Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:40:43 (7582)

1998-06-05 11:40:43# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., VS
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:40]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Nú þegar komið er undir lok þessarar umræðu er satt að segja nokkuð erfitt að átta sig á aðalatriðum málsins eftir að hafa hlustað hér á hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Ég tek undir það að það er alvarlegt mál þegar miklir fjármunir tapast eins og í tilfelli Lindar. Það er enginn að réttlæta að þessi fjármunir hafa tapast. Það gerum við stjórnarsinnar ekki.

Við erum hins vegar þeirrar skoðunar að í þessu landi höfum við sjálfstæða stofnun sem heitir Ríkisendurskoðun sem hafi það hlutverk að rannsaka mál eins og þetta. Hún hefur rannsakað málefni Landsbankans sem varð til þess að bankastjórarnir sögðu af sér.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði í ræðu sinni að það hefðu verið viðhafðar ótrúlegar árásir á Ríkisendurskoðun í þjóðfélaginu. Samt sem áður treystir hún ekki þessari stofnun til þess að rannsaka þetta mál og leggur því fram sérstaka þáltill. um að þetta skuli gert af hálfu alþingismanna. Það finnst mér alvarlegt mál.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði að sér væri misboðið með þessari umræðu. Ég get sagt það líka að að mörgu leyti er mér misboðið með þessari umræðu. Allt málið er í farvegi. Það á að rannsaka það og það verður rannsakað. Því erum við hlynnt sem skipum þingflokka stjórnarflokkanna.

En hver hefur framgangur stjórnarandstöðunnar verið í þessu máli? Hún byrjar á að tala um að leggja fram vantraust. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði að ekki væri mögulegt að koma vantrausti á dagskrá. Þetta er ekki rétt. Ég hef alltaf haldið því fram að ef stjórnarandstaðan legði fram vantraust þá mundum við að sjálfsögðu heimila afbrigði, þannig að það mætti koma á dagskrá. Við hræðumst ekki þá umræðu.

Síðan gerist það að þingmenn Alþfl. leggja fram frv., frv. til laga um nefnd til að rannsaka málefni tengd Landsbanka Íslands. Þetta er flutt af þingmönnum jafnaðarmanna en sjálfsagt hefur ekki náðst samstaða um það í stjórnarandstöðunni að þetta mál mætti koma á dagskrá. Því er flutt annað mál á grundvelli stjórnarskrárinnar. Mér er það mjög minnisstætt að hv. þm. Svavar Gestsson taldi, fyrst þegar þessi hugmynd kom fram af hans hálfu, að leggja bæri fram mál sem þetta til þess að fara yfir greinar Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu og athuga sannleiksgildi þeirra greina. (Gripið fram í.)

Mér fannst ekki hæfa Alþingi að skipa nefnd á grundvelli stjórnarskrárinnar til þess að fara yfir greinar Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu. Ég er enn þeirrar skoðunar að þessi rannsóknarnefnd sé algjörlega óþörf.