Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:02:42 (7478)

1998-06-04 15:02:42# 122. lþ. 144.12 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Efh.- og viðskn. þríklofnaði í afstöðu sinni til þessarar greinar. Við þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar leggjum til, með brtt. þeirri sem nú kemur til atkvæða, að tekjuskattsprósentan af hagnaði fyrirtækja verði 32% í kjölfar þeirra breytinga á skattlagningu arðgreiðslna sem áður hafa komið til atkvæða. Hv. þm. Pétur H. Blöndal og Einar Oddur Kristjánsson leggja til að þetta hlutfall fari niður í 28% en afgangurinn af efh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Það að samþykkja frv. óbreytt þýðir óumdeilanlega nettólækkun á raunsköttum fyrirtækjanna mitt í góðærinu.

Við sjáum enga ástæðu til þess, herra forseti, að létta sköttum af gróðafyrirtækjum landsins við þær aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum okkar og leggjum til að þetta hlutfall lækki í mesta lagi niður í 32%, sé ástæða til að breyta því yfir höfuð.