Almannatryggingar

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 14:18:53 (7464)

1998-06-04 14:18:53# 122. lþ. 144.5 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[14:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frv. það sem er að koma til atkvæða um almannatryggingar er allt til bóta. Í því felast miklar réttarbætur fyrir fjölda fólks, m.a. Íslendinga erlendis.

Á þskj. 1381 er brtt. frá þeirri sem hér stendur ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Kristínu Ástgeirsdóttur. Í henni felast miklar bráðnauðsynlegar réttarbætur fyrir fjölda öryrkja sem búa við þá óréttlátu skerðingarreglu tekjutryggingar að tekjur maka skerði greiðslur til þeirra frá Tryggingastofnun og þau geta ekki vegna hennar haldið eða stofnað fjölskyldu af fjárhagsástæðum. Þessi brtt. er kölluð aftur í trausti þess að hæstv. ráðherra gaumgæfi þau rök sem fram komu í umræðunni um brtt. og að hæstv. ráðherra breyti þá lögum í haust svo ekki verði brotið á lífeyrisþegum á þennan ómannúðlega hátt og lögin gerð þannig skýr eins og umboðsmaður Alþingis hefur kallað eftir í áliti um málið.

Einnig hefur komið fram að þessi skerðingarregla er samkvæmt reglugerð sem á sér ekki stoð í lögum. Þessi brtt. er því kölluð aftur að sinni.