Gjald af áfengi

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 11:05:17 (7431)

1998-06-04 11:05:17# 122. lþ. 144.22 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv. 93/1998, SighB
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[11:05]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir þau orð sem féllu áðan hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um mjög aukna unglingadrykkju á Íslandi en bæta því við að eftir þeim upplýsingum sem ég hef og sjálfsagt margir fleiri þingmenn er stór hluti af þeirri drykkju sem unglingar ástunda drykkja á áfengi sem er ekki keypt af Áfengisverslun ríkisins heldur framleitt af öðrum aðilum sem ekki hafa til þess leyfi ellegar smyglað til landsins. Ég vildi því gjarnan spyrja hæstv. ráðherra --- og sakna þess nú að hæstv. dómsmrh. er ekki hér því að það heyrir frekar undir hann --- hvort ráðherra hafi einhverja vitneskju um eða eitthvert mat á því hvort um sé að ræða umtalsverða aukningu á málum er tengjast ólöglegri framleiðslu áfengis í landinu, þ.e. bruggi, og ef ekki hvort hæstv. ráðherra væri ekki reiðubúinn til þess að beita sér fyrir því að það yrði kannað, m.a. með viðtölum við unglinga, að hve miklu leyti þessi stóraukna neysla unglinga á áfengum drykkjum er þannig til komin. Að það séu aðilar sem geri sér það bókstaflega að atvinnu að selja unglingum undir lögaldri ólöglega framleitt áfengi og hvort það sé þá ekki full ástæða til þess að taka harðar á þeim málum en gert hefur verið.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég hef þær fregnir eins og sjálfsagt margir aðrir að þetta hafi farið mjög í vöxt á síðustu árum.