Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:35:01 (7523)

1998-06-04 22:35:01# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:35]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef að sjálfsögðu heyrt og kynnt mér ýmsar af rannsóknum prófessorsins uppi í háskóla og þar hefur margt komið fram, kannski fyrst og fremst varðandi það hvað er líklegast til að koma í veg fyrir að börn og unglingar leiðist út í fíkniefnaneyslu. En það sem ég var meira að spyrja um og í raun og veru að leggja til er að gerð verði góð og rækileg könnun á þessum þekkta hóp. Hver er hann og hvaðan kemur hann? Hvað býr þarna að baki? Hversu stór hluti á t.d. rætur að rekja til geðrænna vandamála, ofbeldis o.s.frv.? Hvað er hrein og klár vanræksla? Við þurfum reynum að átta okkur á því hvað þetta er.

Það hefur komið fram að svo virðist sem framboð á fíkniefnum hafi aukist og sé jafnvel fjölbreyttara og þá spyr maður: Hvernig stendur á því? Hvaða leiðir hafa menn fundið? Ég hef oft velt því fyrir mér og langar að vita það hverjir þessir sölumenn eru. Hverjir eru þeir, hvaðan koma þeir? Eru þeir fíkniefnaneytendur sjálfir og hver fjármagnar þetta? Ljóst er að gífurlegt fjármagn liggur í þessum viðskiptum. Það getur vel verið að lögreglan viti ýmislegt um þetta og umræða í vetur leiddi það kannski í ljós. En ég veit afar lítið um þetta og það væri fróðlegt að fá að vita hvaða könnun hefur verið gerð á því, hverjir eru það sem stjórna þessum heimi. (Forseti hringir.) Ég ætla að koma síðar að þessu með meðferðarúrræðin.