Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 11:40:07 (7437)

1998-06-04 11:40:07# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[11:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er tekið til 2. umr. frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem er raunverulega hin hliðin á frv. félmrh. sem fól í sér að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið. Sú mikilvæga breyting sem þar kom fram og við höfum gagnrýnt mjög er að stefnt er að því með því frv. sem nú er orðið að lögum að hætta niðurgreiðslu á vöxtum í gegnum byggingarsjóðina en þess í stað á niðurgreiðslan að koma í gegnum vaxtabótakerfið. Í þeim umræðum sem fram fóru um frv. félmrh. var nokkrum sinnum kallað eftir hæstv. fjmrh. til þeirrar umræðu, ekki síst þar sem svo mikilvæg hlið á þessu máli snýr að fjmrn. og vaxtabótum og raunar leiguíbúðum líka og hve mikið fjármagn fer til þeirra en hæstv. fjmrh. var ekki við þá umræðu þannig að ég hlýt að taka aðeins tíma þegar tækifæri gefst og fjmrh. er við umræðuna að ræða þetta mál í nokkuð víðu samhengi þótt ég ætli mér ekki að taka langan tíma til þess.

Ég vil fyrst segja varðandi þetta frv. að það á að taka á upp samtímagreiðslur í vaxtabótum sem er auðvitað gott út af fyrir sig en frv. er þess eðlis að þessar samtímagreiðslur vaxtabóta ná ekki til eldri lána heldur til þeirra lána sem eru tekin eftir að ný húsnæðislöggjöf tekur gildi um næstu áramót. Ég held það sé afar óheppilegt og raunverulega spyr maður að því hvort það standist jafnræðisregluna að hafa mál skipuð með þeim hætti varðandi vaxtabætur að einn hópurinn fær vaxtabætur greiddar eftir á, allt upp í einu og hálfu ári síðar, þ.e. þeir sem hafa tekið húsbréfalán fyrir næstu áramót, en þeir sem taka húsbréfalán eftir næstu áramót fá samtímagreiðslur í vaxtabótum. Þetta tel ég afar óheppilegt fyrirkomulag og óeðlilegt að hafa svona.

En ég vil þá spyrja ráðherrann varðandi þennan þátt málsins hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þegar þeir sem eru í íbúðarhugleiðingum og ætla að festa kaup á íbúð á næstu mánuðum og það sem eftir lifir fram til áramóta uppgötva að ef þeir gera kaup sín á þessu ári fái þeir vaxtabætur með gamla laginu, þ.e. greiddar allt upp í einu og hálfu ári á eftir, en ef þeir bíða með kaup sín til áramóta þegar ný löggjöf tekur gildi fá þeir vaxtabæturnar raunverulega samtímis. Ég spyr ráðherrann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að fólk fari að fresta íbúðakaupum þegar fólk uppgötvar þetta því það er mikið hagræði í því, mikill sparnaður fyrir fólk ef það fær vaxtabæturnar greiddar samtímis og ef fólk fer í miklum mæli að fresta sínum íbúðakaupum til áramóta, og hvort ráðherrann hafi þá ekki áhyggjur af því að það muni verða mikil útgáfa á húsbréfum eftir næstu áramót sem geti þá leitt til aukinna affalla á húsbréfum. Það er þessi þáttur auk þess sem það er að koma inn nýr kaupendahópur sem hefur fengið aðstoð sína í gegnum félagslega kerfið og er nú vísað á húsbréfamarkaðinn þannig að þar er að bætast við nýr kaupendahópur sem þýðir aukna útgáfu á húsbréfum. Því til viðbótar er þessi hætta fyrir hendi sem ég nefndi að þetta kalli á mikla útgáfu á húsbréfum eftir áramótin.

[11:45]

Þetta held ég að sé mjög mikilvægt vegna þess að verulegur sparnaður er fólginn í því fyrir fólk að fá vaxtabæturnar samtímis.

Síðan vil ég spyrja ráðherrann að því, af því að húsaleigubætur fara að skipta miklu máli fyrir það fólk sem vísað er á leigumarkaðinn, hvort hann telji ekki óréttlátt að þeir sem fá húsaleigubætur þurfa að borga skatt af þeim en þeir sem fá fyrirgreiðslu og aðstoð í húsnæðismálum í gegnum vaxtabótakerfið borga ekki skatt af vaxtabótum. Að því er húsaleigubæturnar varðar erum við að ræða um þann hóp sem verst er settur í þjóðfélaginu. Hann á að borga skattinn af húsaleigubótunum en hinir sem eru betur settir og eru í húsbréfakerfinu þurfa ekki að borga skatt af vaxtabótunum. Ég tala ekki um ef svo fer að leiga hjá sveitarfélögunum verði hækkuð upp í kostnaðarleigu og fólk þurfi þá að bera niðurgreiðsluna gegnum húsaleigubætur sem það hefur áður fengið í gegnum niðurgreidda húsaleigu hjá sveitarfélögunum. Ég held að þetta æpi enn meira á fólk þegar nýja kerfið kemst í gagnið að húsaleigubætur að því er varðar skattlagningu séu með öðrum hætti en vaxtabætur. Auðvitað er mikið óréttlæti í því fólgið að það skuli vera verst setti hópurinn sem lendir í skattlagningu að því er varðar niðurgreiðslu á húsnæðisaðstoð.

Því vil ég spyrja um afstöðu nýs fjmrh. til þessa. Hæstv. fyrrv. fjmrh. taldi rétt að skattleggja húsaleigubætur. Ég hef þó aldrei fengið nein skynsamleg rök fyrir því eða eðlileg rök sem hann hefur getað teflt fram í því máli og því er auðvitað nauðsynlegt í þessari umræðu að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um stimpilgjöld. Nú er það svo að í nýrri húsnæðislöggjöf eru stimpilgjöld felld niður af viðbótarláni en ekki af húsbréfalánum sem þýðir að greidd eru stimpilgjöld af þessum húsbréfalánum sem þýðir kannski aukinn kostnað af meðalláni u.þ.b. 60 þús. kr. sem fólk sem hefur ekki þurft að greiða stimpilgjöld í félagslega kerfinu fer nú að taka á sig. Ég spyr vegna þess að hæstv. félmrh. hélt því margsinnis fram við umræðuna að það væri samkomulag milli fjmrh. og félmrh. að fólk mundi ekki taka á sig aukinn kostnað við það að komast inn í þetta nýja kerfi. En það er að taka á sig aukinn kostnað, nema séð verði fyrir því með öðrum hætti, ef það á að fara að greiða núna stimpilgjald af húsbréfum. Ég spyr um þetta samkomulag sem hæstv. félmrh. hélt fram að hefði verið gert milli hans og fjmrh. um að fólk yrði jafnsett eftir sem áður að því er varðar kostnað við að komast inn í kerfið.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því það skiptir verulegu máli í öllu þessu samhengi þegar verið er að flytja niðurgreiðsluna inn í vaxtabótakerfið sem hér er til umræðu, að við ræddum það mjög mikið, þegar frv. félmrh. var til umræðu, hvað yrði um þann stóra hóp sem fær nú fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu en mun ekki fá inni í nýju húsnæðislánakerfi. Við höfum sýnt fram á að það eru þegar 1.000--1.500 manns eða fjölskyldur réttara sagt um allt land, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík, á biðlista eftir leiguíbúðum. Nú bætist í þann hóp mikill fjöldi sem hefur fengið aðstoð í gegnum félagslega kerfið en það eru um 1.000 fjölskyldur á hverju ári sem hafa fengið fyrirgreiðslu í gegnum félagslega íbúðakerfið. Ég hef haldið því fram að miðað við að sama greiðslumat væri notað í húsbréfakerfinu gagnvart þessum nýja hópi sem þar kemur inn í kerfið og þeim sem fyrir er, þ.e. 18%, að þá væru um 600 manns sem fengju ekki fyrirgreiðslu í þessu nýja kerfi og þá er ekkert eftir fyrir það fólk annað en leigumarkaðurinn.

Það hefur verið kjarnaspurning í gegnum alla þá umræðu sem fram fór um húsnæðisfrv. félmrh. hvað eigi að gera fyrir þetta fólk. Þar veltur mjög mikið á hæstv. fjmrh. hvað gert verður í því máli, þ.e. hvort veitt verði nægjanlegt fjármagn á fjárlögum til að hægt sé að byggja eða kaupa allar þær leiguíbúðir sem þarf að kaupa fyrir fólkið sem fær ekki inni í nýja Íbúðalánasjóðnum.

Í frv. félmrh. kom fram það álit fjmrn. að á næstu tveimur árum væri gert ráð fyrir því að byggðar yrðu 50 íbúðir, þ.e. 25 hvort árið um sig. Mig minnir, herra forseti, og reyndar kemur það hér fram og ég er með það hérna við hliðina á mér, að gert hafi verið ráð fyrir því að núvirtar vaxtaniðurgreiðslur miðað við þann fjölda íbúða og meðallán 5,7 millj. gætu numið allt að 75 millj. kr. á ári.

Nú hefur það ákvæði sem snýr að leiguíbúðunum breyst í meðförum félmn., þ.e. að nú er talað um að fjöldi og upphæð lána skuli taka mið af framlagi ríkissjóðs á fjárlögum og áætluðum kostnaði, þ.e. fjöldi leiguíbúða á þessum tveimur árum sem gert er ráð fyrir að lánin verði með óbreyttum lánskjörum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Breytir þetta nýja ákvæði sem kemur inn í meðförum félmn. einhverju um það álit eða umsögn sem fjmrn. gaf um frv. til laga um húsnæðismál sem snýr að leiguíbúðum þar sem talað er um að veitt yrði lán til allt að 50 leiguíbúða á niðurgreiddum vöxtum á næstu tveim árum?

Mjög var kallað eftir því þegar þessi brtt. kom fram frá meiri hlutanum, hvort þetta breytti einhverju um umsögn ráðuneytisins. Ég held að mikilvægt sé að fá það fram vegna þess að hæstv. fjmrh., nýr fjmrh., hefur sagt að mikilvægt sé að skera niður útgjöldin á fjárlögum. Hæstv. forsrh. hefur talað um að það þurfi að hækka vexti, og ég vil því spyrja hvort vænta megi að þessi breyting sem gerð var í meðförum félmn. breyti einhverju um umsögn fjmrn. að því er þennan mikilvæga þátt varðar sem snýr að því fólki sem býr nú við mikið óöryggi í húsnæðismálum eftir að þessi frv. hafa verið lögfest.

Ég minni á í því sambandi, herra forseti, að við í minni hlutanum fluttum brtt. þess efnis að sú könnun sem á að fara fram á þörf fyrir leiguíbúðir, og félmrh. ætlar að setja í gang, á ekki að vera tilbúin fyrr en árið 2000. Þá á að liggja fyrir eitthvert samkomulag við verkalýðshreyfinguna um uppbyggingu leiguíbúða. En auðvitað sjá allir í hendi sér að ekki gengur að láta það fólk, sem er á biðlista núna fyrir þessa breytingu og mun fjölga mun stórlega eftir breytinguna, bíða í óvissu með húsnæðismál sín þangað til árið 2000. Brtt. okkar gekk því út á það, herra forseti, að þessi könnun lægi fyrir í haust og að í fjárlögum yrði tekið mið af þeirri könnun, þ.e. því framlagi sem yrði á fjárlögum fyrir næsta ár að því er varðar uppbyggingu leiguíbúða.

Því hef ég nú beint þeirri spurningu til ráðherra hvers megi vænta í þessu efni. Er ráðherra reiðubúinn til þess að koma fram með svör úr þessum ræðustól sem munu róa eitthvað þann fjölda fólks sem verður nú ofurseldur leigumarkaðnum? Eða ætlar hann bara, eins og hæstv. félmrh., að vísa til þess að menn verði bara að bíða og sjá til hvað verði á fjárlögum? Eða ætlar hann að halda sér fast við það, eins og kom fram í umsögn fjmrn., að hér verði einungis um 50 leiguíbúðir að ræða? Ég held að afar mikilvægt sé að fá þetta fram.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hlýðir á mál mitt, en mér er nokkuð mikið niðri fyrir loksins þegar ég hef hæstv. fjmrh. mér við hlið til þess að spyrja hann ýmissa brýnna spurninga sem brunnu á mér við umræður um frv. félmrh. og snúa beint að fjmrh.

Eitt þeirra atriða sem ég vildi gjarnan fá svar við frá hæstv. fjmrh. snertir heimili sem eru í vanskilum með skuldir sínar og ríkisstjórnin taldi sig vera að koma með úrræði fyrir, að mig minnir á síðasta ári, sem átti að koma í staðinn fyrir frv. um greiðsluaðlögun sem framsóknarmenn höfðu haldið mjög á lofti í síðustu kosningabaráttu. Eitt þeirra frv. sem varð að lögum og átti að koma í staðinn fyrir greiðsluaðlögun snýr einmitt að hæstv. fjmrh.

Það frv., herra forseti, lýtur að breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt, og átti að auðvelda þeim einstaklingum róðurinn sem voru í miklum skuldum vegna vangoldinna opinberra gjalda. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurðist fyrir um það á þessu þingi hverju þetta nýja úrræði hefði skilað, sem er þess efnis að telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslukröfur sem ella mundu tapast með samningum um greiðslu skal hann gefa fjmrh. skýrslu um málavöxtu og fjmrh. er heimilt að samþykkja slíkan samning að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

Það sem kom í ljós í svari hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur var það að ekki einn einasti einstaklingur sem leitað hafði eftir þessari aðstoð, ekki einn hafði fengið fyrirgreiðslu samkvæmt þessu nýja úrræði um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Því er spurning mín til hæstv. fjmrh. sú: Er hann, í ljósi þess að ekki einn einasti aðili hefur fengið fyrirgreiðslu samkvæmt þessum lögum sem áttu að hjálpa skuldugum heimilum, reiðubúinn að endurskoða þau lög þannig að þau verði raunverulegt úrræði fyrir þá sem eru í vanskilum?

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvað hefur breyst frá því að hæstv. ráðherra var þingmaður í stjórnarandstöðu fyrir nokkrum árum þegar hann beitti sér mjög hart fyrir því að komið yrði á 100% láni fyrir þá sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Hæstv. ráðherra var forgöngumaður um það þegar hann var þingmaður, nú beitir hann sér fyrir því að þetta verði lagt af þegar hann fer að halda utan um ríkiskassann.

[12:00]

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar í viðbót áður en ég kem að vaxtabótunum sjálfum, sem verður lokakafli minn í þessari ræðu, og hún snýr líka að húsaleigubótakerfinu. Gerður var samningur við Samband sveitarfélaga eða sveitarfélögin, að mig minnir fyrir síðustu áramót. Hann laut að því að húsaleigubætur færu nú til sveitarfélaganna og uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga varð með þeim hætti að ríkið greiddi til sveitarfélaganna 280 millj. kr. Í skýrslu sem fylgdi þessari niðurstöðu kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Þá er ítrekað að allar tillögur um breytingar á húsaleigubótakerfinu frá og með áramótum 1998, sem fela muni í sér aukin útgjöld til húsaleigubóta, eru sjálfkrafa tillögur um aukin útgjöld sveitarfélaga.``

Þegar hæstv. félmrh. var spurður um það í umræðunni, þar sem fyrir liggur að veruleg aukning verður á húsaleigubótum og framlagi vegna þeirra hjá sveitarfélögunum við þessa breytingu, hvort hægt væri að taka upp þetta samkomulag þannig að ríkið greiddi meira framlag til sveitarfélaganna í húsaleigubótakerfið þá svaraði hæstv. félmrh. því svo til efnislega að það væri að sjálfsögðu hægt ef það kæmi í ljós að veruleg aukning yrði á húsaleigubótum frá því sem ráð var fyrir gert þegar gengið var frá samkomulaginu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherrann að því, herra forseti, hvort hann sé þeirrar skoðunar, eins og fram kom í skýrslunni, að öll aukin útgjöld til húsaleigubóta væru sjálfkrafa tillögur um aukin útgjöld sveitarfélaga eða hvort hann taki undir með hæstv. félmrh. að hægt sé að taka þetta samkomulag upp ef í ljós kemur að húsaleigubótaþörfin verði miklu meiri en þá var gert ráð fyrir sem er alveg bersýnilegt að verður þegar hundruð fjölskyldna þurfa nú að fara á leigumarkaðinn.

Því næst vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þá fjárhæð sem verja á til vaxtabóta og fram kemur í þessu frv. Margir hafa óttast og það kannski með réttu að þegar ríkisstjórnina vantar aura og hún sparar muni það koma niður á vaxtabótunum þannig að hæstv. fjmrh. muni þá skera niður vaxtabæturnar.

Nú telur hæstv. félmrh. sig hafa samkomulag sem lýst er í frv. félmrh. um húsnæðismál að ekki verði hróflað við þeim fjárhæðum sem fara í vaxtabótakerfið nema þá í fullkomnu samráði við hæstv. félmrh. Nú er það svo að ég hef gert samkomulag við fyrrv. hæstv. fjmrh. sem laut að húsnæðismálum og framlagi í Byggingarsjóð verkamanna. Það var skriflegt samkomulag sem gengið var frá m.a. af aðstoðarmanni þáv. fjmrh. um ákveðna upphæð í húsnæðismálin sem var skriflegt. Það samkomulag stóð ekki. Enda stöndum við frammi fyrir því í dag að framlag í byggingarsjóðina, Byggingarsjóð verkamanna, sem þá var samkomulag milli mín sem félmrh. og þáv. fjmrh. að ætti að vera 1.075 millj. er nú komið niður í 275 millj. kr. Það er því spurning, herra forseti, hvers virði það samkomulag er sem snýr að fjárhæð sem fer árlega til vaxtabóta þegar þetta samkomulag hélt ekki.

Þá er ég komin, herra forseti, að síðasta kafla ræðu minnar sem lýtur að þakinu á vaxtabótum og þeirri fullyrðingu hæstv. félmrh. að svo sé frá málum gengið að þegar breytt verður um niðurgreiðsluform, þ.e. að hætt verði niðurgreiðslu gegnum niðurgreidda vexti og fólk fari að borga fulla vexti og fái þetta endurgreitt í gegnum vaxtabótakerfið að þá verði allir jafnsettir á eftir. Þessu hefur hæstv. félmrh. haldið fram.

Þá erum við kannski komin að kjarnaatriði í því frv. sem við ræðum hér. Ég hef sýnt fram á og það hefur ekki verið hrakið --- meira að segja staðfest af fjmrn. eftir því sem fram kemur í nál. minni hlutans --- að þessi breyting á niðurgreiðslu muni koma illa við einstaklinga og einstæða foreldra. Útreikningarnir sýna fram á það að ef við tökum einstakling getur þetta munað, sem hann er lakar settur í vaxtabótakerfinu, frá 23 þús. til 57 þús., sem þarf þá að bæta kaupendum á ári ef þeir eiga að vera eins settir eftir breytinguna og það orsakast af þakinu.

Hér er ég með einstakling. Hámarksþak á vaxtabótum að því er varðar einstakling er að mig minnir 144 þús. kr. ef ég man þá upphæð rétt. Það þarf þá að breyta því þaki ef hann á að vera jafnsettur á eftir, þ.e. að geta keypt sér íbúð sem er svipuð að gæðum og hann hefði keypt í núverandi kerfi.

Ef við tökum dæmi sem hefur verið staðfest af starfsmanni fjmrn. þyngist greiðslubyrði einstaklings með 800 þús. kr. til 1,5 millj. kr. í árstekjur, um 23--57 þús. kr. ef miðað er við íbúð sem kostar 6,3 millj. kr. Ef einstaklingur með þessar tekjur kaupir íbúð sem er dýrari en 5,5 millj. kr. er greiðslubyrði hans þyngri eftir þessa breytingu en fyrir. Við þurfum því að lyfta þakinu að því er varðar einstaklingana um allt að 57 þús. kr.

Ef við tökum eintætt foreldri með 800 þús. kr. til 1,9 millj. kr. í árstekjur, kaupir íbúð á 7,3 millj. kr., sem ég fullyrði að sé ekkert of stór íbúð, herra forseti, ef við erum að tala um einstætt foreldri með tvö eða þrjú börn, þá þyngist greiðslubyrðin um 3--63 þús. kr. á ári, og sé í þessu dæmi keypt íbúð sem kostar meira en 6,5 millj. virkar nýja kerfið íþyngjandi. Það þarf sem sagt að hækka þakið í vaxtabótunum um allt að 63 þús. kr. hjá einstæðu foreldri til þess að það sé jafnsett á eftir. Ef það verður ekki gert þarf einstætt foreldri að taka á sig allt að 63 þús. kr. sjálft sem það hefur áður fengið gegnum niðurgreiðslu á vöxtum. Það slagar upp í að vera hátt í ein mánaðarlaun, herra forseti, þannig að nauðsynlegt er að fá svar við þessu hér í umræðunni. Ekki síst vegna þess að hæstv. félmrh. hefur haldið því fram að fólk muni fá stimpilgjöldin, sem ég ræddi hér áðan, sem fólk þarf nú að taka á sig af húsbréfalánum --- sem það gerði ekki áður --- kannski upp á 60 þús. kr., að það geti fengið þau bætt í vaxtabótakerfinu. Það gefur auðvitað auga leið að ef fólk er búið að fullnýta vaxtabæturnar og komið upp í þakið --- og m.a.s. stendur eitthvað út af, eins og ég lýsti hér áðan --- allt að 63 þús. kr. sem fólk þarf að borga sjálft úr eigin vasa þá er ekki svigrúm til þess að fella útgjöld vegna stimpilgjalda inn í vaxtabæturnar og fólkið fái það endurgreitt. Því er allt sem styður það, herra forseti, að það þurfi --- ef það stendur sem hæstv. ráðherra er að segja að fólk verði jafnsett á eftir --- að hækka þakið á vaxtabótum. Annars stendur fólk uppi með miklu meiri útgjöld sem það þarf að taka á sig sjálft, fólk sem hefur fengið fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu, eftir sem áður.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því að hækka þakið á vaxtabótunum að því er varðar einstaklinga og einstæða foreldra? Það nægir mér ekki, herra forseti, ef hæstv. fjmrh. bendir á að einstaklingar og einstæðir foreldrar eigi bara að kaupa sér ódýrari íbúðir og það eigi t.d. að duga fyrir einstæða móður með þrjú börn að kaupa sér 5 millj. kr. íbúð. Útreikningar ráðherrans gera ekki ráð fyrir því að einstætt foreldri kaupi sér dýrari íbúð en 5 millj. kr. Það er alveg rétt, herra forseti, ef einstætt foreldri kaupir sér ekki dýrari íbúð en 5 millj. kr. þá er það e.t.v. jafnsett á eftir.

En ég hef látið skoða hvað þær íbúðir kosti sem einstæðir foreldrar og einstaklingar, sem helst hafa fengið fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu sem hefur nú verið lagt af, sennilega eru það um 60% þeirra sem hafa fengið fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu.

Þá kemur í ljós að samkvæmt upplýsingum húsnæðisnefndar Reykjavíkur voru umsækjendur um félagslegar íbúðir á sl. ári samtals 999. 671 fékk úthlutað, þar af 313 einstæðir foreldrum og 121 einstaklingur. Af 313 einstæðum foreldrum fengu 196 þeirra úthlutað íbúð yfir 6 millj. kr. Þegar þessir einstæðu foreldrar eru farnir að kaupa íbúðir sem kosta 5 eða 6 millj. kr. þurfa þeir að greiða meira sjálfir úr eigin vasa eftir þessa breytingu. Þarna erum við að tala um að 196 af 313 einstæðum foreldrum hafi fengið úthlutað íbúð á sl. ári --- yfir 6 millj. Nema hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að það sé bara allt í lagi, það þurfi ekkert að aðstoða einstæða foreldra kannski með 2--3 börn fyrir meira en 5 millj. kr. íbúð.

Síðan kemur hér fram að af 121 einstaklingi sem fékk úthlutað íbúð hjá húsnæðisnefnd Reykjavíkur fengu 69 úthlutað íbúð sem kostar yfir 5,5 millj. kr. Og á það er bent að tveggja herbergja 70 fermetra ný íbúð í Grafarvogi kosti um 6,5 millj. Hvar finnur hæstv. ráðherra þessar íbúðir á 5 millj. kr. sem hann vill greinilega fara að setja alla einstæða foreldra í og einstaklinga? Vegna þess að það liggur fyrir að þessir hópar þurfa að taka á sig aukinn kostnað og meiri greiðslubyrði ef þeir fara í sambærilegar íbúðir og þeir höfðu í félagslega kerfinu. Ég held að mjög mikilvægt sé að minni hlutinn í efh.- og viðskn. skoði það ef svör ráðherrans við þessa umræðu verða með þeim hætti að hann telji bara algjöran óþarfa að hækka þetta þak á vaxtabótum, hann hafi ekki af því neinar áhyggjur, þá þarf auðvitað minni hlutinn að skoða það við 3. umr. hvort ekki sé ástæða til að flytja brtt. við 3. umr. og hækka þetta þak á vaxtabótum hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum.

Það er rétt sem fram kom hjá talsmönnum minni hlutans áðan að nú eftir að frv. hæstv. félmrh. hefur orðið að lögum þarf að endurskoða tillögu minni hlutans um að vísa þessu frv. til ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég hef lagt fjölmargar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem ég geri ráð fyrir, herra forseti, að hann hafi tekið samviskusamlega niður, sem ég tel nauðsynlegt að fá svör við við umræðuna og læt lokið máli mínu í bili.