1998-06-04 23:32:20# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að mikilvægt er að breið samstaða er um þetta í þinginu. Það er tæpast nokkur þingmaður sem andmælir tillögunni sem hér er lögð fram. En hv. þm. bendir líka á að við höfum e.t.v. fetað þessa slóð á enda. Þetta er í þriðja skipti sem við förum þessa leið og hún leiðir okkur ekki á neinn þann áfangastað sem máli skiptir. Við höfum sent bréf, farið til fundar og ályktað hér í þinginu. Ríkisstjórnin, núverandi og fyrrverandi, hafa mótmælt harkalega.

Ekkert gerist. Og þá hljótum við, eins og hv. þm. reifaði hérna áðan, að íhuga hvort ekki eigi að grípa til sterkari ráða. Hv. þm. vísaði til þess sem ég benti hérna á, að það virtist því miður litlu skipta hvort Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn væru við stjórn. Fyrir mig eru þetta auðvitað þeim mun sárari vonbrigði. Ég hafði áður rætt við þann skuggaráðherra Verkamannaflokksins sem þá var, Chris Smith, sem ég held að sé núna menningarmálaráðherra í ríkisstjórninni. Hann tjáði mér ekki aðeins að þeir hefðu allt aðra afstöðu í hans flokki en í ríkisstjórninni, heldur sýndi hann mér bókstaflega skjalfærða stefnu sem flokkurinn hafði.

Eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér áðan þá virtist sem á bernskudögum núv. ríkisstjórnar Verkamannaflokksins þá viðraði öðruvísi heldur en vindar leika núna. Því miður hefur eitthvað það gerst sem leitt hefur til þess að afstaða þeirra hefur breyst. Það sem auðvitað er miklu verra er að þeir hafa ekki aðeins haldið uppteknum hætti heldur byrjað að losa þetta manngerða geislavirka efni, sem enginn veit hvernig artar sig þegar fram í sækir.