Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 18:01:51 (7500)

1998-06-04 18:01:51# 122. lþ. 145.17 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv. 86/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[18:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Menntmn. kom saman milli 2. og 3. umr. út af þessu máli og fékk fulltrúa frá Félagi sérkennara á sinn fund. Ástæða fundarins var sú að láðst hafði að boða fulltrúana á fund nefndarinnar. Þeir höfðu ekki verið upplýstir um þær breytingar sem eru að eiga sér stað.

Niðurstaða okkar í minni hluta menntmn. var sú að þörf væri á því að athuga betur en tækifæri gefst til í dag hvernig breyta eigi þessu frv. þannig að staða sérkennara verði betur tryggð en nú er. Við ákváðum því að koma ekki með brtt. varðandi stöðu sérkennara að sinni en munum skoða málið betur í sumar og hugsanlega flytja tillögu til breytinga í haust ef ástæða þykir til.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, við atkvæðaskýringu vegna 2. tölul. 12. gr. við 2. umr., þá boðaði hún að við í minni hluta menntmn. mundum koma með brtt. við þessa grein, þennan tölul. ef okkar brtt. yrði ekki samþykkt við 2. umr. Ákvæðið sem hér um ræðir fjallar um að þeir sem hafi meira en 90 einingar, þ.e. lágmarksmenntun, BA-próf í faggrein, þ.e. þeir sem hafa 30 einingar í viðbót, a.m.k. 120 einingar, þurfi einungis að taka 15 einingar í kennslufræðum í stað 30. Brtt. okkar við 2. umr. gekk út á að þetta félli brott þannig að allir þyrftu að taka 30 einingar í kennslufræðum.

Nú hefur sú tillaga verið felld. Þá erum við komin með aðra brtt. og mig langar að skýra hana, herra forseti, og mæla fyrir henni. Yfirlýst markmið þessara breytinga 2. tölul. 12. gr. er að hvetja þá sem eru með meira en BA-próf til þess að taka að sér kennslu í framhaldsskólum. Okkar tillaga gengur út á að þeir sem hafi 120 námseiningar eða meira, en þó sem skilgreint próf í sömu grein, geti einir fengið þennan afslátt á kennslufræði. Þetta leggjum við til fyrst og fremst vegna þess að eins og frv. stendur núna er mögulegt að verða viðurkenndur framhaldsskólakennari í grein ef viðkomandi hefur eingöngu 30 einingar í faggrein og 15 einingar í kennslufræði. Þarna er slakað verulega á kröfum og mjög til skaða miðað við hið göfuga markmið, að reyna að fá meira menntaða kennara inn í framhaldsskólana. Þess vegna leggjum við til orðalagsbreytingu á 2. tölul. sem gengur út á að þessar 30 einingar verði að vera viðbótarnám og þeir séu með meistarapróf eða doktorspróf sem sé a.m.k. 120 námseiningar. Þessi brtt. er á þskj. 1538. Þar er lagt til að:

,,2. tölul. 1. mgr. 12. gr. orðist svo: æðri prófgráðu frá háskólum, þ.e. meistara- eða doktorsprófi sem krefst a.m.k. 120 námseininga og veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda.``

(ÖS: Hvar verður maður með doktor með 120 einingum?) A.m.k. 120 námseiningar. Það er til meistarapróf með 120 námseiningum. Þetta er okkar tillaga, að þetta markmið náist án þess að slaka á kröfum til faggreinaþekkingar sem frv. mun leiða til eins og það stendur núna.