Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:12:13 (7483)

1998-06-04 15:12:13# 122. lþ. 144.12 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Verði þessi lækkun á álagningarprósentu tekjuskatts á hagnað fyrirtækja samþykkt þá þýðir það, samkvæmt fskj. með frv., 200 millj. kr. raunlækkun á hlutfallslegum skattgreiðslum fyrirtækja og tekjum ríkissjóðs. Hér er því á ferðinni sérstök gjöf frá ríkisstjórninni til gróðafyrirtækjanna í landinu upp á a.m.k. 200 millj. kr. Reyndar er ástæða til að ætla að þessi gjöf geti orðið meiri í ljósi þess að afkoma fyrirtækja hefur batnað og mörg fyrirtæki í heilum atvinnugreinum hafa nýtt upp öll gömul töp. Því er ljóst að það stefnir í auknar skattgreiðslur fyrirtækja á komandi árum.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að í stað þess að fyrirtæki, með batnandi afkomu, leggi meira af mörkum í sameiginlega sjóði landsmanna skuli þeim færð sérstök gjöf, nú mitt í góðærinu, væntanlega til þess að afla sambærilegra tekna og gjöfinni nemur með áframhaldandi aukinni skattlagningu á launamenn. Þessum áherslum í skattamálum mótmæli ég og hvet menn til þess að fella þessa tillögu og halda skattahlutföllunum frekar óbreyttum en lækka þau. Skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi er þegar mjög hagstætt.