Eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:30:15 (7486)

1998-06-04 15:30:15# 122. lþ. 144.16 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef fyrirvara á um tvo veigamikla efnisþætti í þessu frv. Sá fyrri lýtur að stjórnsýslulegri stöðu hins nýja Fjármálaeftirlits og sá síðari að samskiptum Fjármálaeftirlitsins við Seðlabankann. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að hyggilegt sé að búa svo um hnúta sem 3. og 4. gr. II. kafla frv. um stjórnsýslu gera ráð fyrir, að þessi stofnun sé færð undir viðskrh. og í raun og veru einræði hans. Mér blöskrar það gífurlega vald sem verið er að þjappa saman undir einn ráðherra í viðskiptaheiminum þessi missirin. Ég bendi á að hæstv. viðskrh. á að vera allt í senn: yfirmaður bankamála, fara með eignarhald í ríkisbönkunum og vera yfir eftirliti með bankastarfseminni sjálfri. Menn geta velt því fyrir sér hvort það mikla vald sem verið er að færa undir viðskrh. af hálfu Alþingis sé sérstök verðlaun fyrir frammistöðu hans almennt á undanförnum vikum og mánuðum.

Ég hef miklar efasemdir um þennan frágang málsins, herra forseti, og teldi að fjmrn. ætti allt eins að skipa undir Alþingi eða láta það starfa í skjóli Alþingis eða forsrn. Ég mun því sitja hjá við ákvæði 3. og 4. gr. frv.