Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 19:13:22 (7510)

1998-06-04 19:13:22# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, MF
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[19:13]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð sem lagt er fram öðru sinni. Það hefur verið rætt allnokkuð í heilbr.- og trn. án þess þó að hægt sé að segja að mikið hafi komið út úr þeirri umræðu. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður heilbr.- og trn., nefndi hér áðan, þrátt fyrir þá umræðu sem þar átti sér stað og beiðni sem lögð var fram um svör við ákveðnum spurningum sem sérstaklega minni hlutinn í heilbr.- og trn. lagði fyrir starfsfólk heilbrrn., þá bárust þau svör ekki. Fyrst núna, þ.e. eftir að málið hafði verið afgreitt út úr nefnd, barst bréf dags. 29. apríl þar sem heilbr.- og trn. fer örstutt í þær skýringar sem farið var fram á. Þetta er svona eins konar yfirklór og engin skýr svör eru gefin við öllum þeim spurningum sem fram komu varðandi verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs. Ráðuneytið byrjar bréf sitt á að bregðast við spurningu sem varðaði sérstaklega ákvæði 3. gr. frv., þar sem talað er um hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs, og beðið er um skýr svör um hver þessi verkefni séu. Í raun og veru segir ein setning í bréfinu frá heilbr.- og trn. allt sem segja þarf um svarið. Sú setning er svona, með leyfi forseta:

[19:15]

,,Af þessu tilefni telur ráðuneytið rétt að benda á nokkur atriði sem fallið geta undir umrætt ákvæði verði frv. lögfest``, þ.e. ákvæðin þar sem fjallað er verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs. Af þessu tilefni telur ráðuneytið rétt að benda á nokkur atriði sem fallið geta undir umrætt ákvæði. Það er því ekki af hálfu ráðuneytis búið að ganga endanlega frá því hver þessi verkefni eru og ég vildi byrja á að beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. að hún fari yfir með okkur á eftir nákvæmlega hver verða verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs. Það segir sig sjálft að ráðuneytið hlýtur að hafa útfært þau nákvæmlega og ekkert hér um bil eða kannski geta fallið undir ákvæðið eða hugsanlega verður það þetta eða hitt og það segi ég vegna þess að í gildistökuákvæði frv. segir:

,,Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998`` og því mætti ætla að lokaundirbúningi þessa frv. væri lokið í ráðuneytinu þar sem ráðuneytið hefur gert ráð fyrir því og hæstv. ráðherra að frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð hefði í raun og veru átt að ganga í gildi 1. júní í ár. Það getur því ekki staðist neitt hér um bil eða kannski. Samt gerist það að mánuði fyrir gildistökuákvæðið, sem samkvæmt frv. er 1. júní, mánuði áður, þann 29. apríl kemur bréf frá ráðuneytinu til heilbr.- og trn. þar sem beðið er um skýr svör um verkefni ráðsins þar sem segir að ráðuneytinu þyki rétt að benda á nokkur atriði sem fallið geta undir umrætt ákvæði en sé alls ekkert víst. Við ætlum að hugsa það aðeins betur í ráðuneytinu. Það er, virðulegi forseti, eins og hefur verið með þau mál sem við höfum verið að ræða frá heilbr.- og trmrn. að undanförnu, óskaplega mikið um óljós svör, óskýr svör við þeim spurningum sem hafa verið settar fram. Það er sérstaklega ámælisvert þegar við erum að tala um væntanlegt áfengis- og vímuvarnaráð því að meiri hluti Alþingis virðist hafa ákveðið að keyra frv. í gegn án nokkurra breytinga vegna þess að það er ekkert lítið sem hæstv. ráðherra ætlar sér með þessu áfengis- og vímuvarnaráði. Þetta er samkvæmt skýrslu dómsmrh. sem birtist í mars 1998 til Alþingis um aðgerðir á vegum stjórnvalda í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum á árinu 1997. Þar segir í kaflanum frá heilbr.- og trmrn., og ég býst við að reikna megi með að hann sé saminn í því ráðuneyti, að áfengis- og vímuvarnaráðið sé fyrsta skrefið í uppbyggingu heilsuverndarstöðvar á landsvísu. Það er stofnun þessa áfengis- og vímuvarnaráðs. Það er fyrsta skrefið í uppbyggingu heilsuverndarstöðvar á landsvísu. Það er ekkert lítið.

Maður skyldi því ætla að þegar þetta mikilvæga skref er stigið um uppbyggingu heilsuverndarstöðvar á landsvísu væru markmiðin alveg klár en það eru þau ekki og það segir í skýrslunni sem er unnin töluvert eftir að frv. er lagt fram því að það er lagt fram nánast óbreytt frá fyrra þingi, með leyfi forseta:

,,Markmiðið með starfsemi ráðsins er að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu. Ráðinu er ætlað að stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuefnavörnum, svo sem heilsugæslu og annarra heilbrigðisstofnana, félagsmálayfirvalda sveitarfélaga, löggæslu, menntakerfis, refsivörslukerfis og félagasamtaka.``

Það er ekkert í þessari skýrslu frekar en í frv. sjálfu um það hvernig eigi að standa að þessu verkefni. Markmiðið er þess heldur óraunhæft. Það er mjög sterkt og mjög gott og grípandi að lesa frv. til laga þar sem gert er ráð fyrir að uppræta fíkniefnaneyslu. Nú veit hæstv. ráðherra, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, að það eru ansi mörg lyf sem geta verið ávanabindandi og getur myndast fíkn í en hér er ekkert minna markmið á ferðinni en að uppræta fíkniefnaneyslu en draga stórlega úr áfengisneyslu og síðan kemur það að ráðið skuli stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuvörnum. En ég er viss um, virðulegi forseti, að samstaða hefði náðst um stofnun þessa áfengis- og vímuvarnaráðs innan heilbr.- og trn. hefðu markmiðin verið ljós hefði 3. gr., verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs, verið betur útfærð, betur skýrð en gert er greininni sjálfri eða í greinargerð með frv. eða af afar ráðvilltum starfsmönnum heilbrrn. Það er bara vægt tekið til orða vegna þess að samkvæmt þeim dagbókum sem ég held á fundum í heilbr.- og trn. voru svörin engin við útfærslu á þessari 3. gr. Það virtist því vera þannig að þeir starfsmenn ráðuneytisins sem voru sendir á fund heilbr.- og trn. til að fylgja frv. eftir og vera meiri hlutanum til halds og trausts sem er orðinn alveg fastur liður, að meiri hluti hverrar nefndar hafi einn til tvo og jafnvel fleiri starfsmenn viðkomandi fagráðuneytis sér til halds og trausts til að svara spurningum minni hlutans því að það fer ekki svo sem mikið fyrir því að meiri hlutinn spyrji spurninga --- og ég tek undir það sjónarmið hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar formanns heilbr.- og trn. sem hann lýsti að hann taldi að færa mætti rök fyrir því að meiri hlutinn hefði á sínum tíma fyrir ári ekki verið svo mjög spenntur fyrir því að þetta frv. færi í gegn og þess vegna hefði það legið og það er kannski þess vegna sem meiri hluti heilbr.- og trn. er ekki á staðnum.

En ef unnið hefði verið eðlilega að þessum málum hæstv. ráðherra eða starfsmenn hennar hefðu verið tilbúnir til að fara í nánari útfærslu á 3. gr. og að breyta skipan þessa ráðs frá því sem kveðið er á um 2. gr. frv. þar sem segir:

,,Heilbrigðisráðherra skipar átta menn í áfengis- og vímuvarnaráð og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn. Til setu í áfengis- og vímuvarnaráði skal að jafnaði velja einstaklinga sem eru sérfróðir um áfengis- og vímuvarnir.``

Það er svo sem ekki nein skilgreining á því hvernig þetta val á að fara fram en síðan eru það forsrh., dómsmrh., félmrh., fjmrh., heilbrrh., menntmrh., og utanrrh. sem eiga að tilefna sjö af þessum átta og svo fær Samband íslenskra sveitarfélaga einn. Einn fulltrúa.

Nú er vitað að hlutverk sveitarfélaga í vímuefnavörnum, og einnig að fást við vímuefnavanda ungmenna sem kemur upp hverju sinni, er að verða æ mikilvægara í þessum þætti. Hæstv. ráðherra, sem komst svo skemmtilega að orði fyrir rúmu ári þegar hún lagði þetta frv. fram, sagði eitthvað á þá leið að það væri nauðsynlegt að búa til áfengis- og vímuvarnaráð sem í ætti sæti einn fulltrúi frá öllum þeim ráðuneytum sem eitthvað snerta þessi mál því það væri svo nauðsynlegt að samræma stefnu og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

Ég hafði haldið að ríkisstjórnin eyddi tveimur morgnum í viku í það verk að samræma stefnu sína á hinum ýmsu sviðum en það virðist ekki vera svo heldur er farin sú leið að búa til áfengis- og vímuvarnaráð sem Alþingi á ekkert að koma nálægt að skipa í og stjórnarandstaðan auðvitað þaðan af síður. Þá á að nota þetta ráð sem á síðan að fjármagna úr forvarnasjóði sem er til í dag og er auðvitað hluti af þeim 125 millj. sem eru að verða, og það segi ég án þess að vera að gera lítið úr þeim fjárveitingum sem fara til forvarna, eins og biluð plata þar sem nálin hefur fest á sama stað: 125 millj. í ár, 125 millj. til forvarna á síðasta ári. Það er alveg rétt og því hefur margverið hrósað en það er löngu kominn tími til að hæstv. ráðherra komi sér upp úr þessu fari og komi með heildstæða stefnumörkun varðandi vímuefnavarnir, ekki bara það sem lýtur að samningum við íþróttafélög og einstaka sveitarfélög heldur heildstæða stefnu í áfengis- og vímuvörnum og meðferðarúrræðum. Þótt það sé gott og gilt að fá íþróttakappa, ungt, fjörmikið, hresst fólk til að fara í auglýsingaherferð sem æskilegar fyrirmyndir ungs fólks, þá verð ég að segja alveg eins og er að ég er sannfærð um það eftir mörg viðtöl við foreldra fíkniefnaneytenda, við kennara sem hafa verið með börn í bekkjum sínum sem hafa ánetjast fíkniefnum og reyndar eftir viðtöl við börnin sjálf, að í áhættuhópunum eru ekki fyrst og fremst þau börn sem eru spennt fyrir íþróttum og eru keppnismanneskjur að eðlisfari. Vissulega er það gott og má sjálfsagt bjarga einhverjum en ég er alveg sannfærð um að þetta er ekki helsti áhættuhópurinn. Áhættuhópurinn er kannski fyrst og fremst þau börn og ungmenni sem hafa orðið fyrir einelti í skólum, gengið illa að læra, sem hafa sökum fátæktar ekki getað fylgt tískunni og lent þess vegna úti á kanti innan skólans. Þau koma oft og tíðum frá brotnum heimilum, þau koma frá fátækum heimilum en það er nokkuð sem ég vil að hæstv. ráðherra heyri, þegar hún hefur lokið símtali sínu, því að það er nauðsynlegt fyrir flokk og ráðherra sem setur fólk í fyrirrúm að hlusta þegar verið er að tala um fátæktina sem ríkir enn á Íslandi hjá stórum hópi fólks og menn mega ekki gleyma sér í æstum fagnaðardansi yfir því hvað góðærið hafi skilað sér og allir hafi það gott eins og einn ágætur þingmaður sagði einhvern tímann þegar búið var að sýna fram á hve stór hópur fólks væri á lægstu tekjunum, þá kom ákveðinn hv. þm. æ ofan í æ upp í stólinn og sagði: Það getur vel verið en að meðaltali höfum við það gott, og að meðaltali erum við mjög hamingjusöm. Ég er voðalega hrædd um að það sé þetta meðaltalsviðhorf hæstv. ráðherra sem verður til þess að ekki er tekið á fíkniefnavandanum. Þegar ég segi að ekki sé tekið á honum fullyrði ég það vegna þess að það er mjög stór hópur fíkniefnaneytenda, ungs fólks sem á ekki í nein hús að venda í dag sem fellur ekki undir forvarnaprógram hæstv. ráðherra varðandi reykingar og ég get tekið undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að reykingar barna og ungmenna hafa því miður aukist í skólum eftir því sem starfsmenn skólanna margra hverra hafa sagt okkur á undanförnum mánuðum og lýst áhyggjum sínum yfir. Vissulega er gott að hæstv. ráðherra hefur sérstakan hug á að taka á því vandamáli en það verður að horfa á allt heila dæmið ef maður getur orðað það svo. Það verður að horfa á þá hópa sem eru í hvað mestri áhættu og þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Heldur hæstv. ráðherra að sprækur, fallegur íþróttamaður eða reyklaus fegurðardrottning sé sú fyrirmynd sem það barn hefur sem hefur orðið fyrir einelti vegna fátæktar, vegna þess að það getur ekki fylgt tískunni, hefur orðið á eftir í lærdómi eða kemur frá brotnu heimili? Heldur hæstv. ráðherra að þetta séu þær fyrirmyndir sem höfði helst til þessara brotnu einstaklinga og nái helst til þeirra? Heldur hæstv. ráðherra ekki að það hefði verið nær að búa svo um hnúta að þessir litlu brotnu einstaklingar hefðu átt möguleika á frírri sálfræðiþjónustu eða félagsráðgjöf til að fást við sín vandamál? Heldur hæstv. ráðherra að eitthvað af þeim millj., sem góðærið hefur skilað hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnin gleðst svo yfir þessa daga, hefði verið vel varið í þá forvarnastarfsemi að byggja um sálfræði- og félagsráðgjöf fyrir börn og ungmenni þeim að kostnaðarlausu?

[19:30]

Veit hæstv. ráðherra hversu margar fjölskyldur barna sem hafa ánetjast fíkniefnum, hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, orðið fyrir einelti í skólum eða koma frá heimilum í upplausn, hversu mörg þau börn eru sem neitað er um þessa þjónustu í dag vegna þess að þau hafa ekki efni á henni? Veit hæstv. ráðherra að þrátt fyrir þá samninga sem gerðir hafa verið við einstök sveitarfélög um að sinna þessari þjónustu er þar ekki um nægan tíma að ræða, þann tíma sem til þarf? Tíu tímar hjá sálfræðingi hjálpa barni sem hefur orðið fyrir einelti eða kynferðislegu ofbeldi aðeins örlítið af stað. Það barn sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þarf a.m.k. árs, tveggja eða þriggja ára meðferð, það veit ég. Þessum börnum er hættast við að ánetjast fíkniefnum, þeim er hættast við að byrja að reykja, þeim er hættast við að byrja að drekka og hættan á því að þau ánetjist fíkniefnum, löglegum sem ólöglegum, er mikil. Ef hæstv. ráðherra hefur hlustað á þá sálfræðinga og félagsráðgjafa sem helst eiga að hafa með þessi börn að gera, þá veit hæstv. ráðherra að ég fer með rétt mál. Ef hæstv. ráðherra hefur mætt á fund stuðningshóps foreldra sem eiga börn sem hafa orðið fyrir einelti í skóla, þá veit hæstv. ráðherra að ég fer með rétt mál. Hæstv. ráðherra veit að þessi brotnu börn eru ekki að horfa á glansmyndirnar af fegurðardrottningunum. Þau horfa ekki heldur á spræku íþróttamennina, því miður. Þau eru bara ósköp einfaldlega það brotin að tilvera þeirra snýst um annað.

Ég tók saman að gamni mínu fyrir þessa umræðu hversu stór hluti þeirra viðtala sem ég hef veitt á síðasta ári er vegna barna sem orðið hafa fyrir einelti, orðið fyrir kynferðisofbeldi innan eða utan heimila, koma frá brotnum heimilum, hafa ánetjast fíkniefnum hvers konar og hversu stór hluti þeirra sem til mín hafa leitað hafa ekki haft ráð á því að leita með börnin sín til sálfræðings eða félagsráðgjafa. Það eru yfir 70% allra viðtala og ég hef verið með yfir 800 viðtalstíma. Ég hef verið með yfir 800 viðtalstíma á rúmu ári og í suma viðtalstímana mæta hópar foreldra til að ræða þessi vandamál sem lúta að vímuefnaneyslu barna. Því miður verð ég að segja að áfengis- og vímuvarnaráð mun ekki leysa þennan vanda. Það mun leysa einn vanda. Það mun leysa einn vanda. Þann vanda að samhæfa störf ríkisstjórnarinnar, ráðuneytanna og er löngu kominn tími til.

Maður hefði nú einhvern veginn ætlað að eftir þriggja ára setu hefði hæstv. ríkisstjórn tekist að samhæfa verk sín á þessu sviði. Maður hefði getað ætlað að á þremur árum, miðað við þá umræðu sem hefur átt sér stað hér á undanförnum þremur árum, sem oftast er tekin upp af hv. stjórnarandstöðu, hefði maður getað ætlað að hæstv. ráðherrar hefðu getað samhæft störf ráðuneyta á þessu sviði. Það virðist því miður ekki vera og til að samhæfa störf ráðuneyta þarf að setja fram frv. til laga til að taka af öll tvímæli um það að ráðuneytin skuli starfa saman með samhæfða stefnu.

Jú, það á að hleypa einum fulltrúa sveitarfélaganna í landinu inn. Vissulega hefur sveitarfélögunum fækkað en ekki svo mikið að einn fulltrúi nái að dekka þau öll. Sjónarmið sveitarfélaga, þau viðhorf og vandamál sem þau eiga við að stríða eru afar misjöfn. Það fer eftir stærð, gerð og legu þeirra sveitarfélaga. Því miður fer það líka oft og tíðum eftir viðhorfum þeirra sveitarstjórnarmanna sem sæti eiga í sveitarstjórn. Mér hefur orðið tíðrætt um að ekki sé boðið upp á fría sálfræði- eða félagsráðgjöf fyrir börn.

Ég má þó til með að nefna að eitt sveitarfélaganna gerir það og hefur gert um töluvert langan tíma. Það er Sauðárkrókur. Þegar nærliggjandi sveitir fóru að starfa saman að barnaverndarmálum þá töldu fulltrúar dreifbýlishreppanna í kring að það væru engin barnaverndarvandamál hjá þeim. Það væri ekki þannig, þyrfti ekkert endilega að ráða svona félagsráðgjafa eða sálfræðinga og hafa þá í fullu starfi, vandamálin væru ekki til staðar. Reynslan sýndi hins vegar allt annað. Reynslan varð allt önnur. Börn úr þessum dreifbýlissveitarfélögum þurftu ekkert síður á þessari þjónustu að halda og hún er þannig að barn eða ungmenni getur gengið inn á skrifstofu þessa sveitarfélags og beðið um aðstoð án þess að þurfa fyrst að ræða það við mömmu og pabba, kennarann eða ganga í gegnum eitthvert ferli áður. Þau bara leita eftir aðstoðinni og það hafa þau svo sannarlega gert.

Virðulegi forseti. Hér eru miklar hvíslingar í gangi og ég spyr: Á að fresta fundi eitthvað í matarhléi. Ég á töluvert eftir af minni ræðu og vildi gjarnan vita það ef ætlunin er að taka hlé, áður en haldið er áfram inn í nóttina.

(Forseti (StB): Forseti hafði nú gert ráð fyrir að gefa eitthvert matarhlé og vill þá spyrja hv. þm. hvort þingmaðurinn gæti lokið ræðu sinni á næstu 20 mínútum eða svo, eða 15?)

Virðulegi forseti. Ég á eftir töluvert meira efni en í 20 mínútur eða 15 og margt sem ég vildi koma á framfæri við þessa umræðu. Ég hafði áður ætlað mér að biðja um utandagskrárumræðu einmitt um vímuefnavandann og sú komst ekki á vegna þess að ég gat fallist á þau sjónarmið að þar sem þingmál væru hér til umræðu sem snertu þennan málaflokk beint, þá væri jafneðlilegt að taka þetta inn í þá umræðu. Þetta snýst allt um stefnumörkun og verk.

(Forseti (StB): Þá mundi nú forseti vilja fara fram á það við þingmanninn að gera hlé á ræðu sinni eftir svo sem eins og 5 mínútur. )

Það er sjálfsagt að verða við þeim óskum.

En 2. gr. sem ég var að fjalla um, þ.e. um það hverjir eigi að skipa í áfengis- og vímuvarnaráð. Minni hluti heilbr.- og trn. leitaði ítrekað eftir skýringum, við starfsmenn ráðuneytis og þá sem komu á fund nefndarinnar, á því hvers vegna sú leið væri farin að skipan áfengis- og vímuvarnaráðs sem er eins og stendur í skýrslunni hér, fyrsta skrefið í uppbyggingu heilsuverndarstöðvar á landsvísu. Við leituðum eftir skýringum á því hvers vegna þessi leið var farin, að þessi sjö ráðuneyti skipuðu hvert sinn fulltrúa í áfengis- og vímuvarnaráð og sveitarfélögin aðeins einn. Eins og með aðrar spurningar þá komu svörin ekki, svörin voru ekki til, önnur en þau að það þyrfti að samhæfa verk ríkisstjórnarinnar. Það eru ekki svör, virðulegi forseti, sem mér finnst ásættanleg í þessum efnum. Það er einfaldlega vegna þess að þó mikilvægt sé að samhæfa verk ríkisstjórnarinnar þá hefði ég haldið að það væri nú ekkert ofverk einnar ríkisstjórnar, að setjast niður og samhæfa verk sín og skipa í áfengis- og vímuvarnaráð þannig að þar kæmi að fjölþætt þekking og reynsla og að Alþingi skipaði í áfengis- og vímuvarnaráð þar sem bæði stjórn og stjórnarandstaða, sveitarfélögin, ýmis félagasamtök sem hafa komið að þessum málum ættu fulltrúa. Mörg félagasamtök virðast hafa meiri þekkingu á ástandinu en er í ýmsum ráðuneytum í dag ef tekið er mið af þeim skýrslum sem við höfum undir höndum.

Þess vegna vildi ég nú beina til hæstv. ráðherra spurningunni: Hvers vegna var þessi leið farin? Ég ætlaði að athuga hvort hæstv. ráðherra hefur skýrari svör en fulltrúar ráðuneytis sem mættu fyrir nefndina. Af hálfu nokkurra þeirra sem sendu inn umsagnir er einmitt gerð athugasemd við það hvernig staðið er að skipan í ráðið. Eins eru gerðar athugasemdir við að eitt af hlutverkum áfengis- og vímuvarnaráðs eigi að vera að gera tillögur um hvernig úthluta skuli úr forvarnasjóði en engu að síður á að reka áfengis- og vímuvarnaráðið með fjármagni úr forvarnasjóði.

Í skýrslunni sem hæstv. dómsmrh. skilaði til þingsins í mars sl. og í umsögn, um frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð, frá fjmrn. fjárlagaskrifstofu sýnist mér talað um sömu fjárhæðir sem eigi að fara til ýmiss konar átaks í forvarnastarfsemi og til að efla fíkniefnalögregluna Það er út af fyrir sig dálítið merkilegt þegar maður skoðar hvernig standa á að verki. Í skýrslu dómsmrh. segir:

,,Til fjölgunar stöðugilda 18 millj. kr. Stöðugildum sérstakra fíkniefnalögreglumanna var fjölgað um sjö, þannig að þrjú komu í hlut fíkniefnadeildar lögreglustjórans í Reykjavík og fjögur til embætta utan Reykjavíkur, eitt hjá sýslumanninum á Ísafirði, eitt hjá sýslumanninum á Sauðárkróki, eitt hjá sýslumanninum á Akureyri og eitt hjá sýslumanninum á Eskifirði.

Til bættrar starfsaðstöðu fíkniefnadeildar 5 millj. kr. Starfsaðstaða fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík var ófullkomin og þurfti að bæta. Af sérstakri fjárveitingu til fíkniefnamála var 5 millj. kr. varið til bættrar starfsaðstöðu fíkniefnadeildar, m.a. við að koma upp yfirheyrsluherbergjum.

Til fíkniefnastofu 2 millj. kr. en við gildistöku lögreglulaga var sérstök fíkniefnastofa sett á laggirnar við embætti ríkislögreglustjóra. Stofan hefur það hlutverk að safna upplýsingum um fíkniefnamál og vera miðlægur upplýsingaaðili um þessi efni, bæði gagnvart stjórnvöldum og í alþjóðasamskiptum.``

Ég verð að segja, hæstv. ráðherra, að þegar maður les skýrsluna sem dómsmrh. skilar Alþingi í mars með hliðsjón af greinargerð með frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð, þá hættir maður að botna í því hvað hafi áunnist í þessari samhæfingu verkefna. Þarna er fjárveiting sem ætluð er sérstaklega til svokallaðrar fíkniefnastofu sem að hluta á að sinna sömu verkefnum og áfengis- og vímuvarnaráð. Þarna hefur því eitthvað misfarist á leiðinni, upplýsingar á milli ráðuneyta eða þá markmið hæstv. heilbrrh. Ég er sannfærð um að hæstv. heilbrrh. vill gjarnan samræma verkefni þessara ráðuneyta, en það virðist þó ekki hafa gengið betur en svo að í skýrslunni má, ekki bara á þessu sviði heldur ýmsum öðrum, reka sig á að hlutverk ýmissa þeirra stofnana sem heyra undir önnur ráðuneyti sem og áfengis- og vímuvarnaráðs sem hæstv. ráðherra er að setja á laggirnar og á að kosta töluvert stangast á. Það á að kosta tæpar 30 millj. Tekjur Forvarnasjóðs eru áætlaðar 55 millj. á þessu ári. Þá á að gera ráð fyrir að áfengis- og vímuvarnaráðið verði rekið af þessum peningum skilst mér, og allt í allt er kostnaðurinn um 27 millj. kr. Á móti kemur að verið er að leggja niður áfengisvarnaráð en þar var kostnaðurinn áætlaður um 9,1 millj. kr.

(Forseti (StB): Forseti vill nú kanna hvort hv. þm. getur sætt sig við að gera hlé á ræðu sinni.)

Alveg sjálfsagt.

(Forseti (StB): Þingmaðurinn gerir þá hlé á ræðu sinni og við hefjum fund hér að nýju kl. hálfníu.)