Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 13:07:02 (7451)

1998-06-04 13:07:02# 122. lþ. 144.27 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[13:07]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég gerði mjög breiðan fyrirvara við þetta frv. inni í hv. landbn. Nú hefur það gerst milli 2. og 3. umr. að verulega hefur verið komið til móts við þær athugasemdir sem ég gerði helstar, bæði við 11. gr., þ.e. skipting umdæmanna á Austurlandi, og við 13. gr. þar sem ég hafði lýst miklum áhyggjum vegna þess að það leit út fyrir að skilið yrði við frv. þannig í uppnámi að á sama tíma og verið var að stórstækka vaktsvæði mjög mikið væri mjög óljóst hvort nokkuð yrði tekið þátt í auknum kostnaði af ferðum dýralækna.

Við þetta hvort tveggja hefur verið komið til móts með þessum brtt. við 3. umr. og ég þakka það sérstaklega og ætla að greiða atkvæði með frv. En ég vil þó vekja athygli á að eftir stendur fyrirvari sá sem ég gerði við 15. gr. frv. en ég tel að sú grein sé í mótsögn við gildandi lagaákvæði um tilraunastöðina á Keldum og stefni að því að rýra hlutverk þeirrar stofnunar í sjúkdómsgreiningu dýra og verði ekki til að bæta þjónustu í sambandi við sjúkdómsgreiningar og grunnrannsóknir á dýrasjúkdómum.

Fram hafa komið yfirlýsingar um að þessi afstaða sé byggð á misskilningi hjá mér og það tekur þá líka til starfsfólks á Keldum sem hefur líka miklar áhyggjur af þessu ákvæði. En ég spyr þá á móti: Hvers vegna er lögð svona mikil áhersla á að fá þetta ákvæði inn í lögin um að yfirlæknir eigi að hafa aðgang að viðunandi aðstöðu, búnaði og sérþekkingu til greiningar dýrasjúkdóma? Ég held að þetta ákvæði sé óþarft og hefði átt að falla niður úr lögunum og hefðu þau verið mun ásættanlegri án þess. En ég mun samt ekki gera frekari ágreining við þetta frv. að svo stöddu.