Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 12:47:42 (7441)

1998-06-04 12:47:42# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[12:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að ekki sé búið að slá neinu föstu um það hvort vextir til leiguíbúða verði niðurgreiddir eða ekki eftir árið 2000. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig það fer saman ef þeir verða áfram niðurgreiddir við það markmið sjóðsins að hann á að vera sjálfbær og standa undir sér sjálfur með tekjum, vöxtum og gjöldum. Maður veltir því fyrir sér ef það er málið að hann eigi að gera það, hvort það fari þá saman við það að vextirnir verðir áfram niðurgreiddir. Auðvitað vona ég að slíkt samkomulag náist að vextir til leiguíbúða verði áfram niðurgreiddir vegna þess að ef það á að breyta því eitthvað munu sveitarfélögin ekki byggja mikið af leiguíbúðum.

Í annan stað þegar ég er að ræða um að fólk verði eins sett á eftir að því er varðar kostnað er ég ekki að tala um vaxtabæturnar sjálfar eða þetta þak heldur er ég að tala um ýmsan kostnað eins og stimpilgjöldin sem fólk þarf að greiða til þess að komast inn í kerfið og reyndar annan kostnað eins og kostnað í húsnæðisnefndum o.s.frv. Það var sá kostnaður sem hæstv. félmrh. sagði að væri samkomulag um milli félmrh. og fjmrh. að fólk yrði jafnsett á eftir.

Nú hefur hæstv. ráðherra upplýst að ekkert slíkt samkomulag liggi fyrir. Ég velti fyrir mér, ég hef tekið tvö dæmi um húsaleigubætur og sveitarfélögin varðandi stimpilgjöldin og nú þetta varðandi kostnaðinn og fjölda leiguíbúða, þar sem félmrh. hefur haldið fram því gagnstæða miðað við það sem hæstv. ráðherra segir nú, hvort hæstv. félmrh. hafi í hverju málinu á fætur öðru, sem við höfum verið að ræða við hæstv. ráðherrann, verið að skrökva að þinginu. Ég spyr enn og aftur: Er þá ekkert samkomulag til varðandi þennan kostnað við að komast inn í kerfið? Ég er ekki að tala um vaxtabæturnar sjálfar.