Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:56:34 (7530)

1998-06-04 22:56:34# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:56]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra vísar hér til utandagskrárumræðu innan háltíma rammans, þar sem sá sem hér talar hafði fimm mínútur í inngang og tvær mínútur til að fylgja eftir. Ráðherra hafði álíka mikinn tíma. Ráðherra upplýsti svo sem ekkert nýtt vegna þess að málið er enn þá strand --- sem betur fer segi ég. Eins og menn verða daglega varir við þá er það fast sótt af íslenskum stjórnvöldum, ekki síst hæstv. utanrrh., að koma okkur inn í þetta kerfi, inn í þetta Schengen-fyrirkomulag. Ef hæstv. ráðherra telur sig hafa fengið einhvern stóra sannleika út úr þeirri utandagskrárumræðu, þá hefur það verið einhver allt önnur umræða en ég var þátttakandi í.

Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að miðað við upplýsingar um t.d. hvernig brugðist hefur verið við eftirliti sérstakrar stofnunar innan Schengen til þess að fylgjast með og bæta úr því kerfi sem þar er uppi, m.a. að því er varðar persónuskráningar og eftirlit með fólki, þá er nú ekki á mikið að treysta í sambandi við það kerfi. Þetta mál er að sjálfsögðu það viðamikið og flókið að það verður ekki leyst hér í ræðustól á einni kvöldstund. Það krefst þess að hæstv. ráðherrar sem og hv. þm. hafi fyrir því að setja sig inn í þennan samning upp á 142 greinar á 100 blaðsíðum og þeim 1.600 síðum af reglugerðum sem fylgja samningnum til þess að átta sig á því sem þarna er á ferðinni., sértæka úttekt óvilhallra manna, óháðra aðila, m.a. á þeim vanda sem hér er ræddur á þessu kvöldi, þ.e. ólöglegur innflutningur og aukin dreifing fíkniefna í landinu.