Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:00:26 (7477)

1998-06-04 15:00:26# 122. lþ. 144.12 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða sú grein sem í raun og veru breytir skattlagningu á arðgreiðslur fyrirtækja. Ég hef lýst í umræðum um þetta mál mjög svipuðum efasemdum og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði í atkvæðaskýringu áðan. Ég er ekki sannfærður um að hér sé verið að velja rétta leið til að gera annars þarfar lagfæringar á meðferð skömmtunar arðgreiðslna milli fyrirtækja. Ég óttast að þessi tilhögun verði andstæð nýsköpun og fyrst og fremst mótdræg nýjum fyrirtækjum og einyrkjum, fyrirtækjum sem starfa algerlega sjálfstætt, eiga ekki eignarhlut í öðrum fyrirtækjum eða fá arðgreiðslur frá öðrum fyrirtækjum.

Greinin mun hins vegar ívilna stórum samsteypum þar sem mikið er um arðtilflutning milli fyrirtækja. Ég tel þá breytingu ekki til góðs né að hér sé valin heppileg leið til þess að gera breytingar á þessu sviði. Ég greiði ekki atkvæði.