Gjald af áfengi

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 11:09:18 (7433)

1998-06-04 11:09:18# 122. lþ. 144.22 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv. 93/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[11:09]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessar góðu undirtektir við ósk minni um það að látin verði fara fram könnun á því hvort framleiðsla og sala ólögmætra áfengra drykkja á Íslandi hafi vaxið til samræmis við vaxandi unglingadrykkju. Full ástæða er til þess að það sé athugað vegna þess að þær upplýsingar t.d. sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti um aukningu á drykkju unglinga stemma ekki saman við sölutölur frá Áfengisverslun ríkisins. Skýringin hlýtur því að liggja í því að þessi mikla unglingadrykkja sé öðruvísi til komin en sölutölur Áfengisverslunar ríkisins gætu gefið til kynna einar og sér.

Ég vil því þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar undirtektir og ítreka ósk mína við hann að hann beiti sér nú fyrir því að eiga um þetta samstarf við dómsmrh. því að ég held að þrátt fyrir verðhækkun á áfengi sem orðið hefur undanfarin ár sé áfengi miðað við unna vinnustund eða réttara sagt kaup fyrir unna vinnustund ekki miklu dýrara í dag en það var á árum áður. Þá var lítið sem ekkert bruggað hér á landi, a.m.k. ekki meira en nokkurn veginn til eigin þarfa viðkomandi og allra nánustu. Nú held ég að því miður sé þetta orðinn allstór iðnaður, og menn séu farnir að stunda þetta bókstaflega í atvinnu- og gróðaskyni og það er nýtt ef svo er í miklum mæli.