1998-06-04 23:39:21# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:39]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir taka undir efni þessarar tillögu og fagna því að umhvn. skuli hafa átt frumkvæði að henni. Ég verð að segja að þetta er eitt af þeim málum sem valda mér hvað mestum áhyggjum um þessar mundir og hefur reyndar lengi gert. Það er auðvitað alveg ótrúlegt að horfa upp á þessa hegðun Breta og vert að velta því mjög alvarlega fyrir sér hvað hægt er að gera til að koma fyrir þá vitinu. Þetta er náttúrlega ábyrgðarleysi gagnvart öllum þeirra næstu nágrönnum og þjóðum sem búa við Atlantshafið. Eins og fram hefur komið í rannsóknum þá dreifast þessi geislavirku efni og hafa þegar fundist við strendur Noregs. Auðvitað er þetta gríðarlegt áhyggjuefni og maður spyr sig: Hvernig stendur á því að bresk stjórnvöld haga sér svona og hafa þessa stefnu? Hér kom fram, eins og við vitum, að mikill kostnaður fylgir því að endurvinna þessi efni eða koma þeim varanlega fyrir. Það er bara nokkuð sem þeir sem framleiða raforku með kjarnorku, eða smíða kjarnorkuvopn verða að gjöra svo vel að taka á sig. Það er algjört ábyrgðarleysi að haga sér eins og þeir gera.

Ég hafði nú kannski ekki jafnmikla trú á stjórn Verkamannaflokksins og ýmsir þeir sem hér hafa talað í kvöld, en það eru samt sem áður mikil vonbrigði að stjórnarskiptin skuli ekki hafa leitt til stefnubreytingar í þessu máli. Og mér þætti fróðlegt að heyra það frá þeim sem hér eru staddir í þingsalnum, t.d. varðandi afstöðu Íra sem eru þarna í næsta nágrenni, mér finnst heyrast ótrúlega lítið frá þeim. Eru þeir að einhverju leyti þátttakendur í þessu eða er þetta andvaraleysi af þeirra hálfu? Það væri fróðlegt að heyra hvort menn hafa lesið eitthvað um þetta.

Ég vil taka undir þá hugmynd að gera eitthvað mjög róttækt í þessum málum. Í fyrsta lagi þá held ég að við þingmenn ættum að nota hvert tækifæri sem okkur gefst til þess að ræða við breska þingmenn. Auðvitað er fjöldi íslenskra þingmanna í ýmiss konar alþjóðastarfi þar sem breskir þingmenn eru einnig. Ég held að þessar sendinefndir Íslands ættu að ganga í það að leita eftir formlegum fundum, fá hreinlega fund með breskum þingmönnum, hvort sem það er nú í NATO eða VES eða Evrópuráðinu eða hvar sem er, og ræða þessi mál við þá. Ég átta mig ekki á því að hve miklu leyti breskir þingmenn gera sér grein fyrir þeim miklu áhyggjum sem við hér á norðurslóðum höfum vegna þessara endurvinnslustöðva þeirra.

Í öðru lagi dettur mér líka í hug að full ástæða væri til þess að reyna að virkja íbúa Íslands og íbúa Norðurlandanna til þess að herja á stjórnvöld í Bretlandi með skeytasendingum og bréfaskriftum og hverju því sem hægt er að láta sér detta í hug svo þeir átti sig á því að andstaðan og óttinn eru mikil. Við skulum þó ekki gleyma því að ýmsir fleiri koma nálægt kjarnorku, eins og t.d. Svíar. Það hafa lengi staðið miklar deilur, m.a. milli Dana og Svía út af kjarnorkuverinu í Barsebäck, sem mér skilst að standi til að loka.

Í þriðja lagi er auðvitað það sem snýr beint að stjórnvöldum. Nýlega voru sendiherrar Bretlands og Frakkalands kallaði í utanrrn. til að taka þar við mótmælum íslenskra stjórnvalda út af flutningi á geislavirkum úrgangi frá Austur-Evrópu, Rússlandi held ég að það hafi verið. Út af fyrir sig er það gott og þær samþykktir sem ráðherrar Norðurlandanna hafa gert í sameiningu. Hins vegar er eins og ekkert hríni á Bretum. Þeir hlusta einfaldlega ekki. Það vekur þá spurningu hvort hægt væri að fá alþjóðasamfélagið inn í þessa vinnu og að Íslendingar beri fram tillögur í þeim alþjóðastofnunum þar sem fjallað er um umhverfismál. Víða er fjallað um umhverfismál hjá þessum stofnunum. Væri mögulegt að koma með beinar tillögur um að sett verði bann á þessar endurvinnslustöðvar Breta?

Nú verð ég að viðurkenna það að ég er ekki nógu fróð um endurvinnslustöðvar annars staðar í Evrópu. Við vitum það auðvitað að öll þessi mál eru í hörmulegu ásigkomulagi í Rússlandi og eru Norðmenn og fleiri að gera samninga um fjárframlög og tæknilega aðstoð til þess að reyna að taka á þeim stórhættulegu aðstæðum sem þar eru og talsvert nálægt okkur. Ég vil taka undir það, hæstv. forseti, að við þurfum að grípa til allra þeirra ráða sem við teljum geta skilað árangri, beita okkur alls staðar þar sem við getum, því að þetta er auðvitað óskaplegt áhyggjuefni.

Um leið og fjölmiðlar úti um heim færu að fjalla um geislavirk efni hér í hafinu í kringum Ísland þá mættum við biðja guð að hjálpa okkur. Ef það kæmist í hámæli að fiskur héðan væri syndandi um á svæðum þar sem geislavirk efni er að finna þá mættum við svo sannarlega biðja guð að hjálpa okkur. Þá væri nú illa komið fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar.

Hér er því afar brýnt að taka fast á. Ég ítreka það að lokum, hæstv. forseti, að ég fagna mjög þessu frumkvæði umhvn. og vona að Alþingi fylgi því formlega eftir að koma þessari ályktun til breskra stjórnvalda. Það er auðvitað ekki nóg að við ályktum heldur verður að koma þessari ályktun til þeirra aðila sem um þessi mál fjalla.

Spurningin er hvort við ættum ekki hreinlega að bjóða breska umhvrh. hingað og fá hann hingað til umræðna. Hann fengi þá að kynnast því hversu alvarlegum augum við lítum þetta mál.