Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:06:59 (7480)

1998-06-04 15:06:59# 122. lþ. 144.12 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Norðurlöndin, Finnland, Svíþjóð og Noregur hafa ákveðið að taka upp 28% skatt á hagnað fyrirtækja. Danmörk er hefur jafnframt lagt fram stjfrv. um það að taka upp sömu skattprósentu. Við sitjum því enn uppi með verri aðstöðu og verra umhverfi fyrirtækja en hin Norðurlöndin. Við stöndum frammi fyrir því að íslensk fyrirtæki standa í samkeppni við erlend fyrirtæki um fjármagn, fólk og verkefni. Það er mjög mikilvægt að fyrirtæki okkar séu ekki verr sett en önnur fyrirtæki sem við keppum við alþjóðlega. Þess vegna leggjum við til að upp verði tekin sama prósenta og stefnir í á hinum Norðurlöndunum.

Þetta er auk þess spurningin um að það sé hvati til fyrirtækja að ná hagnaði og hvati til þess að bæta stjórnun. Hvort tveggja er mjög lélegt á Íslandi og fyrirtæki með hagnaði geta borgað hærri laun, það er vel þekkt. Íslensk fyrirtæki hafa því miður borgað allt of lág laun. Ég segi já.