Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:25:15 (7578)

1998-06-05 11:25:15# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:25]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þrír bankastjórar stærsta banka landsins sögðu af sér fyrir nokkrum vikum vegna þess að þeir gáfu ráðherra rangar upplýsingar sem hann síðan færði Alþingi. Jafnframt hefur komið í ljós ótrúlegur fjáraustur bankastjóranna, m.a. í ferðakostnað, risnu og laxveiði. Þar að auki hefur verið sýnt fram á beinan hagsmunaárekstur hjá einum bankastjóranna.

Í umræðum um þau mál vakti hæstv. forsrh. athygli okkar á málefnum Lindar og spurði hvers vegna alþingismenn hefðu ekki farið betur ofan í þau mál. Við upprifjun á því máli kom í ljós að fyrir lágu tveggja ára gamlar skýrslur þar sem m.a. Ríkisendurskoðun benti á að hugsanlega hefði verið framið saknæmt athæfi í þessu fyrirtæki Landsbankans. Er að furða að við spyrjum hver beri ábyrgðina? Hvernig stendur á því að bankastjórn, bankaráð, bankaeftirlit, Alþingi og ráðherrar gerðu ekkert í málinu? Af hverju var málinu ekki fylgt eftir?

Ég vil ekki undanskilja okkur sem hér erum. Við, eins og hæstv. forsrh., lásum um þessi mál á sínum tíma og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði um það. Við fygldum málinu hins vegar ekki eftir.

Nóg um það en þeir sem eru yfir þessum málum bera ábyrgðina. Því er sú tillaga sem hér liggur fyrir komin fram. Við erum að ræða um tap upp á mörg hundruð milljónir, sem er reyndar aðeins örlítill hluti af gífurlegum útlánatöpum bankanna. Vissulega væri vert að fara rækilega ofan í fleira í því sambandi. Við erum aftur á móti að tala um samskipti Alþingis og ráðherra og þetta þarf allt að kanna mjög rækilega.

Ég vil því harma að meiri hlutinn skuli ætla að vísa þessari tillögu frá. Rétt er að það er afar sjaldgæft að 39. gr. stjórnarskrárinnar sé beitt en það hefði áreiðanlega oft verið ástæða til. Nú er tími til kominn að Alþingi beiti sér meira í slíkum málum og efli eftirlitshlutverk sitt. Í þessu tilviki sérstaklega, hæstv. forseti, vill svo til að sú ágæta stofnun, Ríkisendurskoðun, sem við höfum borið fullt traust til, hefur dregist inn í þetta mál. Þar af leiðandi lít ég svo á að enginn sé færari og engum beri meiri skylda til að kanna þessi mál rækilega en Alþingi. Alþingi hefur það hlutverk í stjórnkerfi okkar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ábyrgðin á því er Alþingis og henni eigum við ekki að vísa frá okkur. Hér er um það að ræða að farið verði skipulega yfir öll þessi mál.

Ætlunin er ekki að fella dóm. Það er ekki hlutverk rannsóknarnefndar að fella dóm, heldur fyrst og fremst að draga staðreyndir málsins fram í dagsljósið. Ég held að við hljótum að geta treyst alþingismönnum til þess. Ég vísa því á bug að ekki sé hægt að treysta alþingismönnum til slíkra starfa þó að menn hafi sínar skoðanir. Ég þekki fjölmörg dæmi þess úr störfum nefnda að þó menn hafi ýmsar skoðanir á málum í upphafi þá setjast menn yfir rannsókn málsins og kalla fram allar nauðsynlegar upplýsingar. Síðan skila menn áliti sínu þegar sú skoðun hefur farið fram.

Auðvitað eru alþingismenn færir um slíka skoðun. Ef þeir eru það ekki þá er eitthvað mjög mikið að í þessari stofnun. Ég vísa þessu á bug, hæstv. forseti. Hlutverk Alþingis er og verður að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Ég skora á meiri hlutann að draga frávísunartillögu sína til baka þannig að við notum tækifærið til að brjóta í blað í sögu þingsins og fáum góða athugun á þessu máli. Ég tel að við þurfum að leita eftir öllum þeim upplýsingum sem við þurfum að fá. Ég held að það verði okkur til mikils vansa ef svo fer ekki.

Fari svo að frávísunartillagan verði samþykkt þá eigum við alþingismenn ekki annarra kosta völ en að halda vöku okkar í sumar og taka málin aftur upp í haust. En enn og aftur skora ég á meiri hlutann að draga þessa tillögu til baka.