og sendi nokkrum aðilum til umsagnar.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um gjald af áfengi að áfengi verði flokkað í þrjá meginflokka við ákvörðun áfengisgjalds, þ.e. í fyrsta lagi öl, í öðru lagi vín og í þriðja lagi annað áfengi. Það var nokkur umræða í nefndinni um svokallað áfengisgos og hvernig með það ætti að fara. Breytingartillögur nefndarinnar hafa gengið út á að flokka það frá þannig að skattlagning á áfengisgosi væri í samræmi við skattlagningu á áfenginu sjálfu.

Það eru tvær breytingartillögur sem ég mæli fyrir. Það er í fyrsta lagi að í nefndarálitinu á þskj. 1283 er gerð svohljóðandi breytingartillaga við 2. gr., hæstv. forseti:

,,Í stað orðanna ,,og öðrum gerjuðum drykkjarvörum sem flokkast undir vöruliði 2204, 2205 og 2206 og eru`` í 2. tölul. 1. efnismgr. komi: sem flokkast undir vöruliði 2204 og 2205 og er.``

Þetta á við þennan flokk 2206, það er verið að flytja hann til en síðan kom í ljós að í þessum flokki, 2206, eru auk áfengisgossins svokallaðir síderar sem falla eðli málsins samkvæmt undir sams konar tegund og vín almennt. Þetta eru eplavín og peruvín og algjörlega brugguð og gerjuð en ekki blönduð með neinu gosi og því er lögð fram breytingartillaga við þessa breytingartillögu sem var áður komin fram á þskj. 1283.

Enn fremur eru tvær breytingartillögur til viðbótar á þskj. 1507. Þar er smávægileg snyrting í lögunum sjálfum og hins vegar er gildistökuákvæði, breytingartillaga út af því.