Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 21:13:08 (7512)

1998-06-04 21:13:08# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[21:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá skýringar á því nákvæmlega hvað það var sem lá í tillögum minni hluta heilbr.- og trn. Það kom ekki fram fyrr en núna í restina og ég heyri það að í grundvallaratriðum er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sammála því að setja á laggirnar áfengis- og vímuefnaráð en telur að ráðið sé ekki rétt skipað, að þangað ættu að koma fleiri fulltrúar sveitarfélaganna og hún taldi jafnframt að inn í þennan hóp ætti að koma félagi úr frjálsum samtökum og að tóbaksvarnanefnd ætti að koma inn í áfengis- og vímuefnaráð.

Varðandi tóbaksvarnanefndina kom áðan fram í máli mínu að þeir eru í náinni samvinnu við Krabbameinsfélagið. Það sem Krabbameinsfélagið og tóbaksvarnanefnd eru að gera núna eru afar góðir hlutir sem ég tel að undir þessum kringumstæðum sé ekki rétt að hreyfa við. En ég tel vel koma til greina í framtíðinni að steypa þessu inn í áfengis- og vímuvarnaráð þegar reynsla er komin af því.

Varðandi fleiri fulltrúa frá sveitarfélögunum er þetta í fyrsta skipti sem sveitarfélögin koma jafnsterkt inn í þetta eins og gert er ráð fyrir í frv. Mér finnst því ekki mjög mikið bera á milli mín og hv. þm. þannig að ég sé ekki annað en að í stórum dráttum sé hv. þm. sammála rammalöggjöfinni. Áfengisvarnaráð, eins og það er í dag, er kosið af Alþingi. Það var eitt af því sem hv. þm. taldi jafnvel rétt. En þá eigum við ekki eins auðvelt með að stýra þessari samhæfingu eins og við getum með þeim hætti sem hér er lagt fram.