Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 10:33:12 (7571)

1998-06-05 10:33:12# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[10:33]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Tillögu til þingsályktunar um skipan rannsóknarnefndar, samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar, til að fjalla um málefni Landsbanka Íslands hf. og samskipti framkvæmdarvalds og Alþingis er ekki hægt að afgreiða sem einhvern misskilning eða að flutningur tillögunnar sé í hæsta máta óeðlilegur eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra gerði í ræðu sinni hér áðan og í viðtali við dagblaðið Dag í gær. Þaðan af síður er hægt að afgreiða tillöguflutninginn sem yfirklór stjórnarandstæðinga sem sjálfsagt sé að leyfa eina umræðu um til þægðar stjórnarandstöðunni, eins og hv. þm., formaður þingflokks Framsóknarflokksins, orðaði það í sama dagblaði. Það er reyndar umhugsunarvert fyrir hv. þm. og þjóðina hversu mikil lítilsvirðing á Alþingi felst í svörum þessara tveggja hv. þm.

Heimild til að setja á laggirnar þingkjörna rannsóknarnefnd byggir á 39. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að Alþingi geti skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál sem varða almenning.

Það á að heyrir til undantekninga að þessi heimild sé notuð og þá aðeins þegar um er að ræða bæði sérstök og alvarleg mál. Mál sem snúast um grundvallaratriði eins og traust, trúnað og virðingu æðstu stofnana þjóðfélagsins, Alþingis og Stjórnarráðs. Því er ábyrgðarlaust að meðhöndla slíkan tillöguflutning eins og hæstv. viðskrh. og hv. þingflokksformaður Framsfl. hafa gert í fjölmiðlum.

Á undanförnum vikum hafa verið bornar fram mjög alvarlegar ásakanir sem varða starfsemi Alþingis og stofnun sem heyrir undir Alþingi, alvarlegar ásakanir á nokkra hv. þm., hæstv. ráðherra og á starfsemi og stjórnendur einnar stærstu og fram til þessa virtustu fjármálastofnunar landsins. Það er því í hæsta máta eðlilegt að tillaga þessi sé fram komin. Virðing Alþingis er í húfi og útilokað að ljúka þingstörfum án þess að koma rannsókn þessara mála í ákveðinn farveg ef við ætlum okkur að vinna aftur tiltrú þjóðarinnar á störfum Alþingis og stofnana þess. Sú tiltrú hefur nú þegar beðið verulegan skaða.

Hæstv. viðskrh. hefur sagt það alvarlegt af stjórnarandstöðunni að leggja fram tillögu um þingkjörna rannsóknarnefnd þar sem okkur eigi að vera það fullljóst að svo kallað Lindarmál sé þegar í rannsókn hjá opinberum aðilum og hv. formaður þingflokks Framsfl. hefur tekið í sama streng.

Vissulega ber að fagna því að loks skuli farið að rannsaka þetta sérstaka mál, tveimur árum eftir að Ríkisendurskoðun benti á að um sakhæft athæfi gæti hafa verið að ræða. Betra er seint en aldrei. Þó eru aðrir þættir í Lindarmálinu sem ekki falla undir rannsókn þá sem hæstv. ráðherra vísar til. Það eru samskipti ríkisstjórnar og Alþingis og hugsanleg pólitísk hagsmunatengsl. Það er nauðsynlegt að fá á hreint hvort ríkisstjórnin hæstv. hafi viljandi leynt Alþingi upplýsingum um gífurlegt tap Lindar þegar spurt var um málið í sölum Alþingis fyrir tveimur árum. Það er margt sem bendir til að hæstv. ráðherra hafi kosið að veita ekki fullnægjandi svör við þeim spurningum sem þá var beint til hans.

Vissulega er rétt að um var að ræða óundirbúna fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þrátt fyrir það er erfitt að trúa því, sem við hefur verið borið, að hæstv. viðskrh. hafi ekki á þessum tíma munað eftir staðreyndum sem fram komu í svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar tæpum tveimur mánuðum eftir að hann fékk hana í hendur. Innihald skýrslunnar er þess efnis að enginn les hana kæruleysislega og hendir frá sér eins og lélegum reyfara sem ekkert skilur eftir. Hver var þá raunveruleg ástæða þess að ráðherra greindi ekki skýrt frá málefnum Lindar, tapi sem átti sér þó nokkurn aðdraganda og endurskoðendur höfðu bent á hvert stefndi?

Á blaðamannafundi sem haldinn var á dögunum var ekki annað hægt að skilja á máli Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi formanns bankaráðs Landsbankans, en að allir yfirmenn bankamála hafi þekkt málið vel. Kjartan gat þess að haldnir hefðu verið samráðsfundir með formanni bankaráðsins, formanni bankaeftirlitsins og ráðuneytisstjóra viðskrn., sem í dag er reyndar bankastjóri Landsbankans. Ef ráðherra hefur ekki verið upplýstur um hvert stefndi á þessum tíma þá hlýt ég að draga í efa að formaður bankaeftirlitsins sé starfinu vaxinn.

Hins vegar er það spurning hversu miklar upplýsingar hæstv. viðskrh. hefur talið sig geta veitt Alþingi í svari við óundirbúinni fyrirspurn. Hafi hæstv. ráðherra ekki talið sig geta veitt Alþingi fullnægjandi upplýsingar við fyrirspurninni, þá hlýtur lágmarkskrafan að vera að hann gerði grein fyrir því og gæfi Alþingi fullnægjandi skýringar, t.d. með því að afhenda skýrslu um málið. Það gerði hann hins vegar ekki. Við hljótum því að álykta að það hafi beinlínis verið ákvörðun hæstv. ráðherra, og þá í samráði við ríkisstjórnina hæstv. eða hæstv. forsrh., að halda þessum upplýsingum frá Alþingi.

Við hljótum að fara fram á að hið sanna komi í ljós og fá að vita hvort, eins og gefið hefur verið í skyn, pólitísk tengsl eða pólitískir hagsmunir hafi ráðið því að Alþingi fékk ekki umbeðnar upplýsingar á sínum tíma og ekki skyldi ráðist í rannsókn á málefnum Lindar fyrr en nú. Samskipti framkvæmdarvaldsins og Alþingis og meint hagsmunatengsl eru ekki léttvæg mál en þau lenda þó varla á borðum ríkissaksóknara til rannsóknar. Nefndin sem þingsályktunartillaga þessi gerir ráð fyrir að verði skipuð, getur hins vegar skoðað þessa þætti Lindarmálsins sem og aðra því tengda sem nauðsynlegt er að upplýsa, í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu innan þings og utan.

15. apríl sl. var á Alþingi rætt um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landsbanka Íslands. Skýrslan sem unnin var að beiðni Landsbankans leiddi í ljós að upplýsingar sem hæstv. viðskrh. hafði fengið og látið Alþingi í té, um kostnað vegna veiðiferða yfirmanna bankans og gesta þeirra, voru rangar. Skýrslan leiddi einnig í ljós að annar risnukostnaður bankans var óheyrilega hár. Í kjölfar þess að þessar upplýsingar birtust sögðu allir þrír yfirmenn bankans af sér.

Í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar er að finna mjög alvarlegar athugasemdir um ýmsa þætti í rekstri Landsbankans, sérstaklega hvað varðar kjör bankastjóranna og meðferð bókhalds. Einn fyrrv. bankastjóri Landsbankans, sem jafnframt er fyrrv. alþingismaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hefur ásakað nokkra hv. alþingismenn og hæstv. ráðherra um alvarleg misferli í starfi. Hann hefur og sett fram mjög alvarlegar ásakanir er varða starfsemi Ríkisendurskoðunar, vefengt niðurstöður úr skýrslum hennar og dregið í efa hæfni starfsmanna stofnunarinnar.

Það er fráleitt að Alþingi geti látið þessar ásakanir sem vind um eyru þjóta. Starfsheiður Alþingis og Ríkisendurskoðunar er í húfi. Við hljótum því að gera kröfu til þess að rannsóknarnefndin sem skipuð verður, ef tillaga okkar verður samþykkt, fari rækilega ofan í alla þætti þessa máls og standi fyrir ítarlegri skoðun á rekstri Landsbankans sem nái yfir lengri tíma og fleiri þætti en þegar hafa verið skoðaðir, m.a. fullyrðingar um óeðlilega afgreiðslu mála innan bankans vegna pólitískra tengsla og hagsmuna. Þar verður hver að axla þá ábyrgð sem honum ber. Farið verði ofan í þær ásakanir sem bornar hafa verið á Ríkisendurskoðun og þá sérstaklega á yfirmann stofnunarinnar, Sigurð Þórðarson, sem hefur mátt þola ótrúlegar árásir á mannorð sitt og starfsheiður á undanförnum vikum, án þess að Alþingi aðhefðist neitt í málinu, a.m.k. ekki opinberlega.

Það verður æ ljósara að nauðsynlegt er að koma reglu á meðhöndlun Alþingis á skýrslum Ríkisendurskoðunar. Umræðan um skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Landsbankans er skýrt dæmi um það hvernig á ekki á að standa að málum. Umræðan hófst tveimur til þremur klukkustundum eftir að skýrslan barst okkur í hendur. Hv. þm. höfðu varla haft tíma til að kynna sér innihald hennar, hvað þá að nálgast svör við þeim spurningum sem vöknuðu við lesturinn. Öll umræðan bar þess merki.

Eftir umræðuna var skýrslan lögð til hliðar og þeim ásökunum sem beinst hafa að Ríkisendurskoðun varðandi innihald hennar hefur enn ekki verið svarað af okkar hálfu. Slík vinnubrögð eru Alþingi ekki sæmandi.

Virðulegi forseti. Hér gefst ekki tími til að fara yfir alla þá þætti sem ég tel rétt að rannsóknarnefnd skipuð fimm alþingismönnum, samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar, fari yfir. Tillagan gerir ráð fyrir að tekið verði á þremur meginþáttum eins og fram kemur í texta hennar.

Ég tel að við höfum sýnt fram á það með rökum að Alþingi geti ekki, sóma síns vegna, lokið störfum án þess að setja öll þessi mál í skýran farveg þar sem unnið verði að skoðun þeirra nú í sumar og þau tekin til umræðu þegar Alþingi kemur saman í haust. Ríkisendurskoðun mun í sumar skila skýrslum um Seðlabankann og Búnaðarbankann. Niðurstaða þeirra liggur þá einnig fyrir meðan nefndin er að störfum.

Ég vænti þess að þingsályktunartillaga okkar verði samþykkt af Alþingi í dag og nefndin skipuð áður en við höldum heim. Ef það gerist ekki mun traust og virðing Alþingis bíða hnekki. Því megum við undir engum kringumstæðum samþykkja tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hér hefur verið flutt af hv. þingmönnum, formönnum þingflokks Framsfl. og þingflokks Sjálfstfl.