Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:04:13 (7574)

1998-06-05 11:04:13# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:04]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sú fullyrðing hæstv. viðskrh. er fráleit að skipun rannsóknarnefndar eins og lögð er til sé óþörf. Það eitt sýnir að hæstv. ráðherra ber lítið skynbragð á þær alvarlegu ávirðingar, spillingu og jafnvel saknæm athæfi sem tengjast Landsbankamálinu. Það sýnir líka að hæstv. ráðherra gefur ekki mikið fyrir eftirlitshlutverk Alþingis, sem er alvarlegt, herra forseti.

Jafnvel þó einn þeirra þátta sem rannsóknarnefndin á að hafa með höndum, Lindarmálið, sé hjá ríkissaksóknara þá er málið þannig vaxið að það er eðlilegt og rétt að það sé einnig sérstök rannsóknarnefnd á vegum þingsins sem kanni það til hlítar. Athugun ríkissaksóknara mun væntanlega fyrst og fremst beinast að því hvort um saknæm athæfi hafi verið að ræða sem brjóti í bága við refsilöggjöfina. Hún beinist ekki að því hvort hæstv. ráðherra hafi gefið Alþingi rangar upplýsingar eða leynt það upplýsingum í Lindarmálinu. Jafnvel þó bankaráðið hafi ekki gerst brotlegt við lög sem gefi tilefni til ákæru, þá kynni athugun rannsóknarnefndar að leiða til þeirrar niðurstöðu að bankaráðið hafi ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni fullnægjandi. Jafnvel þó ríkissaksóknari komist að því að ekki sé tilefni til ákæru á hæstv. ráðherra þó hann hafi ákveðið að Lindarmálið kæmi sér ekki við árið 1996 þegar bankaráðið óskaði samstarfs við hæstv. ráðherra um það álit Ríkisendurskoðunar að tilefni gæti verið til opinberrar rannsóknar gæti rannsóknarnefnd gert alvarlegar athugasemdir við sinnuleysi ráðherrans þó að það varði ekki við hegningarlög. Spyrja má líka: Er þjóðinni bjóðandi að sitja uppi með ráðherra sem fer með yfirstjórn bankamála ásamt bankaráði en neiti samráði við bankaráðið um hvort efnt skuli til opinberrar rannsóknar þegar bankinn hafði tapað 700 millj. á fyrirtækinu? Ráðherrann segir síðan að eftir það hafi hann eða ráðuneytið ekkert fylgst með málinu.

Ég segi, herra forseti, að slíkt kæruleysi eitt og sér er mjög ámælisvert og sýnir skilningsleysi ráðherrans á hlutverki sínu sem yfirmanns bankamála. Það er því fyrirsláttur hjá hæstv. ráðherra að segja rannsóknarnefndina óþarfa. Hæstv. ráðherra þorir einfaldlega ekki að leggja gerðir sínar undir rannsóknarnefnd þingsins en leitar nú skjóls undir verndarvæng hæstv. forsrh. sem hefur ásamt samráðherrum sínum ákveðið að bera sameiginlega ábyrgð á gerðum hæstv. viðskrh.

Rannsóknarnefnd á líka að fjalla um önnur Landsbankamál sem ríkissaksóknari gerir ekki. Það stendur t.d. upp á Alþingi að láta fara fram sjálfstæða rannsókn á samskiptum ráðherrans við þingið þar sem ráðherrann hefur flutt þinginu rangar eða villandi upplýsingar eða leynt það upplýsingum. Svör ráðherrans af hverju hann gerði það standa á brauðfótum. Allar skýringar vantar líka á því hver ber ábyrgð á því að haldið var leyndum upplýsingum um raunverulegan kostnað við laxveiðar Landsbankans. Ráðherrann hefur komið sér hjá að svara því, aðeins gefið skýringu á því hvað var vantalið. Það er ófullnægjandi, herra forseti, og ég fer fram á að það verði rannsakað frekar.

Ábyrgð og eftirlitsskyldu bankaráðs og annarra eftirlitsaðila bankans á þeirri spillingu og óráðsíu sem komið hefur upp í bankanum þarf rannsóknarnefnd líka að kanna. Enn er óútskýrður risnukostnaður einstakra bankastjóra og skattaleg álitaefni því tengt. Rannsaka þarf líka hvort bankastjórarnir hafi verið beittir þrýstingi af hálfu Eimskips til að knýja Samskip í gjaldþrot. Einnig hvort stjórnmálaflokkar eða samtök hafa notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu í bankanum, í hverju það var fólgið og hverjir stóðu að þeirri ákvörðun.

Ég spyr líka ráðherrann og óska svara við því hvort hann er tilbúinn til þess að láta óháða aðila rannsaka 14 milljarða útlánatöp Landsbankans, eða þarf Alþingi að beita sér fyrir því að það verði gert? Það er nauðsynlegt að fram fari rannsókn óháðra aðila á útlánatöpum bankanna, ekki síst Landsbankans, og ég spyr: Er ráðherrann tilbúinn að beita sér fyrir því eða þarf til þess atbeina þingsins?

Tillögu um rannsóknarnefnd þarf að bera undir atkvæði og verði hún felld er ærið tilefni til vantrausts á alla ríkisstjórnina. Frávísunartillaga sú sem nú var lögð á borð þingmanna sýnir að ríkisstjórnin og formenn þingflokka stjórnarliðsins þora ekki að láta þingmenn sína taka efnislega afstöðu til rannsóknarnefndar. Því hljóta þingmenn stjórnarflokkanna að mótmæla að mega ekki taka efnislega afstöðu til málsins og verða þar með hluti af þeirri samtryggingu sem á sér stað í þessu máli.