1998-06-04 23:47:24# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:47]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka orð hv. þm. og ábendingar og nýjar hugmyndir um viðbrögð. Varðandi fyrirspurn hennar eða íhugun um stöðu Íra og írskra þingmanna í sambandi við endurvinnslustöðvar á Stóra-Bretlandi get ég upplýst að Írar hafa haft miklar áhyggjur af þessum málum og þessi mál hafa verið þar til umræðu um langt skeið og er það ekki undrunarefni þar sem losunin frá Sellafield kemur í írska hafið og veldur þar tilfinnanlegri mengun og af margvíslegu tagi. Þetta mál hefur verið á dagskrá síðan snemma á sjötta áratugnum þegar þessi starfsemi fór mjög vaxandi og mjög alvarleg slys urðu m.a. í endurvinnslustöð 1957 sem var auðvitað haldið leyndu eins og öðru í kringum þennan kjarnorkuiðnað og endurvinnsluiðnað.

Við á Alþingi erum mörg þátttakendur í Globe-sam\-tök\-unum og alveg sérstaklega þingmenn í umhvn. þingsins hafa verið þátttakendur þar og notið stuðnings Alþingis til að sækja fundi og ráðstefnur á vegum Globe-samtakanna sem eru samtök Evrópuþingmanna sem hafa áhuga á að leggja sig fram í þágu umhverfismála. Þar hafa verið sambönd við írska þingmenn og það var haldin sérstök ráðstefna fyrir einu og hálfu ári, ef ég man rétt, sem spratt einmitt upp úr Globe-samstarfinu. Á þá ráðstefnu komu einhverjir írskir þingmenn, ætluðu að koma fleiri en af sérstökum ástæðum var þátttaka þeirra ekki með þeim hætti sem vænst hafði verið en áhuginn er til staðar og samstarfið er til staðar. Við höfum verið að reyna að nota vettvang Globe-samtakanna ásamt öðrum vettvangi til að koma áhyggjum okkar Íslendinga í þessu sambandi á framfæri.