Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:00:51 (7518)

1998-06-04 22:00:51# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:00]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef orð ráðherrans fyrir því að það hafi verið gott samstarf við alla og meira samstarf en nokkru sinni áður við félagasamtök og aðra þá sem eru að vinna að þessum málum. Við því á ég engin svör, vegna þess að um það á ég engar upplýsingar nema bara orð ráðherrans, ég bara vona að það sé rétt. Hins vegar kom það fram eftir að fulltrúi stjórnarflokkanna hafði mælt fyrir nál. og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór í ræðustól og hafði sérstaklega orð á því að honum hefði fundist það kjarkmikil ræða sem fór fram miðað við þá miklu gagnrýni sem hefði komið fram í umsögnum og af hálfu þeirra sem komu á fund nefndarinnar varðandi þetta frv. Það er afskaplega erfitt að ræða svona mál þegar fyrir liggur mikil gagnrýni á frv. Því þykir ábótavant og ósjálfrátt verður umræðan ómálefnaleg þegar sagt er að það sé bara stjórnarandstaðan sem sé óbilgjörn. Ég verð að segja að mér hugnast það nú ekki að því sé haldið fram að stjórnarandstaðan vilji vísa málinu til ríkisstjórnarinnar af því það sé ekki fjölgað í nefndinni. Það er miklu meira en það enda hefur það komið fram í umræðunni í dag og kvöld. Það kom líka fram að sérstaklega hefði verið veitt 14 millj. í fræðslustarf og þá spyr ég: Er það til félagasamtaka sem hafa verið af miklum krafti en oft fjárhagslegum vanmætti að reyna að standa fyrir fræðslu- og upplýsingastarfi? Það er ágætt en ég spyr um fræðslugeirann sjálfan, um menntmrn. og grunnskólann sem á að vera með þetta eins og hvert annað verkefni innan vébanda sinna. Varðandi lögregluna geri ég eiginlega þá kröfu á hæstv. heilbrrh. að hún ætlist til þess að fjármagn sem sérstaklega er veitt til aðgerða í fíkniefnavörnum sé ekki notað í kaup á ljósritunarvélum eða tölvum sem hvort sem er þarf að kaupa einhvern tímann út af öllum verkum sem eru hjá viðkomandi embætti.