Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:32:44 (7522)

1998-06-04 22:32:44# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr hvort gerðar hafi verið kannanir um hvaða hópar eru í mestri áhættu varðandi vímuefni. Prófessor Þórólfur Þórlindsson hefur gert margar mjög merkar kannanir á þessu sviði og þar kemur margt í ljós. Það kemur í ljós að það unga fólk sem gengur vel í skóla, á trausta fjölskyldu, hefur áhuga á íþróttum er síður í áhættu. En það kemur líka í ljós að þau börn geta líka lent í þessum vanda þannig að engin bólusetning er til.

Það er nú fyrst og fremst vandinn í dag að framboðið hefur aukist gífurlega varðandi þessi efni og sölumennirnir verða æ grimmari. Við höfum mjög mörg og góð meðferðarúrræði og sagt er að það sé opnari aðgangur að meðferð á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Móðir 16 ára gamallar stúlku sagði mér frá því að dóttir hennar var búin að fá öll þau meðferðarúrræði sem hægt var að fá án árangurs hér og var á lokaðri deild ekki alls fyrir löngu. Samt sem áður kom hún að dóttur sinni þar sem hún var að hífa upp eiturlyf í gegnum glugga. Þeir gerast æðigrimmir sem selja börnunum þetta eitur og eins og hefur svo oft komið fram í umræðunni eru margir samverkandi þættir sem verða að spila saman og þá er ég að tala í þessu sambandi um löggæsluna og tollgæsluna.

Hvað aðrar þjóðir eru að gera --- ég sé að tíma mínum er að ljúka, en ég get þá komið í síðara andsvarinu að því.