Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 19:00:29 (7504)

1998-06-04 19:00:29# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[19:00]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er til marks um málefnalegt rökþrot ríkisstjórnarinnar í þessu máli að hæstv. heilbrrh. hefur kosið að leggja mér orð í munn. Ég sagði ekki að fjármagn til forvarna hefði ekki aukist. Ég sagði hins vegar að það væri hvergi nærri nóg. Hæstv. ráðherra kvartar yfir skorti á tillögum. Þó sýnist mér að hún taki í raun undir þá tillögu sem ég var með hérna. Ég taldi það alfarið nauðsynlegt, ef þetta ætti að verða barn í brók, að tóbaksvarnir yrðu teknar hérna undir. Ef hæstv. ráðherra skilur ekki tengslin á milli tóbaksvarna og annarra fíkniefnavarna, í ljósi þeirra gagna sem er að finna í upplýsingum sem dreift hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar, þá held ég að ríkisstjórnin sé illa stödd. Það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, í þessum gögnum, að besta leiðin til þess að ná raunhæfum árangri í baráttunni gegn hörðum fíkniefnum er sennilega að koma því svo fyrir að börn okkar byrji ekki að reykja. Það er eitt af því sem ætti að liggja í augum uppi, herra forseti. Það liggur hins vegar ekki í augum uppi hjá hæstv. ráðherra.

Ég hef fært rök fyrir því, herra forseti, að það frv. sem hérna liggur fyrir sé ómarkvisst, m.a. vegna þess að verkefni ráðsins liggja ekki fyrir. Það tókst ekki heldur að fá þau skýrð út af starfsmönnum ráðuneytisins, hvorki munnlega né skriflega. Með öðrum orðum, herra forseti: Hæstv. heilbrrh. leggur til að stofnað verði ráð, ráðsins vegna. Það er eina niðurstaðan sem ég get komist að. Ég fæ ekki skilið hvað það er nákvæmlega sem þetta ráð á að gera. Á það að taka yfir eftirlit með því hvernig menn eru að brjóta lög sem tengjast vímuvörnum inni á veitingahúsum, inni í skólum, eða hvað? Hvað þýðir 1. töluliðurinn, herra forseti? Svona mætti lengi halda áfram.

Ég hefði gaman af því, herra forseti, að sjá hvernig þessum 125 millj. var varið. Og málflutningur hæstv. ráðherra var í samræmi við skýrsluna sem ég vísaði til hérna áðan: Ja, það er löggæsla, það er tollgæsla. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að reyna að bregðast við vandanum hjá unga fólkinu sjálfu? Grafast fyrir um rætur hans. Með því að dreifa námsefni í 6., 7. og 8. bekk? Það er lausnin.