1998-06-04 23:29:47# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna undirtektum sem koma mér sannarlega ekki á óvart frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í þessu máli. Ég held að sú umræða sé mjög þýðingarmikil sem fer hér fram sem sýnir mjög breiða samstöðu manna í þinginu og undirtektir við það að gripið verði til aðgerða svo eftir verði tekið gagnvart breskum stjórnvöldum. Hv. þm. nefndi að það áraði ekki betur í ranni hjá verkamannastjórninni bresku en hjá íhaldsstjórninni sem hún leysti af hólmi og það er áreiðanlega rétt mat. Hins vegar vil ég geta þess að látið var skína í annað fyrir tæpu ári eða skömmu eftir stjórnarskiptin sem vakti vonir um betri tíð í þessum efnum. En því miður virðist sem efndirnar séu algerlega í öfugu hlutfalli og er það alveg sérstakt áhyggjuefni.

Vissulega hefur verið reynt að knýja á um að Bretar gerist aðilar að skuldbindandi yfirlýsingum OSPAR-samningsins. Innan hornklofa standa núna hugmyndir að orðalagi í lokasamþykkt ráðstefnunnar í Lissabon um þessi efni, um þennan texta sem varðar hversu skuldbindandi þær yfirlýsingar verða sem þar verða gefnar. Á meðan við hv. þm. eigum þessi orðaskipti hér hafa þau tíðindi gerst að starfandi hæstv. umhvrh. er kominn í salinn og vænti ég að forseti leyfi mér að nota rétt minn á eftir til þess að eiga orðastað við hann. En ég vildi koma sem sagt þessum undirtektum, þökkum, á framfæri við hv. þm. og staðfesta það samkvæmt upplýsingum mínum sem hann hélt fram um lítið bætt veðurlag, ef nokkuð, í ranni breskra stjórnvalda.