Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 12:33:38 (7439)

1998-06-04 12:33:38# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[12:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör og mér finnst þau fyrstu samskipti sem ég á við hann úr ræðustól og hann sem fjmrh. hæstv. lofi góðu vegna þess að hæstv. ráðherra gerði meira en maður hefur oft vanist hjá öðrum ráðherrum sem láta sér nægja að svara í stuttu andsvari mörgum og ítarlegum fyrirspurnum frá stjórnarandstöðunni þannig að ekki nást fram málefnalegar, ítarlegar og rökstuddar umræður fyrir því sem menn deila um. Þarna var vissulega brugðið út af venjunni hjá nýjum hæstv. fjmrh. og ég fagna því. Hæstv. ráðherra svaraði ítarlega öllum spurningum sem ég beindi til hans og rökstuddi afstöðu sína í þeim svörum. Þó ég sé ekki sátt við það sem fram kom oft á tíðum við þessum spurningum í máli ráðherrans gerði hann þó meira en margir aðrir ráðherrar. Hann svaraði heiðarlega þeim spurningum sem til hans var beint. Var ekkert að koma sér undan því að svara spurningum heldur gerði það með þeim hætti að ég sé ástæðu til þess að þakka fyrir.

En það eru nokkur atriði sem ég vil þó fara inn á sem ég taldi ekki vera hægt í stuttu andsvari. Ráðherrann hefur ekki ýkja miklar áhyggjur af því að fólk fresti íbúðarkaupum sínum fram til næstu áramóta, þ.e. til þess að fá samtíma vaxtabótagreiðslur. Okkur greinir á um það. Ráðherranum hæstv. var það til efs en ég tel að þessi hætta sé vissulega fyrir hendi og beri að vera á verði gagnvart því að þetta geti orsakað tímabundna þenslu og aukningu á húsbréfum sem geti komið fram í afföllum, sérstaklega þegar við bætist nýr kaupendahópur. En út af fyrir sig er það rétt hjá hæstv. ráðherra að það er kannski ekki hægt um það að segja á þessari stundu þó að hættan sé fyrir hendi.

Varðandi húsaleigubæturnar sagði hæstv. ráðherra að þar sem þetta væru bætur utan skattkerfisins, þ.e. húsaleigubætur, væri eðlilegt að þær væru skattlagðar og það voru rök hans fyrir því en vaxtabæturnar væru innan skattkerfisins og því væri eðlilegt að þær væru ekki skattlagðar. Gott og vel, herra forseti, þetta eru rök út af fyrir sig. En við skulum þá ekki gleyma því að í báðum tilvikum, hvort sem það eru leigu\-íbúðir og húsaleigubætur eða eignaríbúðir og vaxtabætur, er um að ræða aðstoð af hálfu hins opinbera vegna húsnæðismála. Það er aðstoð frá ríkisvaldinu og sveitarfélögum til þess að fólk geti komið sér upp þaki yfir höfuðið. Af því að svo vill til að þeir sem eru verr staddir eru á leigumarkaðnum og geta ekki komið sér upp þaki yfir höfuðið fá þeir ekki skattfrelsi á húsaleigubótum en það tel ég ekki eðlilegt. Ég tel ekki vera jafnræði með hópum sem fá aðstoð vegna ákveðins hlutar, mikilvægs hlutar í framfærslunni. Okkur greinir á um þetta en út af fyrir sig kom hæstv. ráðherrann með sín rök en ég tel þetta ósanngjarnt, óeðlilegt að þetta skuli vera svona.

Hæstv. ráðherrann nefndi það líka --- það fannst mér bara heiðarlegt svar hjá honum sem ég virði --- að þegar ég tala um það hvort sveitarfélögin geti búist við því að fá aukið framlag úr ríkissjóði vegna húsaleigubóta ef verulega aukin þörf kemur fram fyrir húsaleigubætur, sem mun gerast, þá geta sveitarfélögin ekki sótt sjálfkrafa inn í ríkissjóð. Hæstv. ráðherra segir að ef það kemur upp og það komi ósk um að þetta verði tekið upp í samskiptum ríkis og sveitarfélaga muni væntanlega í tengslum við það koma aðrar kröfur frá ríkinu á hendur sveitarfélögum.

Þetta er svar, herra forseti, sem þýðir auðvitað, ef við setjum það alveg yfir á mælt mál þannig að það skýrist vel, að það stendur sem var í þessari skýrslu sem ég las margsinnis fyrir hæstv. ráðherra að aukin útgjöld til húsaleigubóta eru sjálfkrafa tillögur um aukin útgjöld á sveitarfélögin. En ég man eftir því að talsmaður Sambands ísl. sveitarfélaga hélt því fram á Egilsstöðum á fulltrúaráðsfundi þegar hann var að sannfæra sveitarstjórnarmenn um ágæti þessa frv. að vitaskuld yrði þetta bætt af hálfu ríkisins ef fram kæmi miklu meiri húsaleigubótaþörf. Hæstv. ráðherra neitar ekki að það geti verið tekið upp en það mun þá koma krafa á móti frá ríkisvaldinu á hendur sveitarfélögum. Það þýðir að það kemur ekki meira framlag vegna húsaleigubóta nema sveitarfélögin sjálf taki kannski eitthvað annað á sig á móti, kannski aukin verkefni o.s.frv. Það er gott að þetta liggur fyrir. Þá vitum við að hverju við göngum í þessu efni en þurfum ekki að velkjast í vafa um það hvað hæstv. félmrh. er að fara þegar hann lætur að því liggja að það sé bara hægt að ganga í ríkissjóð af hálfu sveitarfélaganna ef um aukna húsaleigubótaþörf sé að ræða.

Ég vil líka nefna það sem hæstv. ráðherra kom inn á, þ.e. þær margumtöluðu 50 leiguíbúðir, sem eru 50 leiguíbúðir á tveimur árum samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. Hæstv. ráðherra sagði að þó að félmn. hefði breytt greininni sem ég nefndi í meðferð mála sinna, þ.e. að framlögin yrði samkvæmt fjárlögum á hverju ári, þá sagði hæstv. ráðherra að það fæli ekki í sér neina breytingu og talaði um þessar 50 íbúðir. Þá höfum við það, herra forseti, að það sem ýmsir héldu að mundi nú þýða verulega aukningu á leiguíbúðum á næstu fjárlögum, er ekki fyrir hendi. Hæstv. fjmrh. hefur staðfest það. Þetta hefur engu breytt um umsögn fjmrn., þetta verða 50 leiguíbúðir á niðurgreiddum vöxtum á næstu tveim árum. Þetta er sagt úr munni hæstv. fjmrh. og eru auðvitað ný tíðindi inn í þessa umræðu sem gæti út af fyrir sig kallað á langa umræðu.

En ég ætla ekki að hafa langa umræðu um þetta mál. Ég hef fengið svarið frá ráðherra, sem ég lýsi miklum vonbrigðum með, miklum vonbrigðum sem þýðir í framkvæmd að láglaunafólkið, sem kemst ekki inn í nýja kerfið, mun fram til ársins 2000 búa við óöryggi í húsnæðismálum. Inn í hvaða íbúðir ættu þeir að fara? Þær eru ekki til núna, það er 1.000--1.500 manns þegar á biðlista eftir leiguíbúðum og við bætist stór hópur núna sem nýtt kerfi tekur ekki við. Það eru 50 íbúðir sem ráðherrann staðfestir að verði veitt fjármagn í af hálfu ríkisins á næstu tveimur árum. Þá hefur láglaunafólk það, þetta eru skilaboðin. Það liggur nú fyrir.

Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að þetta breytist við fjárlagagerðina en eins og staðan er núna, eins og hæstv. ráðherra upplýsir okkur þá verða þetta 50 íbúðir á næstu tveimur árum. Þá vita sveitarfélögin það.

Það var ein spurning sem ég átti eftir að spyrja hæstv. ráðherra um. Í áliti fjárlagaskrifstofu er talað að um sé að ræða niðurgreidda vexti til leiguíbúða á árunum 1999 til ársins 2000. Þýðir það að eftir árið 2000 verði hætt að niðurgreiða vexti til leiguíbúða? Þýðir þessi setning það? Það er einföld lokaspurning mín til hæstv. ráðherra.

Síðan vil ég segja það varðandi 100% lánin að ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra hefur mikið kynnt sér það hvort þessi 100% lán hafi ekki gefist vel. Það liggur fyrir að vanskil á þessum lánum eru einungis 17% þannig að þetta hefur nýst stórum hluta af þeim 600 sem fengið hafa þessi 100% lán. Ástæðan fyrir því að ég taldi ekki rétt að hafa þau á sínum tíma árið 1989 er einföld og hæstv. ráðherra veit hana. Það var verið að koma á nýjum valkosti inn í félagslega kerfið sem voru kaupleiguíbúðir og þar heimilt að lána 100%, þ.e. sveitarfélögin lánuðu þau 10% sem upp á vantaði. Það var ástæðan til þess að menn töldu þá óþarfa að hafa þetta lán inni.

Varðandi stimpilgjaldið sem ráðherrann nefndi er mér auðvitað kunnugt um að lántökukostnaður myndar stofn til vaxtabóta en það er bara ekki svigrúm fyrir það í því þaki sem er á vaxtabótum og þar liggur hundurinn grafinn.

Okkur greinir á um þakið. Ég held að það liggi alveg fyrir að ef þetta þak stendur og verður ekki breytt þá mun ekki rúmast innan þess sá aukni kostnaður sem verður vegna stimpilgjalda og fólk verður að kaupa sér miklu ódýrari íbúðir en það hefur gert til þess að vera jafnsett á eftir.

Síðan vil ég segja það í lokin að ég fagna því að hæstv. ráðherra er reiðubúinn að endurskoða lögin um tekjuskatt og eignarskatt, þau lög sem áttu m.a. að koma í staðinn fyrir greiðsluaðlögun þar sem nú hefur komið í ljós að þau virka ekki. Þau voru gagnlaus þó þau hefðu átt að koma í staðinn fyrir kosningaloforð framsóknarmanna um greiðsluaðlögun. Ég fagna því að það er niðurstaðan.

Þá stendur bara eftir sú spurning sem ég beindi til hæstv. ráðherra og ein lokaspurning til viðbótar: Liggur fyrir eitthvert samkomulag sem hæstv. félmrh. nefndi í máli sínu um daginn --- ég held að það hafi verið eina spurningin sem ráðherrann svaraði ekki áðan --- samkomulag milli félmrh. og fjmrh. um að fólk yrði jafnsett á eftir að því er varðar kostnað við að komast inn í nýja kerfið, fyrir því yrði séð. Liggur fyrir slíkt samkomulag? Það blasir við okkur núna að fólk þarf að taka á sig aukinn kostnað vegna stimpilgjalda upp á 70 þús. kr. Það þarf líka að borga sölulaun til fasteignasala.

En til þess var vísað að samkomulag væri milli félags- og fjármálaráðherra um það að fyrir því yrði séð að kostnaðurinn yrði ekki meiri en í núverandi kerfi. Því er það lokaspurning mín: Liggur fyrir slíkt samkomulag og, herra forseti, hvað er þá í því samkomulagi?