Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 13:52:25 (7455)

1998-06-04 13:52:25# 122. lþ. 144.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að stækkun gamaldags hernaðarbandalags sem byggir á hótun um beitingu gereyðingarvopna sé mistök. Ég tel að Evrópa sé að missa af sögulegu tækifæri til að sameinast öll um heildstæðar lausnir í öryggismálum sem byggja á afvopnun, hlutlausu og friðlýstu belti frá Norðurlöndum og niður eftir Evrópu og stuðningi við uppbyggingu og lýðræðisþróun í austanverðri Evrópu en ekki stækkun gamaldags hernaðarbandalags. Það er ærin ástæða til að óttast að stækkun NATO muni leiða til nýrrar skiptingar og spennumyndunar í Evrópu, muni leiða til vígbúnaðaruppbyggingar í hinum nýju aðildarlöndum og grannríkjum þeirra sem hafa þó ríka þörf fyrir að nota fjármuni í flest annað en vopn um þessar mundir.

Ég er andvígur aðild Íslands að þessu hernaðarbandalagi. Sú stefna NATO að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði er algerlega andstæð lífsskoðunum mínum. Ég get því með engu móti stutt stækkun á hernaðarbandalagi sem ég tel að ætti að leggja niður. Ég greiði ekki atkvæði.