Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:37:07 (7581)

1998-06-05 11:37:07# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í mínum huga eru aðalatriði þessa mál eftirfarandi:

Komið hefur fram óstjórn og eyðslusemi í yfirstjórn stærsta banka landsins sem leiddi til þess að allir bankastjórarnir sáu sig knúna til að segja af sér. Hæstv. viðskrh. Finnur Ingólfsson ber stjórnskipulega ábyrgð á því, samkvæmt lögum um ráðherra og lögum um þingsköp, að hafa veitt Alþingi rangar upplýsingar, þó að þær upplýsingar kæmu að vísu frá Landsbanka Íslands. Sami hæstv. ráðherra verður síðar ber að því að veita Alþingi algjörlega ófullnægjandi svör við fyrirspurn 29. mars 1996 og að leyna upplýsingum. Það er af og frá að greinargerð sú, sem viðskrh. hefur pantað frá tveimur lögfræðingum, fríi hæstv. ráðherra. Réttur Alþingis til upplýsinga er mjög sterkur og lögfræðingunum láist að skoða málið í því ljósi.

Ábyrgð Framsfl. í þessu máli er mikil. Framkvæmdastjóri Lindar sem ber ábyrgð á tapi verulegra fjármuna er yfirlýstur framsóknarmaður og handgenginn forustu flokksins. Hann var engu að síður ráðinn af hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni til sérstakra starfa í utanrrn. nokkrum vikum eftir að hæstv. ráðherra fékk það húsbóndavald eða um svipað leyti og rausnarlegur starfslokasamningur fyrri vinnuveitanda rann út. Það er von að hæstv. utanrrh. sé órór.

Ábyrgð Sjálfstfl. í þessu máli er mikil. Formaður bankaráðs Landsbankans, þann tíma sem þessi mál voru aðallega uppi og fulltrúi í bankaráðinu enn, er Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl. Komið hefur í ljós að Davíð Oddsson hæstv. forsrh. hlutaðist til um uppsögn Sverris Hermannssonar. Það vekur spurningu um hvort það sé í verkahring forsrh. og hvernig verkaskipting sé í þessari ríkisstjórn.

Fleira mætti telja, herra forseti, en ég læt þetta duga. Þetta mál þarf og á að rannsaka og upplýsa til fulls ábyrgð einstakra aðila, ráðherra, bankaráðs og hlutverk stofnana eins og Ríkisendurskoðunar og bankaeftirlits. Alþingi eða stjórnarandstaðan á Alþingi, fjölmiðlar og almenningur í landinu mega ekki bregðst skyldu sinni. Tillaga um almenna rannsókn á vegum Alþingis er eðlileg og sjálfsögð. Tilburðir hæstv. ráðherra til að skjóta sér á bak við opinbera rannsókn á afmörkuðum þáttum málsins eru barnalegir.

Alls staðar í þjóðþingum í kringum okkur eru slíkar rannsóknarnefndir skipaðar til að rannsaka hina pólitísku hluta máls. Það er nánast reglan en ekki undantekning. Þar er ekki verið að hlutast til um hlutverk dómstóla. Þar eru rannsakaðir þeir þættir málsins sem hin opinbera rannsókn tekur ekki til. Eru menn þá svona vanþróaðir í Danmörku, í Svíþjóð, í Bandaríkjunum, á Bretlandi, í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi, í Frakklandi, þar sem svona opinberar, sérstakar rannsóknarnefndir eru alsiða, reglan en ekki undantekningin?

Nei, andstaða hæstv. ráðherra við rannsókn er ekkert annað en tilraun til yfirhylmingar. Sú yfirhylming mun ekki takast.