Áfengislög

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 14:24:21 (7466)

1998-06-04 14:24:21# 122. lþ. 144.6 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv. 75/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[14:24]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er að koma til afgreiðslu frv. og reyndar spyrða frumvarpa sem tengjast öll ÁTVR og tilraunum til að einkavæða þá starfsemi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og undirritaður hafa komið með tillögur sem hafa flestar verið keyrðar á kaf en lúta að því að færa verslun með áfengi og tóbak í nútímalegra horf án þess þó að hverfa frá aðhaldssamri og ábyrgri stefnu á þessu sviði.

Þá höfum við viljað gera stjórnkerfi ÁTVR lýðræðislegra og færa ákvarðanatöku um stefnumótun á þessu sviði frá ráðherrum einum og pólitískum aðila sem þeir setja yfir stjórn fyrirtækisins og hefur ítrekað orðið uppvís að því að ganga erinda þeirra sem vilja leggja ÁTVR niður. Síðan ákvað stjórn ÁTVR að lækka álögur á áfengi úr 11% í 10%. Þetta minnkar tekjur ríkissjóðs úr 55 millj. kr. án þess að færa verðið niður.

Hvert fara þessir milljónatugir? Þeir fara til brennivínsheildsala til að fjármagna óhagræðið sem verið er að skapa þeim með öllum þessum lagabreytingum. Allt gengur þetta meira og minna gegn hagræðingu og skynsamlegri ráðstöfun fjármuna. Sífellt verður eftirlitið erfiðara og þyngra. Afleiðingarnar eru aukið skrifræði og nýjar deildir innan lögreglunnar til að reyna að koma einhverju skipulagi á þá hringavitleysu sem þessi ríkisstjórn er að skapa á sviði áfengismála.

Við styðjum að sjálfsögðu það sem horfir til bóta í þessum frv. en annað ekki. Það liggur í augum uppi.