Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 12:51:57 (7443)

1998-06-04 12:51:57# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[12:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja það í lokin að ég tel ástæðu til, miðað við þau svör sem ég hef fengið frá hæstv. ráðherranum í þessum umræðum, að ætla að mörg þeirra staðfesti ótta okkar stjórnarandstæðinga um að verið sé að setja fjölda manns út á guð og gaddinn, eins og við höfum sagt, og stefnt sé að því og verði með þeim hætti að fólk sem kemst ekki inn í þetta nýja markaðsvædda kerfi Framsfl. og Sjálfstfl. muni taka á sig aukinn kostnað.

Hæstv. ráðherra sagði að þegar ég var félmrh. hefði verið grundvallarágreiningur milli okkar sem var ekki leiddur til lykta. Það er alveg rétt að ég vil ekki koma á markaðsvæddu húsnæðiskerfi fyrir láglaunafólk vegna þess að það gengur ekki. Það gengur ekki að bjóða láglaunafólki upp á það. En kannski er ástæða til að óska hæstv. ráðherra til hamingju með það að hann kom því máli í gegn þegar hann hafði Framsfl. við hlið sér sem hefur tekið upp stefnu Sjálfstfl. í húsnæðismálum en því miður er ekki hægt fyrir láglaunafólk að fagna þeirri niðurstöðu sem hér er orðin.

En við munum væntanlega taka þetta mál upp aftur og ræða ítarlega í haust þegar fyrir liggja fjárlög ráðherrans að því er varðar þennan þátt mála.